<$BlogRSDURL$>

Thursday, August 30, 2007

Orðrétt
"Við erum að tala um svartan strák sem heitir Gay. Það er ljóst að hann hefur þurft að geta hlaupið hratt!"
- Hinn smekkvísi Adolf Ingi Erlingsson í lýsingu á 200 metra hlaupi á HM í Japan á RÚV í dag.

Orðrétt
"Valdimar Jóhannsson er hálfviti. Það sést best á þessari mynd af hverju hann er kallaður Dilli Stúpid. Ég átti að skutla honum og Ernu kellingunni hans til Fljótavíkur og bað hann um að pakka létt. Við þyrftum að lenda í Tungu og bera farangurinn nokkra leið. Þetta var niðurstaðan; 8 innkaupapokar, tjalddýna, tjalddýnupumpa, veiðistöng, kol og allt saman í lausu. Ofaná þetta bættust tveir göngubakpokar, stórt og þungt tjald og svefnpokinn hennar Ernu sem Dilli missti síðan ofan í ána í Tungu.

Þetta er skólabókardæmi um það hvernig á EKKI að pakka fyrir Fljótavíkurferð. Það varð okkur til happs að Örn frændi ákvað að fara í Fljót seinna um kvöldið og þess vegna gátum við hent ca helmingnum í TF-POL. Annars hefði þetta aldrei komist fyrir í Kryppunni, fyrir utan það að hún hefði aldrei komist í loftið út af þyngd. Þegar þetta er skrifað eru the Stupids í tjaldi í Fljótavík. Ég er að spá í að heimsækja þau á eftir og sjá hvernig þau hafa það. Ég átti líka að koma með kassa af bjór fyrir Valda, honum fannst hann ekki vera með nógu mikið af drasli."
- Hálfdán Bjarki Hálfdánarson á bloggi sínu þann 17. ágúst 2007

Munnmælasögur#68
Maður er nefndur Sævarr Sölvi Sölvason og er barnabarn Lúsíar. Snævarr er miskilið fjármálaséní og á það til að vera nokkuð seinheppinn. Síðastliðið vor heimsótti formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, kosningaskrifstofu D-listans í Bolungarvík í aðdraganda kosninga. Vöfflur og annað bakkelsi var á boðstólum eins og gengur og gerist og Snævarr lét ekki sitt eftir liggja í veitingum. Hann þrífur rjómasprautuna og ætlar að skella vænni gusu á vöffluna. Snævarr átti erfitt með að átta sig á því hvernig tækið virkaði en eftir nákvæmar leiðbeiningar frá Dóru Línu tókst honum betur upp. Þegar rjómasprautann gaf sig loksins var Snævarr ekki einungis með fullan disk af rjóma heldur voru dökk jakkaföt Forsætisráðherrans einnig orðin hvít.

Í sumar sóttu önnur fyrirmenni Bolungarvík heim, en þá voru þeir Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Þórir Hákonarson framkvæmdarstjóri Ksí, á ferðinni. Eftir að hafa fylgst með knattspyrnuleik hjá hinu hæverska stórveldi BÍ/Bolungarvík, sátu þeir fyrir utan Langa Manga og drukku í sig bjórinn og veðurblíðuna. Þeir settust hjá nokkrum fótboltastrákum og fóru að ræða við þá um leikinn og 3. deildina. Þetta voru kunningjar Snævars, sem hafði brugðið sér frá og Geir hafði sest í sætið hans. Snævarr kemur askvaðandi og segir formanni KSÍ að hundskast úr sæti sínu. Geir segir kurteisilega að hann sé nú bara að ræða aðeins við strákana um fótbolta. "Þú hefur ekki hundsvit á fótbolta. Þú ert bara einhver sjóari á Flateyri," svaraði Snævarr og var hinn versti. Geir muldraði eitthvað um að hann hefði einhverja innsýn í fótboltann en Snævarr lét ekki svipta sig stoltinu og hélt áfram, hálfu ákveðnari en áður: "Ég hef oft séð og þekki þig alveg. Þú ert á sjó á Flateyri." Formaður KSÍ hrökklaðist í burtu enda sá hann að þessi maður myndi ekki gefa sig. Skemmtilegt er hins vegar að segja frá því að Geir Þorsteinsson spilaði eitt sumar með Gretti fyrir langa löngu.

Wednesday, August 29, 2007

Orðrétt
"Hvernig er það Ólafur Kristjánsson (þjálfari Breiðabliks), er þú ekki fyrst og fremst ánægður með að spila á Laugardalsvellinum og hafa ekki þurft að fljúga í leikinn?"
- Guðjón Guðmundsson fréttamaður í panel á blaðamannafundi í hádeginu vegna undanúrslita Visabikarsins.

Orðrétt
"Ég hef svo sem ekki mikið vit á dómgæslu og veit ekki hvað Egill Már var að hugsa en ég mun hugsa mig tvisvar um áður en ég stíg næst upp í flugvél."
- Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks í sjónvarpsviðtali á Sýn eftir leik gegn Víkingi sem Egill Már Markússon flugumferðastjóri dæmdi.

Hvíld?
Þessa dagana er RÚV að sýna frá HM í frjálsum sem er áhugavert sjónvarpsefni fyrir minn hatt. Ég var að fylgjast með undanrásum í 100m hlaupi karla og þá tók ég eftir því að Asafa Powell heimsmethafi, var lang fyrstur í riðlinum og á mjög góðum tíma. Hann byrjaði að slaka á eftir 60m og skokkaði nánast í mark en var samt á rétt rúmum 10 sekúndum. Ef maðurinn hefði klárað á fullu gasi hefði hann ógnað heimsmetinu, sem mig minnir að sé 9,79. Hvaða rugl er það að hvíla sig ef maður er 100 metra hlaupari? Við erum nú ekki að tala um mikla vegalengd. Er til of mikils ætlast að 100 metra hlauparar keyri á fullu þar til komið er yfir marklínuna? Er hægt að spara mikinn kraft á einhverjum metrum? Þetta ágæta tuð og þetta fína röfl var til heiðurs seth.blog.is.

Sunday, August 26, 2007

Orðrétt
"Asafa Powell og Tyson Gay eru ósigraði í 100m hlaupi í ár. Þeir hafa sigrað á fimm mótum hvor en þeir hafa ekki mæst í ár."
- Adolf Ingi Erlingsson í lýsingu RÚV á HM í frjálsum íþróttum þann 25/8 2007.

Friday, August 24, 2007

Munnmælasögur#67
Þessi munnmælasaga er fengin að láni frá þorskapabbanum Þórarni Tarfi Ólafssyni, a.k.a The Codfather. Hann flutti hana með miklum tilþrifum í brúkaupi vinar okkar, Jóns Hartmanns í sumar.

"Sagan gerist þegar þeir félagar bjuggu í platónskri sambúð norður á Akureyri. Í hönd fór erfiður vetur hjá fátækum námsmönnum og þar sem Þórarinn var reynslunni ríkari frá vetrinum áður, vildi hann innrætta Jóni spartverska lífshætti. Þar sem Jón er annálaður sælkeri komst hann að þeirri niðurstöðu með Þórarni að þeir skyldu leyfa sér eitthvað eitt í fyrstu verslunarferðinni í Bónus. Þórarinn er mikill kavíarmaður og fékk hann sér kavíar, en Jón valdi sér einhverja dýrindis kæfu. Kom þetta Þórarni nokkuð á óvart þar sem Jón er þekktur fyrir að vera mikill ostamaður. Einhverjum dögum síðar kemur Þórarinn heim á föstudegi, dauðþreyttur á sál og líkama eftir erfiða viku, og þráði ekkert heitara en að fá sér kavíar. Hann kom hins vegar að tómum ísskápnum ef frá eru taldar ósnertar dósir af kæfunni hans Jón. Þórarinn lítur á sambýlismann sinn sem sat sáttur í hægindastól og sleikti út um. Þórarinn reiddist mjög og grýtti kæfunni fram af svölunum í bræðiskasti.

Síðar um veturinn var Þórarinn farinn að hneppa öðrum hnöppum og eyddi drjúgum tíma úti í bæ. Hann kíkti þó reglulega við hjá Jóni. Eitt sinn lítur hann við hjá Jóni nokkrum dögum eftir að Jón hafði komist í álnir og hafði fé á milli handanna. Þórarinn opnar hurðina á íbúðinni og sér þar Jón liggja í sófanum. Að sögn Þórarins var Jón eins og rómverskur keisari. Lá hann þarna með smekkfullann silfurbakka af öllum osttegundum sem yfirleitt fást á Íslandi, létt bakkann hvíla á vömbinni og var með vínber í hárinu!! "

Ljóðahornið Mósaíksglugginn#12
Þórður eftir Sverri Stormsker:

"Hve sárt ég sakna þín.
Ég sit við legstein þinn
og hugsa um horfna tíð,
hjartans vinur minn.

Sú sannreynd sturlar mig
að við sjáumst aldrei meir.
Þú gafst mér hlýja sál,
sál sem eitt sinn deyr.

Ó, hve sár er dauði þinn,
þú varst eini vinur minn.
Einn ég stari í sortann inn
með sorgardögg á kinn.

Hve leið og laus við svör
er lífsins gönguför.
Við leyndardómsins dyr
deyja mennirnir."

Monday, August 13, 2007

Gleðin við völd
Þrátt fyrir frísklegt og unglegt útlit náði síðuhaldari að verða þrítugur síðastliðinn fimmtudag. Af því tilefni var slegið upp veislu í partýhúsinu á Traðarstíg 11 í Víkinni. Partýið var í einu orði sagt frábært enda þarna saman komið rúmlega fimmtíu af allra fallegasta fólki landsins. Þetta verður lengi í minnum haft, í minni family að minnsta kosti. Síðan var haldið á Kjallarann til þess að hlýða á tregafulla rödd Bigg Olgeirs. Hann píndi reyndar afmælisbarnið upp á svið sem endaði með því að taka fjögur lög, bæði vegna feykilegra góðra undirtekta og ekki síður þeirrar múgæsingar sem myndaðist, þegar síðuhaldari ætlaði að yfirgefa sviðið. Ekki vissi ég að ég ætti það eftir að syngja "Keep on rocking in the free world" uppi á sviði. En aðdáendur lagsins bið ég að afsaka þetta og taka viljann fyrir verkið.
Takk fyrir mig.

Tuesday, August 07, 2007

Big Ron#2
Big Ron var um tíma stjóri hjá Aston Villa. Náði hann þó nokkuð góðum árangri með þetta uppáhaldsknattspyrnulið Alberts Haraldssonar. Vorið 1993 barðist Villa um sigurinn í deildinni við Manchester United en gaf eftir á lokasprettinum. Í einum leiknum seint á tímabilinu hafði Villa gert jafntefli í leik þar sem liðið óð í færum sem illa gekk að nýta. Sérstaklega hafði Írinn Roy Houghton farið illa með sín marktækifæri. Eftir leikinn sagði Big Ron eftirfarandi við blaðamenn: "Góðu fréttirnar eru þær að ég ætla að láta stilla upp öllum mínum leikmönnum og láta skjóta þá. Slæmu fréttirnar eru þær að Roy Houghton mun sjá um að skjóta !! "

Friday, August 03, 2007

Orðrétt
"KFÍ/ML byggir starf sitt og stefnu á marxisma-lenínisma kenningum Maó Tse-tungs. Það er stefna KFÍ/ML að sameina innan sinna vébanda alla marxista-lenínista á Íslandi og berjast gegn endurskoðunarstefnu, trotskisma og öðrum borgaralegum stefnum sem fjandsamlegar eru hagsmunum verkalýðs og vinnandi alþýðu..."

"KFÍ/ML gengur inn í hina marxísku-lenínísku heimshreyfingu undir forystu kínverskra og albanskra kommúnistaflokksins...."

"Íslenskir marxistar-lenínistar hafa alltaf dáðst að og stutt hina hetjulegu baráttu kóreanskar alþýðu undir giftusamlegri forystu kóreanska Verkamannaflokksins og félaga Kim Il Sung... Þessi barátta er mikið fordæmi fyrir íslenska marxista-lenínista í byltingarsinnuðu starfi þeirra."

"Íslenskir marxistar-lenínistar hafa ætíð stutt og fylgt hinum mikla Kommúnistaflokki Kína undir forystu Maós formanns."

"KFÍ/Ml mun sameina verkalýðsstéttina undir forystu sinni og leiða hana fram til sósíalískrar valdabyltingar í bandalagi við smábændur og aðra vinnandi alþýðu, og afnema þannig auðvaldsþjóðfélagið og reisa alræði öreiganna."

- Úr bæklingnum: "Hvað vill Kommúnistaflokkur Íslands m-l." útgefinn af Verkalýðsforlaginu árið 1976.

Thursday, August 02, 2007

Nani fékk hárblástursmeðferðina
Eins og alkunna er í Manchester er Sir Alex Ferguson einhver mesti skaphundur sem riðið hefur um héröð. Kollegar mínir í Bretlandi tala um hárblástursmeðferðina þegar kallinn missir sig og öskrar á þá. Þá feykist hárið aftur á viðmælendum Fergusons og sleikist aftur í mafíósagreiðslu með öllu munnvatninu sem fylgir. Þetta er sem sé hin fræga hárblástursmeðferð og Portúgalinn Louis Nani mun hafa fengið eina slíka á dögunum. Nani skoraði þá mark fyrir United í æfingarleik og fagnaði því með ógurlegum fimleikatilþrifum eins og hann var vanur að gera í Lissabon. Hann tók sem sagt Lua Lua tilþrifin og fékk hárblástursmeðferðina fyrir vikið, enda hefur Ferguson takmarkaðan áhuga á að horfa á menn eyða kröftum í fimleikatilþrif á knattspyrnuvelli.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?