<$BlogRSDURL$>

Friday, April 02, 2004

Til varnar Hannesi part1
... beiddi Bjarna bónda Þorsteinsson að selja mér 1 tn. af mó. Hann svaraði: „Nei, nei, nei; djöfull þá flöguna ég læt. Þeir sem geta ekki haft að sér hér á haustin, þeir verða að drepast þar sem þeir eru komnir. Nei djöfull þá flöguna að ég læt“. -
Úr Dagbók Magnúsar Hj. Magnússonar, færsla um 28. janúar 1910, varðveitt á Landsbókasafni Íslands. Síðar birt í ritinu Kraftbirtingarhljómi guðdómsins, öðru bindi ritraðarinnar „Sýnisbóka íslenskrar alþýðumenningar", bls. 288.

Þá gekk skáldið að ósk eiginkonu sinnar til hreppstjórans í Stórubervík og sagði að þau vantaði eldivið og fýrspýtur og bað um nokkrar móflögur að láni. Hreppstjórinn svaraði fljótt: Djöfull þá flöguna ég læt. Þeir sem ekki geta haft að sér á haustin verða að drepast þar sem þeir eru komnir.
- Halldór Kiljan Laxness, úr 2. kafla „Fegurðar himins", sem er fjórði hluti Heimsljóss. Hér tekið úr 5. útgáfu Heimsljóss II, bls. 146.

Á undanförnum mánuðum hafa íslenskir fjölmiðlar sent út fréttir af ævisagnaritun Hannesar Hólmsteins eins og um heimsviðburð væri að ræða. Hafa fjölmargir tekið þátt í umræðunni og er þeim mis mikill sómi af. Hingað til hef ég ekki blandað mér í umræðuna en ætla að gera það núna, lesendum mínum til mikillar armæðu væntanlega, þar sem margir eru orðnir leiðir á staglinu. En mér er einfaldlega nóg boðið og finn mig knúinn til þess að verja kennara min og frænda.

Nú hefur Prófessorinn án doktorsgráðu; Helga Kress, skrifað rúmlega 200 blaðsíður um tilttlingaskít, þ.e.a.s. notkun á tilvísunum í bók Hannesar um Halldór Kiljan Laxness. Það er með ólíkindum að einhver beri svo heiftugar tilfinningar í garð annars, að viðkomandi nenni að vinna mánuðum saman að því að klekkja á þessum heimatilbúna andstæðingi sínum. Heimilislíf hennar hlýtur að vera álíka áhugavert og hjá Haraldi pólfara. Þó er umræða um tilvísanir ekki óþekkt hér á landi, til að mynda gagnrýndu þrír fræðimenn (Einar G. Pétursson Sverrir Jakobsson og Sverrir Tómasson) Ólínu Þorvarðardóttur fyrir notkun hennar á tilvísunum í doktorsritgerð hennar. Einhverra hluta vegna höfðu fjölmiðlar engan áhuga á þeirri tilvísunarumræðu, enda nennti enginn að setja saman rúmlega 200 blaðsíðna skýrslu út af slíkum smámunum.

Hafi orðatiltækið að gera úlfalda úr mýflugu einhvern tíma átt við, þá er það í þessari umræðu um vinnubrögð Hannesar. Á tímabili heyrðust sterkari ásakanir opinberlega eins og ritstuldur, en slíkt getur einfaldlega ekki gengið upp að mínu mati þar sem ekki er reynt að stela. Í heimildaskránni er að finna allar heimildir sem stuðst var við og er það óumdeilt. Það hlýtur því að vera erfitt að stela einhverju þegar höfundanna er getið. Hluti af ástæðunni fyrir ónákvæmum ásökunum sem þessum er væntanlega sá að flestir þeirra sem voru hvað hneykslaðastir á innihaldi bókarinnar höfðu ekki lesið hana.

Verum hress með Helgu Kress.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?