<$BlogRSDURL$>

Friday, April 28, 2006

Vissir þú ....? #7
Vissir þú að vestfirska fyrirtækið 3X stál fékk á dögunum útflutningsverðlaun forsetaembættisins fyrir árið 2005? Til glöggvunar á umfangi þessara verðlauna þá fékk Kaupthing banki þau í fyrra.

Vís er sá sem víða fer
Nokkur bið hefur orðið á blogguppfærslu undanfarið vegna utanlandsferðar síðuhaldara. Skrapp hann til Andalúsíu og kynnti sér uppskeru jarðaberjabænda í héraðinu. Virðist hún vera með ágætu móti. Jafnframt var gripið í golfkylfu fyrst þangað var komið á annað borð. Þá sérstaklega pútterinn. Í tilefni sumarkomu verður hin huggulega lánaða kveðja frá Jónasi Jónassyni, Passið ykkur á myrkrinu, lögð til hliðar í bili. Megi skemmtileg fyllerí verða á vegi ykkar í sumar.

Monday, April 17, 2006

Orðrétt
"Hvaðan fær fólk svona hugmyndir um að Bítlarnir eigi að gefa 200 milljónir dollara til Suður Ameríku? Bandaríkin eru búin að dæla billjónum í slíka staði. Og það hefur ekkert að segja. Þegar fólkið er búið með þá máltíð, hvað þá? Þetta er ein eilífðar hringrás. Það er hægt að dæla inn peningum endalaust. Eftir Perú, þá Harlem, síðan Bretland. Þetta er ekki spurning um einhverja eina tónleika. Við yrðum að helga restina af lífi okkar einu allsherjar heimstónleikaferðalagi og ég er ekki til í það."
- John Lennon Bítill í jólahefti Playboy árið 1980.

Wednesday, April 12, 2006

Islandtilla, háborg skemmtanalífsins bíður í ofvæni
Síðuhaldari fer í sína jómfrúargolferð strax eftir páska. Hefur hann verið plataður í hina bolvísku Islandtillaferð þar sem golf er leikið kvölds og morgna. Góðir menn eins og Baldur Smári, Runólfur og fleiri hafa farið þangað árlega til að spila golf allt frá því land byggðist á Spáni. Í fyrra bættist svo mjög við hópinn þegar fyrirferðamiklir kylfingar á borð við Rögga pensil, Jón frá Dröngum og Bjart Flosa fengu að fara með. Eftir það var skipt í tvo hópa, Svarta gengið sem var til fyrir og Hvíta gengið. Ég kann ekki nægilega vel sögurnar á bak við þessi nöfn. Þessir metnaðarfullu menn hafa í nokkur ár haldið úti síðu fyrir Svarta Gengið sem er tileinkuð þessum ferðum. Síðuhaldara hefur nú verið bætt við hópinn þar sem fram koma mikilvægar upplýsingar. Þar sem þetta er Bolvíkingaferð þá þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram að Orri frá Hjalli skráði sig med de samme....óumbeðinn.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, April 11, 2006

Orðrétt
"Er nema von að fangelsið hafi orðið mér enn ein sönnunin fyrir dásemdum anarkismans? Þjóðfélagið og einstaklingurinn eru andstæðingar."
-Gunnar Smári Egilsson forstjóri Dagsbrúnar í grein um fangavist sína í febrúarhefti Mannlífs árið 1997.

Monday, April 10, 2006

Lefty öruggur
Phil Mickelson vann Masters nokkuð örugglega þó lengst af hefði verið útlit fyrir mikla spennu. Kaupfélagsstjórinn á Ísafirði hafði þar með rétt fyrir sér og fær að launum vöruúttekt í Bónus í Ljóninu. Mickelson er einn af fáum þekktum kylfingum sem slær örfhent. Hann hefur hins vegar siglt undir fölsku flaggi því hann er alls ekki örfhentur eins og hinn mikli baráttumaður fyrir málstað örfhentra; HáEmm, hefur bent mér á. Mickelson byrjaði hins vegar að herma eftir pabba sínum eða einhverjum þegar hann var lítill og stóð þá gegnt honum og gerði bara eins. Hann speglaði sig því við rétthentann kylfing og þetta er útkoman. Mickelson er engu að síður gjarnan kallaður Lefty á mótaröðinni og er hann nú búinn að vinna tvö risamót í röð, PGA í ágúst í fyrra og svo Masters núna. Af öðrum kylfingum sem slá örfhent, má nefna Mike Weir, Nick O Hern, Bjarna Péturs og HáEmm.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, April 07, 2006

Munnmælasögur#46
Afi Jóns Steinars vinar míns, Kristinn frá Dröngum, var einn af þessum skemmtilegu persónuleikum sem krydda tilveruna og var vel þekktur á Ströndum, í Bolungarvík og raunar víðar. Kristinn var skemmtilega uppátækjasamur og eitt sinn bar svo við að hann ákvað að grípa í taumana til þess að fá eitt barnabarna sinna ofan af reykingum. Tekið skal fram að hér er ekki átt við Jón Steinar. Kristinn var á þessum tímapunkti kominn vel á áttræðisaldur og hafði reykt pípu í ríflega fimmtíu ár. Stráksi, sem var 16 ára, hafði reykt sígarettur um nokkra hríð. Kristinn spurði stráksa hvort hann ætti ekki auðvelt með að hætta þessum ósið, ef afinn myndi sjálfur hætta áratugalöngum pípureykingum sínum. Jú það var almennt talið að meira mál yrði fyrir þann gamla að leggja sinn ósið af. Kristinn reykti hins vegar aldrei framar pípu en stráksi var fallinn á sígarettubindindinu nokkrum klukkutímum síðar. Dáðist hann mjög að viljastyrk afa síns sem eðlilegt er og það gerðu fleiri. Kristinn hafði hins vegar hugsað þetta loforð sitt í þaula og sló varnagla. Þegar nikótínþörfin gerði vart við sig, stráði hann píputóbaki ofan á fölsku tennurnar og stakk þeim síðan upp í sig. Kristinn, sem jafnan átti svör við öllu, kallaði þetta einfaldlega tannlímið sitt! Þetta væri nauðsynlegt til þess að halda gómnum uppi. Þessu leyndarmáli er hér með ljóstrað upp með góðfúslegu leyfi Drangamanna.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, April 06, 2006

Masters byrjar í dag
Veislan byrjar í dag. Skemmtilegasta sjónvarpsefni sem hægt er að komast í: Masters mótið á Augusta. Sýn, besta sjónvarpsstöð í heimi sýnir frá mótinu alla dagana. Ég spái óvæntum úrslitum. Spái því að Jose Maria Olazabal sigri mjög óvænt, þó hann hafi sigrað þarna tvisvar áður. Andrés Davíðsson sveiflulæknir minn spáir Tiger sigri en nefnir einnig Ernie Els og Stuart Abbleby til sögunnar. Davíð Búason stórkylfingur frá Akranesi spáir hins vegar Retief Goosen. Hendið endilega inn spádómum á commentakerfið.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, April 04, 2006

Orðrétt
"Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að sækja um styrki til borunar á þremur hitastigulsholum til að rannsaka heitt vatn í jörðu í nágrenni Bolungarvíkur. Að sögn Sölva R. Sólbergssonar, formanns bæjarráðs, eru uppi hugmyndir um að nýta sér tækifærið sem gefst þegar bergrannsóknum vegna Óshlíðarganga lýkur. „Við vorum að hugsa um að grípa borinn“, segir Sölvi. Þá segir Sölvi mikið hafa verið kannað í þessum málum í nágrenni Bolungarvíkur."
- Frétt á bb.is þann 22. mars 2006.

Monday, April 03, 2006

Nú er bleik brugðið!
Þá sjaldan maður verður kjaftstopp! Ég er illa svikinn ef dyggir lesendur á borð við Kristinn H og HáEmm hafa ekki eitthvað sniðugt um þetta að segja. Maður fær aldrei frið fyrir þessum blaðasnápum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Einar Hólmgeirsson gæti verið í sérsveit íslensku lögreglunnar og notað bara bolta. Hann myndi bara skjóta menn niður."
-Gaupi í lýsingu á Sýn á laugardaginn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?