<$BlogRSDURL$>

Friday, April 07, 2006

Munnmælasögur#46
Afi Jóns Steinars vinar míns, Kristinn frá Dröngum, var einn af þessum skemmtilegu persónuleikum sem krydda tilveruna og var vel þekktur á Ströndum, í Bolungarvík og raunar víðar. Kristinn var skemmtilega uppátækjasamur og eitt sinn bar svo við að hann ákvað að grípa í taumana til þess að fá eitt barnabarna sinna ofan af reykingum. Tekið skal fram að hér er ekki átt við Jón Steinar. Kristinn var á þessum tímapunkti kominn vel á áttræðisaldur og hafði reykt pípu í ríflega fimmtíu ár. Stráksi, sem var 16 ára, hafði reykt sígarettur um nokkra hríð. Kristinn spurði stráksa hvort hann ætti ekki auðvelt með að hætta þessum ósið, ef afinn myndi sjálfur hætta áratugalöngum pípureykingum sínum. Jú það var almennt talið að meira mál yrði fyrir þann gamla að leggja sinn ósið af. Kristinn reykti hins vegar aldrei framar pípu en stráksi var fallinn á sígarettubindindinu nokkrum klukkutímum síðar. Dáðist hann mjög að viljastyrk afa síns sem eðlilegt er og það gerðu fleiri. Kristinn hafði hins vegar hugsað þetta loforð sitt í þaula og sló varnagla. Þegar nikótínþörfin gerði vart við sig, stráði hann píputóbaki ofan á fölsku tennurnar og stakk þeim síðan upp í sig. Kristinn, sem jafnan átti svör við öllu, kallaði þetta einfaldlega tannlímið sitt! Þetta væri nauðsynlegt til þess að halda gómnum uppi. Þessu leyndarmáli er hér með ljóstrað upp með góðfúslegu leyfi Drangamanna.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?