<$BlogRSDURL$>

Sunday, October 31, 2004

Lítill Nonni Geiri
Doddi Tangó vinur minn og Gunnhildur sambýliskona hans eignuðust á dögunum erfingja. Hefur frumburðurinn þegar fengið nafnið Krist..... Blogg fólksins óskar þeim til hamingju.
Passið ykkur á myrkrinu og barneignum.

Ungdómurinn
Ég botna ekkert í unga fólkinu nú til dags. Þau keppast um að lýsa því yfir í fjölmiðlum hvað þau sakni þess að vera í skólanum og hversu mikið þeim leiðist í verkfallinu. Í mínu ungdæmi var slíkt vanþakklæti hvergi sjáanlegt og krakkar voru almennt reglulega ánægð með að vera í verkfalli. Ég hefði ekki átt annað eftir en að koma fram í fjölmiðlum og óska eftir því að komast sem fyrst í skyldunámið.
Passið ykkur á myrkrinu og ungviðinu.

Monday, October 25, 2004

Mikael og ættleiðingin
Voru einhverjir fleiri en ég sem sáu Bjarna Harðarson lesa yfir Mikael Torfasyni í Silfrinu fyrir viku? Ég hef nú bara gleymt að minnast á þetta hér á Bloggi fólksins þar sem ég hef verið eitthvað svo and(setinn)laus. Þvílík ræða og það live on national tv. Hefði vafalaust verið klippt sundur og saman ef stamið hans Egils væri ekki í beinni. Bjarni er greinilega ekki hrifinn af ritstjórnarstefnu DV frekar en Fáfnir og las yfir Mikael og sagði að hann ætti að kunna að skammast sín. Bjarni var ekkert að hengja sig í að vera málefnalegur og sagði að fyrst Mikael ritstýrði slíku blaði blákalt, þá væri hann algerlega óhæfur til þess að ala upp börn! Eina sem Mikael gat sagt við þessu (ekki það að hann sé mjög mælskur að jafnaði) var: "Ertu að reyna að ættleiða börnin mín?" Það má vel vera að þessi sé Mikael drullusokkur yfir meðallagi en mér fannst þetta nú ekki vera Bjarna til sóma, en hann getur nú oft verið skemmtilegur í umræðum sem þessum.
Passið ykkur á myrkrinu og DV.

Saturday, October 23, 2004

Nýbylgjan og loftöldur
Ég grét í koddann yfir því að hafa ekki komist á ísfirsku nýbygjuna um daginn en ég var reyndar löglega afsakaður þar sem ég var kallaður út í vinnu fyrir Moggann. Svo ætlaði ég að bæta mér það upp með því að skella mér á Íslensku loftöldurnar en þá var orðið uppselt. Maður er eitthvað seinheppinn þessa dagana en ég var spenntur yfir því að hlýða á Keane en ég keypti diskinn þeirra fyrr í haust. Merkilegt tríó, píanó, trommur og raddbönd - enginn gítar og enginn bassi. Þetta hlýtur að vera óvenjulegt.
Passið ykkur á myrkrinu og poppinu.

Friday, October 22, 2004

Trallið bjargar Skrallinu
Nokkrir vaskir drengir úr MÍ hafa tekið sig til og ákveðið að standa fyrir dansleik (16 ára balli) um helgina á Suðureyri. Hefur við(bjóðurinn)burðurinn fengið nafnið Trallið. (Ég minnist þess að hafa eitt sinn farið á Skrallið í samkomuhúsinu á Suðureyri og bar það helst til tíðinda að Jón frá Dröngum æsti upp eins og nokkra ísfirskra dópsala. Kom það í minn hlut að greiða úr flækjunni með diplómatískum og yfirveguðum aðgerðum.) Forsprakki og talsmaður hópsins er enginn annar en stórrokkarinn og tankurinn Birgir Olgeirsson sem hefur ekki óskað nafnleyndar. Líður mér vel yfir þessu framtaki þeirra þar sem sárt hefði verið að horfa á eftir ungmennadrykkju í Menntaskólanum. MÍ verður jú að vera samkeppnisfær við aðra framhaldsskóla landsins og það er hann ekki ef félagslífið er borið uppi af rímnakvöldum Skólameistarans. (Ussssss það er hlaupinn einhver prakkari í síðuhaldara, nú mun Frú Margrét skamma mig).
Passið ykkur á myrkrinu og rímnakvöldum.

Thursday, October 21, 2004

Munnmælasögur #2
Hinum splunkunýja lið Munnmælasögur verður nú haldið áfram en þessi saga hefur birst í commentum hér á síðunni og verður nú haldið til haga þar sem gömul comment virðast eyðast upp eins og kveikiþráður.

Síðastliðið vor héldu fjórir vaskir menn frá Orkubúi Vestfjarða yfir hafið til Bítlaborgarinnar Liverpool enda miklir stuðningsmenn samnefnds knattspyrnuliðs. Með í för voru meðal annars Halldór Magnússon (HáEmm) og Reynir nokkur Helgason (pabbi Tomma). Voru þeir úti á lífinu og biðu eftir leigubíl fyrir utan skemmtistað. Eftir DRYKKlanga stund voru þeir orðnir fremstir í röðinni og loks kemur leigari og stoppar hjá þeim. Ryðst þá snaggaralegur kappi fram fyrir þá, fremur stuttur í annan endann og rokfínn til fara. Þegar hann er á góðri leið með að stela frá þeim bílnum, grípur Reynir þéttingsfast í öxlina á honum og segir hrjúfum rómi: "Hold your horses". Eins og sönnum Vestfirðingum sæmir létu Orkubúsmenn ekki bjóða sér slíka hegðun og tóku bílinn eftir að Reynir hafði bremsað manninn af. Leigubílstjóranum var verulega skemmt og sagði þeim að hann væri mikill stuðningsmaður Everton liðsins og hann hefði ekki í annan tíma séð framherja þeirra Tomas Radzinski fá aðra eins meðferð eins og þarna! Radzinski er nú fluttur búferlum úr borginni.
Passið ykkur á myrkrinu og OrkuBÚSmönnum.

Tuesday, October 19, 2004

Bart(ar)
Hinn geðþekki ritstjóri Bloggs fólksins hefur nú safnað myndarlegri börtum en hann hefur í annan tíma gert. Fyrirmyndin í bartasöfnun er tvímalaust bróðir minn Einar Þór Jónsson sem hefur verið með myndarlega barta allar götur síðan að hann fékk sér snúning á hinum víðfræga skemmtistað Studio 54 árið 1980.
Passið ykkur á myrkrinu og skemmtistöðum.

Tvöfalt líferni Hlöðvers...eða hvað?
Maður er nefndur Hlöðver Geir Tómasson og er góðvinur síðuhaldara. Hlöðver hefur hingað til verið þekktur fyrir heilsusamlegt líferni ef undan eru skildir kvöldfundir með grunsamlegum mönnum þar sem hann segist vera að spila bridds. Var mér því nokkuð brugðið er ég leit yfir dóplistann magnaða í fljótu bragði og sá nafnið Hlöðver Geir blasa við. Kalt vatn milli skins og hörunds og allt það en ég pírði augun til öryggis og sá þá að ég hafði snúið þessu við...þarna stóð víst Geir Hlöðver.
Passið ykkur á myrkrinu og dópsölum.

Friday, October 15, 2004

Helgarplön stjórnmálafræðikennara
Hef verið að velta fyrir mér dæmigerðum helgum hjá kennurum í stjórnmálafræðinni og þetta er niðurstaðan:
Gunnar Helgi: Skoðar fiskmatreiðslubækur út frá góðum stjórnsýsluháttum og bókar bandið sitt Spaðanna á Hróarskeldu.
Óli Þ: Fær sér nokkra bjóra niðri í bæ, segir nokkra brandara og lætur kvenkynsaðdáendur hafa númerið sitt.
Baldur: Spjallar við stjórnamálasérfræðinga frá Möltu um knattspyrnuleiki smáríkja og setur Greifana á fóninn.
Hannes: Les 15 bækur, svarar blaðagreinum frá Helgu Kress og Þorvaldi Gylfasyni og viðar að sér upplýsingum um briddsáhuga Kiljans frá maílokum til júníbyrjunar 1942.
Svanur: Skoðar feminisma í Aldingarðinum Eden út frá verkaskiptingu Adams og Evu og rannsakar hugmyndir Ingólfs Arnarssonar um Forsetavald.
Indriði: Les heimasíðu fyrrum meðhjálpara síns Gunnars Sigurðssonar og bókar sig á Færeyska daga í Ólafsvík.
Albert: Semur við Norðmenn um aðgang að norsk/íslenska síldarstofninum og kannar hernaðarlegt mikilvægi Þistilfjarðar með tilliti til rússneskra flugmóðuskipa.
Úlfar: Hringir í Eirík Bergmann og fer yfir hagsmuni ESB varðandi teppasölu í Tyrklandi og tekur 1. árs konur í aukatíma í lífsleikni.
Svanborg: Skrifar feminiskann leiðara í Fréttablaðið til að breiða yfir skort á kvenfólki í forystu blaðsins.
Brynhildur: Brýtur heilann um hvað hún sé að gera með Róberti Marshall og kemst ekki að niðurstöðu.
Arnkelsson: Fer úr öllum fötunum, smyr líkama sinn með kokteilsósu og les sögu aðferðafræði í Austurlöndum fjær.
Passið ykkur á myrkinu og kennurum.

Nonni og Manni
DJ Base vitnar í mig á blogginu sínu og talar um rafvirkjapoppslag sem mikið er spilað á öldurhúsum þessa dagana. Þetta er eitt af þeim lögum sem límist einkar auðveldlega á heilann á manni og ekki bætir gífurleg spilun úr skák. Ég skil ekki orð af því sem þessir menn segja en þó heyrist mér þeir segja í millikaflanum: "O sei sei, sei sei - Nonni og Manni hei." Ég komst síðan að því að kapparnir eru rúmenskir og hafa þeir síðan verið í miklu uppáhaldi, enda er eitthvað geysilega fallegt við það að vera (tónlistar)maður frá Rúmeníu. Ekki minnkaði gleði mín er ég sá myndbandið þar sem þessir kappar standa á flugvélavæng og eru að springa úr hamingju í hvítu buxunum sínum.
Passið ykkur á myrkrinu og límheilalögum.

Séra Gaupi
Fátt fer meira í taugarnar á mér en þegar íþróttafréttamenn Stöðvar2 (að Adda bold undanskildum) fara með hugvekjur eftir tapleiki fótsparks- og handkasts landsliða Íslands. Nú síðasta predikaði Séra Gaupi og tók einnig rispu við Logann Ólafs hjá Þórhönnu og Jórhalli. Ekki get ég sagt að ég hafi hrifist af leik landsliðsins í haust en þegar Gaupi byrjar að taka sjálfan sig hátíðlega þá bara fer samúð mín með hans málstað út í veður og vind. Auk þess er hræsnin svo augljós, einungis sumir landsliðsþjálfarar eru teknir fyrir. Aðrir eru stikkfrí burt séð frá árangri. En varðandi Svíaleikinn þá prísar maður sig sælann fyrir að Ísland skyldi spila stífann varnarleik, ég býð hreinlega ekki í það ef liðið hefði EKKI spilað varnarleik.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, October 13, 2004

DJ Base í varðhaldi?
Það er nú orðið helvíti hart í ári í bloggheiminum þegar Baldur Smári er hættur að uppfæra og er mér nú farið að líða nokkuð eins og Ögmundi Jónassyni. Af hverju? Jú Ögmundi líst einhvern veginn aldrei á blikuna. Það kann að vera undarleg tilviljun en Baldur hefur ekki uppfært hjá sér síðuna síðan að Lögreglan gerði rassíu hjá tölvuþrjótum sem voru yfirgripsmiklir í fjölföldun á bíómyndum og tónlist af netinu. Eins og við lesendur DJ Base bloggsins vitum þá birtir Baldur að jafnaði um 100 hobbidi skobbidi lög á síðunni sinni í hverjum mánuði. Er fjarvera hans af blogginu því uggvænleg í ljósi þessara yfirvaldsaðgerða.
Passið ykkur á myrkrinu og Ögmundi.

Rangfærslur, rugl, rógur, radíusur, rófur og rabbabarar
BBC var víst með frétt. um að rappið væri 25 ára gamalt í dag þar sem rapplag hefði náð almennum vinsældum í fyrsta skipti þann 13/10/79. Þessu mótmæli ég bæði harðlega og kröftuglega. Ómar Ragnarsson var búinn að rappa í mörg ár þegar þarna var komið við sögu og við mjög almennar vinsældir á Íslandi. Auk þess minnist ég þess að Raggi Bjarna babbli eitthvað í íslensku útgáfunni af Jólaguðspjalli Boney M. Var það eflaust vinsælt framtak svona almennt.
Passið ykkur á myrkrinu og rappi.

Stór áfangi
Ég rauk nú bara út á náttfötunum þegar ég las þetta.
Passið ykkur á myrkrinu og stórfréttum.

Tuesday, October 12, 2004

Illugi lætur að sér kveða
Illugi Gunnars hefur verið nokkuð áberandi undanfarið, kominn í einkavæðingarnefnd og sjónvarpsþáttur hans og "Gettu Betur tvíbura systur Jakobsdóttur" byrjaður. Í báðum tilfellum er hann réttur maður á réttum stað. Hann mun rúlla þessum nýju verkefnum sínum upp. Hins vegar er ég ekki viss um að hann hafi verið sérstaklega ánægður með þessa mynd. sem fyrrum kollegar mínir á mbl völdu með fréttinni.
Passið ykkur á myrkrinu og Gettu Betur tvíburum.

Monday, October 11, 2004

Nemendafélag í nauðvörn
Maður á erfitt með að átta sig á því hvernig skólameistari MÍ getur komist að þeirri niðurstöðu að Nemendafélag MÍ eigi ekki að skipuleggja almennar skemmtanir nemanda skólans eins og hún sagði berum orðum í BB í dag. Hún sagði reyndar einnig að málið væri í skoðun og að nemendur yrðu hafðir með í ráðum hvernig best væri að skipuleggja slíkar skemmtanir. Þó er ljóst að Skrallið fellur niður en það hefur verið fastur liður á haustin frá því Vesfirskir Gleðipinnar voru allsráðandi í MÍ. Hugmyndin að Skrallinu fæddist einmitt þegar Ásgeir bróðir, Dóri Mag og fleiri voru á rúntinum og vantaði viðburð þegar heilt fótboltalið af stelpum var að koma vestur. Var fyrsta skrallið haldið í Félagsheimilinu í Bolungarvík sem lét nokkuð á sjá eftir þennan menningarviðburð.
Passið ykkur á myrkinu og Skrallinu.

Saturday, October 09, 2004

Trausti úr Vík hleður byssuna
Athafnaskáldið og frændi minn Trausti úr Vík virðist alltaf vera við sama heygarðshornið (aldrei skilið þetta máltæki almennilega þó ég kunni að beita því) í Eyjafirðinum. Reyndar hafa færri pistlar dottið inn á Landpostinn.is eins og síðasta vetur en þó las ég tvo um daginn. Ég gæti trúað því að lesendur Bloggs fólksins muni skemmta sér vel yfir þessum pistlum þar sem Trausti úr Vík tekur fyrir íslenskt kvenfólk á mjög hlutdrægann og illa rökstuddann hátt. Þeir heita "Um íslenskar konur frægð og peninga" og "Svar við dómurinn hefur fallið" þar sem Trausti svarar gagnrýni á fyrri pistilinn.
Passið ykkur á myrkrinu og Trausta úr Vík.

Friday, October 08, 2004

Langt á undan minni samtíð
Vorið 2002 benti ég á, í blaðagrein í Morgunblaðinu, hversu mikil slysagildra gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrabrautar væru. Var í greininni lýst yfir undrun á því að Error-listinn skyldi hafa tekið áætlanir um mislæg gatnamót út úr framtíðarskipulagi borgarinnar eftir að hann komst til valda árið 1994. Error-listinn hefur í sjálfu sér lítið gert í þessu máli síðan, nema þá helst að halda því fram að flest slysin á þessum gatnamótum eigi sér stað að næturlagi og að með mislægum gatnamótum muni umferðarþunginn bara færast niður á gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar!!! Mikill úlfaþytur var vegna þessa máls í fjölmiðlum um daginn eða rúmlega tveimur árum eftir að ég skrifaði þessa skemmtilegu grein í Moggann. Sannast því enn hið fornkveðna að enginn er spámaður í eigin föðurlandi ef hann er langt á undan sinni samtíð! Vegna þessara umferðarvangaveltna þá frábið ég mér öll komment og háðsglósur varðandi einbreiðar og tvíbreiðar brýr.
Passið ykkur á myrkrinu og bílunum.

Einsi bæjó 35 ára
Frændi minn Einar Pétursson bæjarstjóri varð 35 ára á dögunum og á því bara eitt ár eftir á SUS aldri. Litli bróðir hans Harald leggur sig fram við að hrella hann dagana langa og kom mjög skemmtilegri frétt að á Víkara.is. Blogg fólksins óskar Einar til hamingju með árin og þessa mynd.
Passið ykkur á myrkrinu og yngri bræðrum.

Ólundína skekur menntastofnun
Þeir fulltrúar Cocoa Puffs kynslóðarinnar í Villta vestrinu, sem ég hef rætt við undanfarna daga, vanda skólameistaranum Ólínu Þorvarðardóttur ekki kveðjurnar. Blessuð dúfan tók sig víst til og rak eins og fimmtung MÍ nema í 3 daga eða viku, allt eftir eðli brota. Vægari brottrekstrarsök mun vera ölvun í óvissuferð skólans og harðari refsingin mun vera vegna meintrar dreifingar á Bakkusi í þessari sömu ferð. Samkvæmt mínum heimildum hefur skort nokkuð á haldgóð rök og sannanir í málinu en í því fer skólameistari víst bæði með framkvæmdar -og dómsvald, sem skoðanasystkini hennar í landsmálum segja að megi alls ekki vera á sömu hendi undir nokkrum kringumstæðum. Er ég reyndar sammála því og finnst þessar aðgerðir vera fremur harkalegar, enda er það ekki nýlunda að áfengi sé haft um hönd á framhaldsskólaskemmtunum á Íslandi - refsingar munu ekki breyta því.
Passið ykkur á myrkrinu og skólameisturum.

Wednesday, October 06, 2004

Mörðurinn
Mörður Árnason skellti sér í Silfur Egils um helgina og jós úr skálum reiði sinnar yfir viðmælendur sína. Uppspretta reiðinnar var Halldór Blöndal og Mörður einbeitti sér aðallega að því að ráðast að Blöndal persónulega, sem auðvitað var ekki á staðnum til þess að svara fyrir sig. Það hlýtur að vera ansi þungur dómur að bæði heita Mörður og vera mörður.
Passið ykkur á myrkrinu og merðinum.

Lobbyismi á Íslandi
Gærdagurinn var kostnaðarsamur fyrir félagsmenn í Öryrkjabandalagi Íslands. Bandalagið var nefnilega með heilsíðuauglýsingu í öllum þremur dagblöðum landsins. Samkvæmt heimildum mínum gæti kostnaðurinn við það verið í kringum milljón. Hagsmunasamtök og þrýstihópar á Íslandi eru í æ ríkari mæli farnir að setja pening og krafta í að lobbya fyrir almenningsálitinu. Ekki er óeðlilegt að slíkir hópar beiti sér gegn yfirvöldum og viðsemjendum sínum þegar svo ber undir en dýrar auglýsingaherferðir eru kannski annar handleggur. Þá er væntanlega verið að reyna að ná athygli einhverra annara. Ég velti því fyrir mér hvort Öryrkjabandalagið gæti ekki nýtt 1 milljón króna á betri hátt fyrir félagsmenn sína heldur en í þrjár blaðaauglýsingar sem innihéldu eina setningu hver.
Passið ykkur á myrkrinu og lobbyisma.

Spaderinn
Ég var ekki hissa þegar James Spader fékk verðlaun á dögunum fyrir frammistöðu sína í þáttunum The Practice. Maðurinn er sturlaður í þessum þáttum. Reyndar virðist hann alltaf leika týpur sem eru klikkaðar og það fer honum bara reglulega vel. Síðast sá ég hann í einhverri kvalalosta-mynd sem hafði sópað til sín verðlaunum á einhverjum kvikmyndahátíðum í Finnlandi og Makedóníu. Hún var verulega steikt en það er bara eitthvað svo gaman af svona klikkuðum leikurum eins og honum.
Passið ykkur á myrkrinu og kvalalosta.

Friday, October 01, 2004

Ráp á stjórnarandstöðunni
Mér skilst að flestir þingmanna stjórnarandstöðunnar hafi yfirgefið þingsalinn í dag undir ræðu Blöndalsins í einhverju skyni sem kennt er við mótmæli. Sögðu einhverjir þeirra að ekki væri hægt að sitja undir sleggjudómum, órökstuddum fullyrðingum og þess háttar málflutningi. Hafa þeir þar með fundið ástæðu þess að svo fáir Ráðherrar sitja að jafnaði undir málflutningi sjórnarandstöðunnar í þinginu. Ég frétti að Helgi Hjörvar, Möddi og Einar Már hafi verið fyrstir til þess að yfirgefa salinn. Sjaldan eða aldrei hefur orðatiltækið "Farið hefur fé betra" átt jafn vel við og þá.
Passið ykkur á myrkrinu og stjórnarandstöðunni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?