<$BlogRSDURL$>

Tuesday, October 31, 2006

Orðrétt
"Í þessu efni er Draumaland Andra Snæs merkileg biblía hinnar firrtu oföldu kynslóðar sem hefur fengið staðfasta vissu fyrir að Íslendingar geti aldrei aftur orðið fátækir, hér geti aldrei orðið fátækir, hér geti aldrei orðið atvinnuleysi og að eymd 21. aldarinnar tilheyri bara einhverjum útlöndum. Íslendingar verði alltaf ríkir hvort sem þeir leggi eitthvað á sig til þess eða ekki. Þegar hér er komið sögu í bókinni er ég farinn að sakna leigubílstjórans sem í bókarbyrjun bendir rithöfundinum á að hann sé ekki í tengslum við raunveruleikann. Leigubílstjóri sem veit að tékkar koma ekki í pósti!"
- Bjarni Harðarson ritstjóri Sunnlenska í grein sinni "Að gera ekkert" í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál, 3 hefti 2. árgangur.

Ritdeiluaðvörun
Svo virðist sem löng og leiðinleg ritdeila sé í uppsiglingu á milli Sigurjóns SME Egilssonar og Jóhanns Haukssonar um það hverjir reyndust aumingjar og hverjir ekki, þegar eigendur fréttablaðsins Fréttablaðið tóku fram fyrir hendurnar á ritstjórninni. Þeir virðast þó sammála um að Fréttablaðið sé ömurlegt alveg eins og þeir voru sammála um hversu æðislegt Fréttablaðið væri þegar þeir unnu þar.

Annars hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Jóhann Hauksson sé snarklikkaður og ég styrktist í þeirri skoðun þegar ég sá hann í Silfrinu um daginn. Þegar hann var ekki með orðið þá starði hann með undirskálaaugunum á málninguna í loftinu. En grun minn fékk ég endanlega staðfestan um daginn þegar maðurinn viðurkenndi að hann hæfi daginn á því að dansa! Það er kannski hægt að fyrirgefa sumu fólki fyrir að vera morgunhresst, en þetta er nú bara ávísun á innlögn á stofnun. Stundum er sagt að fólk dansi til að gleyma. Vonandi dansar hann til þess að gleyma hversu slæmur fréttamaður hann hefur verið í gegnum tíðina. Það virðist þó leynast húmor í Jóhanni, samanber þegar hann sótti um fréttastjórastöðuna á RÚV og þóttist stórmóðgaður þegar hann fékk hana ekki. Honum er því kannski ekki alls varnað.

Orðrétt
"Reynir Traustason er öflugur maður og fær ritstjóri. En ég verð ekki beint vitstola af löngun í að lesa tímarit þegar ég sé hann ríðandi á hesti í miðbænum með trefil og hatt í sjónvarpsauglýsingu. Eða er tímaritið kannski nýr Eiðfaxi? Bíð spenntur eftir Ísafold. Af hverju auglýsir Styrmir aldrei moggann á línuskautum? Sá í fréttum NFS uppúr Ísafold að Unnur Birna ætlar að kveðja sviðsljósið. Það gerir hún í forsíðuviðtali. Meikar sens!"
-Sigmar Guðmundsson á bloggsíðu sinni á sunnudaginn.

Friday, October 27, 2006

Nokkrar síður
Ef fólki leiðist á netrúntinum þá eru hérna nokkrar fínar síður sem er fínt að kíkja á í dag og á morgun.
Biggi
Illugi
Siggi
Sigga

Monday, October 23, 2006

Munnmælasögur#53
Nú verður rykið dustað af tuttugu ára gamalli bransasögu í tilefni af stórafmæli Bubba Morthens. Þannig bar til að hljómsveitin Stöðmenn átti að leika fyrir dansi í Vestmannaeyjum á laugardagskveldi þegar upp komst kveldið áður að Egill Ólafsson hafði verið tvíbókaður en sama kvöld þurfti hann að standa á sviði Þjóðleikhússins. Nú voru góð ráð dýr en Ragnhildur Gísla var rétt að ganga til liðs við hljómsveitina og tók ekki í mál að fylla skarðið þar sem hún kunni ekki öll lögin o.s.frv. Jakob Frímann fór um víðan völl þetta kvöld en allir söngvarar sem til greina komu voru bókaðir en þó hafði Bubbi gefið Kobba þá vonarglætu að ef allt klikkaði þá gæti hann reddað þessu. Eldsnemma morguninn eftir var ekkert annað að gera fyrir Kobba en að taka hús á kauða. Bubbi var heldur illa fyrir kallaður enda var þetta ekki á mesta heilsubótarskeiði kappans. Kobbi dröslar honum út í bíl, til Þorlákshafnar, út í Herjólf og inn í káettu.

Herjólfur lét dólgslega þennan morgun, enda vont í sjóinn. Bubbi var smám saman fölbleikur í framan og ælir einhver ósköp í vaskinn. Þarna fóru að renna á Jakob tvær grímur enda kóngurinn ekki í nokkru ástandi til þess að skemmta eyjaskeggjum um kvöldið. "Gafal Jakob gafal" styndur Bubbi en þá vantaði hann verkfæri til þess að hræra með í vaskinum. En þegar neyðin er stærst er hjálpin nærst og þegar Kobbi svipaðist um eftir gaffli, bar að innfæddan mann sem sagði að þess háttar heilsuleysi mætti lækna með einföldu húsráði. Taka tvær kúfullar matskeiðar af kakódufti, hræra saman við kalt vatn og skella í sig tveimur glösum af þessu. Þetta stóð eins og stafur á bók og Bubbi var eins og nýsleginn túskildingur á eftir. Að sögn Eyjamanna varð úr einhver besta skemmtun sem Stöðmenn hafa staðið fyrir á Heimaey.

Sunday, October 22, 2006

Íþróttahúsagagnrýni#2
Framheimilið Safamýri: Fór á Fram-Celje í Meistaradeildinni í gær. Framheimilið höndlar illa leik af þessari stærðargráðu en Höllin var upptekin út af einhverri sýningu. Blaðamenn voru settir á borð við hliðarlínuna og það slapp fyrir horn. Skífuþeytarinn var með músíkina á hreinu og þar hljómaði til dæmis: Don´t stop me now með Queen en hann var líka sniðugur að nota ýmis stef. Rétt áður en andstæðingarnir tóku vítaköst var stefið úr Jaws spilað og dramatískt óperustef þegar rekið var út af í 2 mínútur. Raulið úr Barfly var gjarnan sett á þegar Framarar skoruðu. Þar sem þetta var Evrópuleikur var bakkelsið með allra besta móti en eftir leik voru snittur og bjór í boði fyrir útvalda. Ágætis tvíbökur.

Friday, October 20, 2006

Orðrétt
"Við vorum kannski svolítið hrokafullir eftir góða byrjun í deildinni og kannski höfðum við gott af því að gera í buxurnar hér í dag."
- Valdimar Þórsson HK-ingur í Fréttablaðinu 18. október 2006 eftir tap gegn Stjörnunni í bikarnum.

Íþróttahúsagagnrýni#1
Blogg fólksins kynnir með stolti nýjan dagskrárlið. Um er að ræða íþróttahúsagagnrýni þar sem rýnt er í aðbúnað íþróttafréttamannsins, tónlist í húsinu og síðast en ekki síst: bakkelsið. Við hefjum leik á síðustu tveimur heimsóknum síðuhaldara sem voru í Austurbergið á sunnudag og í Seljaskóla í kvöld. Njótið.

Austurberg:
Síðuhaldari þurfti að biðja um leikskýrslu sjálfur sem er mínus en nóg pláss var í blaðamannastúkunni sem er plús. Hins vegar var ekki boðið upp á neitt bakkelsi sem er hneyksli - ekki einu sinni kaffi sem er nú yfirleitt á staðnum. Í Austurbergi spiluðu með Jerry Lee Lewis í hálfleik sem var fínt: Great balls of fire. Fyrir leik var ÍR lagið spilað sem er hefðbundið en einnig var Baywatch lagið spilað! Það kom á óvart en er vísbending um að enn sé bilaður húmor í gangi hjá handknattleiksdeild ÍR þó svo að Sveppi og Robbi Ég hafi snúið sér að öðru.

Seljaskóli:
Í íþróttahúsinu í Seljaskóla fékk Pétur Magnússon ófá höfuðhöggin í dentid. En það er nú önnur saga og sorglegri. Aftur að gagnrýninni. Engin leikskýrsla á staðnum og ekki fáanleg. Stór mínus en ástæðan mun vera einhver bilun hjá ritaraborðinu. Tónlistin í Hellinum er ávallt í lagi og þar eru Stónsarar í hávegum hafðir. Þar leika menn sér ekkert með einhverjar tilraunir heldur eru í klassíkinni en engin áhætta tekin í gettóinu. Cretance Clearwater Revival var einnig í græjunum þetta kvöld og The Who lagið sem er í CSI Miami. ÍR-ingar fá plús fyrir að láta síðuhaldara hafa kók og prins í hléinu. Öruggt val sem ekki stuðar neinn.

Orðrétt
"Stundum er talað um að kvikmyndagerðarmenn taki upp þrjár myndir. Fyrst er hún skrifuð, svo tekin upp og loks klippt. Mýrina skrifaði ég í Skagafirði og klippti einnig hér í Skagafirði. Það var því bara þetta í milli sem ég gerði ekki í Skagafirði; að taka hana upp. Þið megið samt vera ánægð með það því síðast þegar ég tók upp mynd út á landi þá muna allir hvernig það fór."
-Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður á frumsýningu Mýrarinnar í Skagafirði 17. október 2006.

Wednesday, October 18, 2006

Aumingjaskapur
Þvílíkir aumingjar og vesalingar eru þetta sem fara fyrir Morgunblaðinu. Í leiðara dagsins er lagst gegn hvalveiðunum. Og að sjálfsögðu eru dregin fram þau kostulegu rök að það komi stjórnmálamönnum eitthvað við hvort aðilar á markaði vilja kaupa eða neyta vörunnar. Við óbreyttir lausamenn þurfum að fara að teygja okkur í hauspokana.

Monday, October 16, 2006

Orðrétt
"Undanfarin ár hafa Ísfirðingar gengið óhræddir til hvílu. Haukfrán augu sýslumanns þeirra hafa vakað yfir þeim og hvers kyns glæpastarfsemi hefur verið kæfð í fæðingu. Hápunkti náði þessi embættisfærsla fyrir skömmu þegar tókst að fletta ofan af skipulagðri glæpastarfsemi sem hafði grafið um sig í sex áratugi. Einn af borgurum bæjarins hafði stundað það að fara ránshendi um bæinn þegar dró að áramótum. Helst ásældist hann ýmsa skrautmuni bæjarbúa. Sér í lagi ef munirnir voru úr timbri. Munina brenndi hann um ármót og naut til þess aðstoðar margra vafasamra fýra. Svo slæm áhrif hafði þessi starfsemi á samborgara hans að þeir voru farnir að hópast að brennum þessum og syngja ýmsa miður fallega söngva og horfa á björgunarsveitir brenna fjármunum í líki flugelda."
- Halldór Jónsson blaðamaður í aðsendri grein á bb.is.

Friday, October 13, 2006

Fallandi "stjarna"
Jónas Kristjánsson fyrrverandi ógeðisritstjóri DV hlýtur að vera einn ómálefnalegasti maður landsins. Það er eitthvað sem hlýtur að hafa aukist hratt í seinni tíð enda skilst mér að maðurinn hafi verið fremur vinsæll penni á árum áður. Félagi minn Sigurður Kári lagði fram frumvarp vegna ærumeiðinga við upphaf þings þar sem meðalið er að þyngja sektir fyrir ærumeiðingar. Þeim vinkli sleppti Jónas þegar hann hannaði siðareglur fyrir DV. Jónas hefur þetta um málið að segja á heimasíðu sinni:

"Vladimir Pútín hefur fundið einfaldari leið en Sigurður Kári til að þagga niður í blaðamönnum, sem skrifa illa um fólk. Anna Politkovskaja var skotin til bana, því að hún var að skrifa grein um pyndingar rússneska hersins í Tsjetsjeníu. Sigurður Kári er á svipuðum nótum og ríkisstjórnin í Írak, sem hefur sett lög um, að blaðamenn skuli ekki vera með neinn dónaskap. Þar í landi hafa 130 blaðamenn verið drepnir, en nú hafa hrannast upp málaferli gegn þeim, sem tala út um spillingu embættismanna. Allir verða þeir dæmdir og munu fá risaháar sektir. Er Sigurður Kári ekki í röngu landi?"

Maður sem bregst við þessu sakleysilega frumvarpi með þessum hætti á eitthvað verulega erfitt með rökhugsun. Raunar á Jónas það til að bregðast ókvæða við að minnsta tilefni. Skemmst er að minnast þess þegar Landlæknir gagnrýndi myndbirtingu DV af sjúklingi sem grunur lék á að væri með hermannaveiki. Landlæknir fékk heldur betur fyrir ferðina í næsta leiðara. Mér hefur fundist sem Jónas hrópi hærra eftir því sem að minna er hlustað á hann. Verði þá grófari og ósvífnari. Sigurjóns Þórðarsonar cindrumið, svokallað.

Grímur bæjó
Ritstjóri Bloggs fólksins hefur fengið fjölmörg hótunarbréf þess efnis að honum sé hollast að fjalla eitthvað um ráðningu í bæjarstjóradjobbið í Bolungarvík á þessu annars ágæta bloggi. Hefur síðuhaldari verið sakaður um að reyna að þagga ráðninguna í hel og því best að bæta úr því þar sem nánast ekkert var um hana fjallað í fjölmiðlum. Fyrst var ég frekar hissa þegar ég heyrði af ráðningu Gríms en þó í aðra röndina nokkuð létt yfir því að cv-istinn Glúmur Baldvins hefði ekki verið ráðinn. Mér rann þó kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég komst að því að bæjarstjórinn hefði kosið að nefna fyrirtæki sitt Austur-Þýskaland. En þó er ekki víst að ástæðan fyrir því tengist pólitík. Kannski var maðurinn veikur fyrir afrekskonum Austur Þjóðverja í kastkreinum á Ólympíuleikum? Eftir að hafa spurst fyrir á Mogganum þá komst ég að því að maðurinn þætti sniðugur og duglegur. Við það róaðist síðuhaldari töluvert. Tek líka undir með Kalla Hallgríms að Kristján Freyr og Gummi Halldórs myndu ekki vera með einhverjum vitleysingi í hljómsveit.

Eins og sjá má í færslunni hér fyrir neðan voru skiptar skoðanir um hvort ráðningu sem þessa þurfi ekki að útskýra sérstaklega fyrir umbjóðendum. Ef ég tæki undir það sjónarmið væri ég að taka undir sjónarmið varðandi ráðningar sem eru mér ekki að skapi. Ég er almennt þeirrar skoðunnar að ferilskrár segi ekki alla söguna um umsækjendur. Að hafa menntun og starfsreynslu er gott og blessað en persónuleikinn og mannleg samskipti hljóta að vega þungt. Það er vandmælt og þess vegna aldrei tekið með í reikninginn þegar Hjördísar Hákonardætur þessa lands, kæra ráðningar vegna skorts á kvenkyni eða meintri vanhæfni þess sem ráðinn var. Á meðal umsækjenda voru til dæmis menn sem ég kannaðist ekki við en höfðu menntun sem ætti að vera heppileg í bæjarstjórnun: Mastersgráður í fjármálastjórn og opinberi stjórnsýslu. Hins vegar getur vel verið að þessir menn fari úr öllum fötunum og maki sig út í marmelaði. Slíkt vill gjarnan gleymast í cv upptalningu.

Mér finnst því ekki að meirihlutinn þurfi að rökstyðja ráðninguna opinberlega. Þau hafa lýðræðislegt umboð og eiga að taka ákvarðanir. Þau þurfa jafnframt að vinna með þeim sem er ráðinn og eiga að velja þann sem þau treysta best. Aðhaldið hafa þau með kosningum og verði Bolvíkingar ósáttir við hvernig til tókst, mun það bitna á meirihlutanum eftir fjögur ár. Svo einfalt er það að mínu mati. Á hinn bóginn get ég vel skilið að einhverjum þyki þessi neitun á rökstuðningi sérkennileg í ljósi þess að nokkru púðri var eytt í að tala um íbúalýðræði í kosningabaráttunni. Það slagorð virðist því hafa verið innihaldslítið en það breytir í engu minni skoðun á málinu enda hef ég ekki mikla trú á íbúalýðræði á borði, frekar en minn gamli kennari Gunnar Helgi Kristinsson.

Blogg fólksins óskar Grímsa velgengni í starfi.

Orðrétt
"Reyndar hafa margir velt því fyrir sér hvers vegna þroskaþjálfi hafi verið tekinn fram yfir marga sem virðast hafa margt til brunns að bera er duga má til þess að stjórna í samræmi við kenningar nútímans. Við því á aðeins bæjarstjórn Bolungarvíkur svar. Hún hefur neitað að rökstyðja opinberlega ákvörðun sína. Það er ekki vænlegt að hunsa með þeim hætti kjósendur sína. Getur verið að forseti bæjarstjórnar telji ástæðulaust að þreyta kjósendur með rökstuðningi? Kjósendur hafi þegar sinnt sínu hlutverki. Þeir kusu og nú er röðin komin að því að sýna þeim hver fer með völdin."
- Stakkur í Bæjarins Besta 6. september 2006.

Hvað er málið?
Það er ævintýralegt hvað Íslendingar nenna að snobba fyrir Jókó Ó Nó. Hvað er búið að gera margar fréttir og taka mörg viðtöl út af þessu súluveseni? Súla með engum súludansi. Frekar dasað. Hennar arfleið verður að hafa splundrað einu besta bandi sem tjúttað hefur á jarðkringlunni og þetta friðarbrölt hennar breytir því ekki. Enda hefur sjaldnast verið mjög friðsamlegt í kringum hana að mér skilst. Friðarsinnarnir sem spörkuðu í hundinn fyrir utan Stjórnarráðið ættu að vera sendir í heimsókn til hennar. Þessi súla getur svo verið fánastöng á golfvellinum sem búinn verður til í Viðey.

Tuesday, October 10, 2006

Skólastjóri baðar sig í sviðsljósinu
Haldiði að Valdimar Víðisson skólastjóri og fyrrverandi togarasjómaður hafi ekki troðið sér á forsíðu blaðsins Blaðið í dag. Og hvert er hið aðkallandi umræðuefni viðtalsins? Jú óhefðbundið heimanám! Ég hef aldrei á ævinni sofnað jafn oft yfir einni stuttri blaðagrein eins og þessari. (Eða jú kannski einu sinni: Þegar hinn meðvitaði þingmaður Ágúst Ágúst Ágústsson heimsótti húsakynni Mæðrastyrksnefndar í aðdraganda síðustu kosninga, og lenti fyrir magnaða tilviljun í viðtali út af því við Fréttablaðið daginn eftir. En það er nú önnur saga og fallegri.) Það sem máli skiptir er að skólastjórinn á Grenivík skuli hafa greiðan aðgang að fjölmiðlafólki til þess að segja frá símtölum sem hann fær frá starfssystkinum sínum. Annars hef ég aldrei fengið almennilegan botn í hvers vegna þessi metnaðarfulli skólameistari sótti ekki um stöðuna í Víkinni síðast.

Monday, October 09, 2006

Orðrétt
"...og nú skulum við hafa í huga að þessi margblessaða Samfylking er eitthvert hrikalegasta tækifærissinnarassgat til að hafa dregist um veröldina á seinni árum, að Samfylking hafi verið að nota þetta formannskjör til að klekkja á VG í einhverri refskák til að jafna aftur út atkvæðafjöldann (en eins og alþjóð veit hefur VG grætt töluvert af kjósendum á aukinni umhverfisvitund Íslendinga). Þetta er kannski langsótt - en eftir stendur spurningin: Hvernig í ósköpunum fengu menn þá grillu í höfuðið að VG gæti greitt Smára Geirssyni atkvæði sitt?"
-Eiríkur Örn Norðdal skáld um eftirmála formannskjörs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Thursday, October 05, 2006

Gæðamat Binna Flosa
Binni Flosa er búsettur í Svíþjóð sem stendur og er með skemmtilegt blogg í gangi. Þar er merkilega færslu að finna sem heitir Blogg 103. Við skulum nú aðeins grípa niður í hana en þar lýsir Binni af vitsmunum og víðsýni hvernig skuli haga sér í bloggheimum:

"Að lokum vil ég benda á nokkrar mjög skemmtilega síður sem ég heimsæki á hverjum degi og ættu að í raun að vera námsefni í áfanganum Blogg 103.

Kristján “Stálið” Jónsson. Maðurinn skrifar bara fyndnar færslur.
Sigmar í Kastljósinu. Mér lýður eins og við séum bestu vinir því ég fer svo oft við hjá honum.
Orðið á götunni. Eru oft á undan fjölmiðlum með fréttir og yfirleitt eru þær réttar."

Nú kann einhverjum lesendum að þykja þessi vegtylla síðuhaldara vera merki um persónuleikatruflanir hjá Brynjólfi en sé horft fram hjá því þá er ég sammála þessu með Simma Bolvíking. Lengi hefur staðið til að benda lesendum á bloggið hans Simma en þar detta reglulega inn gullmolar. Ég er ekki með haldbærar upplýsingar um hver kenndi Simma að skrifa en Ásgeir Þór kenndi honum alla vega að tala í ræðustól þegar Simmi var í Fjölbraut í Garðabæ.

Roklandið
Þar sem Jón frá Seljanesi er alla jafna uppveðraður yfir lesefni síðuhaldara, þá er sjálfsagt að upplýsa að á náttborðinu núna er Rokland Hallgríms Helgasonar. Er kominn 100 blaðsíður inn í hana sem er reyndar ekki mikið þegar Hallgrímur er annars vegar. Hún lofar góðu enda er aðalpersónan Böðvar Steingrímsson meinfyndinn. Minnir á vissann hátt á Hlyn í 101 Reykjavík nema menntaðari og býr úti á landi. Ég bind vonir að við að geta skemmt mér með Böðvari á næstunni sem vel að merkja bloggar af krafti á http://rokland.blogspot.com.

Tuesday, October 03, 2006

Munnmælasögur#52
Fyrir nokkrum árum fékk síðuhaldari sér símalínu inn í dúfnakofann á Grandaveginum. Fulltrúi EG ættarinnar hjá Símanum, Stuðfinnur Einarsson, var settur í málið og úr varð númerið 5621977. Síðuhaldara var illilega brugðið þegar fyrsti gluggapósturinn frá Símanum skilaði sér og þar stóð: Kristján Jónsson, Star Wars aðdáandi númer 1! Þegar þetta var borið undir Stuðfinn svaraði hann: "Já 77. Fékkstu þér ekki númerið 1977 út af því að þá var fyrsta Star Wars myndin sýnd?" Eftir nokkra þögn þá svaraði ég því til að ég hefði einfaldlega fengið mér númerið vegna þess að um væri að ræða fæðingarár mitt. Málið væri nú ekki flóknara en svo. Raunar er síðuhaldari á meðal sístu Star Wars sérfræðinga landsins og hefur ekki einu sinni séð allar myndirnar, hvað þá annað. Man líklega best eftir Spaceballs. En nálgun Stuðfinns á viðfangsefni sín hjá Símanum er allrar athygli verð. Rétt er að geta þess að hann hefur ekki enn fengist til þess að breyta þessum titli á gluggapóstinum.

Fyllilega sanngjarnt
Fór á bikarúrslitaleikinn á laugardaginn. Hef ekki séð lélegra KR-lið lið í annan tíma. Fór þegar um tíu mínútur voru eftir enda úrslitin þá löngu ráðin en KR-ingarnar höfðu þá ekki skapað sér eitt dauðafæri í leiknum. Í skásta færi þeirra kixaði gullkálfurinn Takefusa. Sigur Keflvíkinga var fyllilega sanngjarnt og þeir eiga jafnframt skilið að vinna bikar eftir að hafa verið skemmtilegasta lið sumarsins. Eina liðið sem spilaði blússandi sóknarbolta frá vori til hausts.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?