<$BlogRSDURL$>

Friday, September 25, 2009

DV í stuði
DV hefur farið hamförum undanfarið og þá sérstaklega í afar hlutlausum fréttaflutningi sínum af samkeppnisaðila sínum en áhugi DV á Morgunblaðinu jaðrar við blæti. DV hefur þó undanfarið náð að henda inn einni og einni frétt innan um faglegu umfjöllunina um Moggann. Ein fréttin á dv.is bauð upp á fyrirsögnina: "Ótryggðir deyja frekar" sem er einhver áhugaverðasta fyrirsögn sem síðuhaldari hefur rekið augun í síðan bb.is bauð upp á: "Nýfæddum börnum fækkar á Ísafirði."

Tuesday, September 22, 2009

Maggi Scheving fær samkeppni úr óvæntri átt
Þær fregnir berast nú úr villta vestrinu að Verndari Bloggs fólksins, HáEmm, sé farinn að haga sér eins og (íþrótta)álfur þar vestra. Hefur HáEmm verið mikill íþróttafrömuður á þessu ári og farið ófáar ferðirnar í stúdíóið á ókristilegum tímum. Sjálfsagt er verndarinn orðinn eins og tálgað hrífuskaft en síðuhaldari hefur reyndar ekki séð kappann í langan tíma. Gerði tilraun til þess að koma við á hornskrifstofunni í Orkubúinu í lok júní en þá var HáEmm í fríi einu sinni sem oftar. Líklega hefur hann verið búinn með alla blýantana. Ýmsir áhrifamiklir menn í þjóðfélaginu velta nú fyrir sér hvaða þýðingu þessi breytti lífstíll kunni að hafa í Skutulsfirði. Sérstaklega munu margir meðlimir Vestfirskra Gleðipinna hafa áhyggjur af þróun mála en í þeim fróma félagsskap, hefur íþróttaiðkun í óhófi, verið litin hornauga hingað til. Nýjasta uppátæki HáEmm virðist svo hafa verið kornið sem fyllti mælinn en hann tók þá ákvörðun fyrir skemmstu, að hjóla til Bolungarvíkur og til baka. Tveir kunnir Gleðipinnar sáu nýverið ástæðu til þess að rjúfa þögnina og hafa tjáð sig um málið opinberlega og áhyggjur þeirra leyna sér ekki:

"Þetta var það síðasta sem þjóðin þurfti á að halda, eins og allt er nú orðið," sagði Addi Árna Búbba og Indriði Hákarl Óskarsson bætti um betur: "Allar grunnstoðir þessa þjóðfélags hafa nú hrunið. Djöfulsins!!"

Wednesday, September 16, 2009

Orðrétt
"Með allar kistur fullar af evrum frá Bæjaralandi þurfti að styrkja liðið. Rússneski landsliðsmaðurinn Pavel Pogrebnyak var keyptur frá Zenith í Pétursborg fyrir brot af Gomezar-gullinu. Pogrebnyak er stór og mikill framherji og sagt að með hann í liðinu muni Stuttgart ekki sakna gulldrengsins Gomez mikið. Eins og sjá má á myndinni þá eiga hárgelssalar og brúnku- og strípugerðarmenn Stuttgart ekki von á miklum bissness við komu Pogrebnyak. No-nonsense leikmaður!"

- Smári Karlsson í pistli hinn 9. september 2009 á nýrri snilldarsíðu um þýsku bundesliguna.

Einmitt það já
Tilþrif Rogers Federer tenniskappa frá Sviss fara nú sem eldur í sinu um alnetið og engin furða. Síðuhaldari hefur nú frekar takmarkaða innsýn í hvað er erfitt í framkvæmd og hvað ekki í þessari íþrótt. Hins vegar er nóg að skoða stærð mótsins, mikilvægi leiksins og tímapunktinn í viðureigninni til þess að átta sig á að þetta er meiriháttar moment í íþróttasögunni. Ég held samt að ég hafi einhvern tíma séð Brodda Kris gera eitthvað svipað í badmintonleik! Þeim ágæta manni hefur stundum verið líkt við Orra Örn Árnason eftirlitsmann.

Wednesday, September 09, 2009

Orðrétt
"Annars er óskandi að ekkert áríðandi kalli á Steingrím þessa daga þegar hann verður í göngum í heimabyggð sinni. Þar er nefnilega svo lélegt símasamband, eins og kom í ljós þegar frumvarp til eftirlaunalaga var lagt fram á sínum tíma. Þá náðist ekki í Steingrím dögum saman og fjölmiðlar létu sér nægja þá skýringu að hann væri fyrir norðan. Enn hafa þeir ekki sýnt því neinn áhuga hvað Steingrímur sjálfur bar úr býtum með samþykkt "eftirlaunafrumvarpsins", en sem leiðtogi stjórnarandstöðuflokks fékk hann rúmlega 15 milljónir króna aukalega í laun, vegna samþykktar frumvarpsins, þann tíma sem hann var formaður vinstrigrænna utan ríkisstjórnar."

- Vef-þjóðviljinn hinn 3. september 2009.

Friday, September 04, 2009

Munnmælasögur#106
Maður er nefndur Sindri Sverrisson og hefur verið blaðamaður á íþróttadeild Morgunblaðsins undanfarin tvö sumur. Kannski maður er kenndur öllu heldur. Sindri hefur undanfarin ár lagt leið sína í Herjólfsdal fyrstu helgina í ágúst og hefur þar lent ýmsum ævintýrum og ekki síður skakkaföllum. Í sumar var Sindri fremur seint á ferðinni í undirbúningi sínum og lýsti áhyggjum sínum af því hve erfitt gæti orðið að fá flugfar til Eyja. Þegar Sindri fór loks á stúfana hljóp heldur betur á snærið hjá kappanum. Lýsti hann því hróðugur á íþróttadeildinni hvernig hann hefði bókað sig í ódýrustu sæti á norðurhveli jarða, til og frá Vestmannaeyjum með Flugfélagi Íslands. Fengu allir að heyra hvers lags snilldar kaup Sindri hefði gert, hvort sem þeir eru frá Akranesi eða Gjögri. Síðar rann upp sá dagur er Sindri skyldi halda til Vestmannaeyja. Var það á föstudagskvöldi fyrir frídag verslunarmanna. Þurftu þá síðuhaldari og Sigurður Elvar að standa vaktina í Hádegismóum enda miklir stúkumenn, ólíkt öðrum starfsmönnum deildarinnar.

Flugfélagið dró nú ekki beinlínis út rauða dregilinn þegar Sindri mætti á Reykjavíkurflugvöll. Var manninum einfaldlega ekki hleypt um borð í vélina þar sem hann átti ekki pantað far. Eftir nokkur heilabrot komst Sindri að því að hann hafði pantað far frá Vestmannaeyjum á föstudeginum og til Vestmannaeyja á frídegi verslunarmanna!!! Ekki er beinlínis slegist um þau sæti og þar með komin skýringin á því hversu auðveldlega þessi pöntun gekk fyrir sig hjá kappanum. Víðir Sigurðsson er nú að athuga hvort hægt sé að gefa 3 M fyrir slíka frammistöðu en Sindri var í það minnsta leikmaður ágústmánaðar hjá Morgunblaðinu. Þess má til gamans geta að Sindri er verkfræðingur.

Wednesday, September 02, 2009

Orðrétt
"Menn eins og ég eru málið. Gallabuxur og bolur, auk einstaka skyrtu, voru og eru minn einkennisbúningur. Ég ek enn á 11 ára gömlum Nissan sem varla kemst upp Ártúnsbrekku. Ég er alveg laus við six-pack og er loðinn eins og villisvín (sem þýðir að hárin á líkamanum eru yfir meðallagi en ekki um of, annars væri ég loðin eins og api). Ég er svolítið fölur en útitekinn og hárið er tekið að þynnast. Og Excel er djöfullinn sjálfur í mínum augum. Ég er því kyntákn Nýja Íslands."

- Magnús Geir Eyjólfsson stjórnmálafræðingur í pistli á Pressunni þann 25. ágúst 2009.

Stuð
Við skulum bara leyfa þessum myndum að njóta sín eins og gjarnan er sagt í sjónvarpi.

Orðrétt
"Beita á verðpólitík sem neyslustýringu með mun markvissari hætti en gert hefur verið hingað til. Þá er mikilvægt að auka alla fræðslu um hvaða neysluvörur eru heilnæmastar."

- Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að hafa lagt vörugjöld á matvæli og vill stýra því sem kjósendur láta ofan í sig."

This page is powered by Blogger. Isn't yours?