<$BlogRSDURL$>

Sunday, March 30, 2008

Orð vikunnar#2
Orð vikunnar myndi vera: forskrúfaður. Heyrði þetta notað í gær í fyrsta skipti. Þetta á víst að þýða eitthvað á þá leið að sé einhver forskrúfaður þá sé hann eitthvað steiktur. Svipar til þess að vera með lausa skrúfu. Ég ætla að reyna að taka þetta upp.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, March 26, 2008

Gloria
Síðuhaldari er nú staddur í Tyrklandi þar sem hann er að kynna sér siði og venjur heimamanna á Antalya svæðinu. Haldið er til að golfsvæði sem er í mikilli uppbyggingu og heitir Gloria resort í höfuðið á konu sem á allt draslið að mér skilst. Á herbergi síðuhaldara eru ýmsar sjónvarpsstöðvar eins og gengur. Breskar, bandarískar, tyrkneskar og rússneskar svo eitthvað sé nefnt. Eitt hefur mér þótt afskaplega sérstakt og það er hvernig Gloria hótelið er búið að afgreiða Golf channel rásina. Þar er sýndur þáttur um Mastersmótið en erfitt er að greina hvað þulurinn er að segja, því Tyrkjunum finnst hrikalega fyndið að láta early 80s slagarann Gloria, á repeat! Frá því að ég kom hefur þetta lag því hljómað sleitulaust á þessari rás! Ég minnist þess að Geðmundur Rúvari og fyrrum flugfreyjumaður, hnykkti ósjaldan mjöðmunum við þetta lag á Kaffi klamedíu hér áður fyrr en engu að síður er ansi vel í lagt að hafa það á repeat. Þessir rómverjar eru náttúrulega klikk! Kannski verður frekar greint frá Tyrklandsför síðar en núna þarf ég að senda móður minni tölvupóst þar sem ég hef ekki verið nægilega iðinn við að láta vita af mér.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 24, 2008

Orðrétt
"Chelsea vann svo Tottenham í miklum markaleik þar sem Robbie Keane jafnaði leikinn undir lokin."
Frétt á Fótbolti.net síðastliðið miðvikudagskvöld.

Thursday, March 20, 2008

Munnmælasögur#76
Einar afi starfaði ekki mikið í pólitík en þó kom fyrir að hann var varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þegar hann tók sæti á þingi á því tímabili þá var sagt að hann hefði ekki haft ýkja mikinn áhuga á sumum málum sem tekin voru fyrir. Ef hins vegar sjávarútvegs og atvinnumál voru á dagskrá hafði hann ýmislegt til málanna að leggja. Sagan segir að afi hafi verið inni á þingi þegar atkvæðagreiðslan fór fram um að breyta yfir í hægri umferð á Íslandi. Ekki var afi þekktur fyrir ökuleikni frekar en margir aðrir úr Hvítanesættinni. Sagt er að hann hafi fengið sér blund og greitt atkvæði með tillögunni í svefnrofanum. Þegar heim var komið beið hans Pétur Guðni sonur hans sem hafði sitt lifibrauð af akstri vöru og flutningabíla. Pétur frændi var jafnframt sá orðheppnasti og fyndnasti í fjölskyldunni. Það er óumdeilt. Pétri þótti ekki mikið til breytinganna koma og spurði afa: "Hvern djöfulinn er þú að skipta þér af því á hvorri akreininni menn aka? Þú sem keyrir alltaf á miðjum veginum hvort sem er!

Tuesday, March 18, 2008

Orðrétt
"Pabbi minn er Master of the sea"
- Stuðfinnur Einarsson á sjötta glasi á (B)Ölstofunni.

Orð vikunnar#1
Síðuhaldari er alltaf að læra ný orð. Á undanförnum misserum hefur maður lært mörg ný íslensk orð eins og til dæmis skuldatryggingarálag. Í ljósi þessa kviknaði hugmynd að nýjum dagskrárlið sem nú verður ýtt úr vör. Skal stefnt að því að birta nýtt íslenskt orð í vopnabúri síðuhaldara í hverri viku. Hér verður ekki um nýyrðasmíð að ræða, heldur orð sem síðuhaldari rekst á í íslenskum fjölmiðlum og bloggsíðum, og hefur ekki hrasað um áður. Svo er náttúrulega aldrei að vita hvort nýir dagskrárliðir líti dagsins ljós. Þar sem alls kyns spurningaleikir eru vinsælir á bloggsíðum þá kæmi til greina að verndari bloggs fólksins, HáEmm, myndi semja spurningar fyrir lesendur upp úr heimsbókmenntunum, þ.e.a.s Tinna bókunum.

Fyrsta orðið í þessum dagskrárlið er orðið "hliðarsex" sem einn af dáðustu pennum Morgunblaðsins, Freysteinn Jóhannsson (frændi hennar Öddu Aspelund, notaði í úttekt síðasta sunnudagsblaði. Þar fjallaði hann af stakri silld um ástir og örlög fráfarandi ríkisstjóra í New York sem nýlega komst í heimspressuna.
Passið ykkur á myrkrinu.

Erum við uppiskroppa með fyrirsætur?
Eru landsmenn orðnir uppiskroppa með fyrirsætur? Hvernig stendur á því að gríman á Valdimari Víðissyni blasir við manni í auglýsingum frá Háskólanum á Akureyri? Þar rekur hann hvers vegna fólk eigi að fara í eitthvað nám til að líkjast Rúnari Vífils. Þegar Valdi og Geðmundur voru í kennaranáminu var það gjarnan kallað "dúkkúlísunám" af vini mínu Jóni Hartmann, sem þá glímdi við sjávarútvegsfræði. Hvort sem það á við rök að styðjast eða ekki þá náði Valdi að verða sér úti um skólastjórastöðu að loknu BA náminu. Hvert hann stefnir eftir þetta rómaða framhaldsnám sitt væri því forvitnilegt að vita. Kannski verður hann háskólaprófessor? Alla vega gat Helga Kress orðið háskólaprófessor án þess að vera með doktorsgráðu. Verum hress með Helgu Kress.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Ef Íslendingar dyttu í lukkupottinn á morgun og tekjur og eignir allra landsmanna hundraðfölduðust í einni svipan yrði til stórkostlegt vandamál að mati Stefáns Ólafssonar prófessors og Indriða H. Þorlákssonar fyrrverandi ríkisskattstjóra. Vandamálið væri tvíþætt.

- Annars vegar myndu vaxta- eða barnabætur falla að mestu leyti niður því þær eru tekju- og eignatengdar.

- Hins vegar myndi það hlutfall launa sem menn greiða í skatt í flestum tilvikum hækka í nær 35,7% en svo hátt hlutfall greiða fáir í dag.

Það mætti því með nokkrum sanni segja að „skattbyrði“ barnafólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið myndi snarhækka. Í öllum tilvikum hefðu menn þó stórbætta afkomu. Og er það ekki fremur ánægjuefni en ástæða til umkvörtunar þegar hagur manna vænkast svo að þeir eiga ekki lengur rétt á vaxta- og barnabótum? Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir að hagsæld og launahækkanir leiði til aukinnar skattbyrði. Hún felst í því að leggja af tekjutengdar bætur og afslætti og taka þess í stað upp flatan tekjuskatt. En það vilja Stefán og Indriði reyndar ekki."
- Vef-þjóðviljinn þann 13. mars 2008.

Friday, March 14, 2008

Tíminn er peningar
Undarlegir þessir Reykvíkingar. Þeir hafa ekki einu sinni tíma til þess að bíða eftir því að apótekin opni. Hvað þá að stíga út úr bílunum áður en þeir bregða sér inn fyrir.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 13, 2008

"Fastir liðir" á DVD?
Var að lesa frétt um að samningar væru í höfn hjá RÚV og félögum íslenskra leikara og hljómlistarmanna þar sem RÚV fær meðal annars leyfi til þess að gefa út leikið efni sem á einhverjum tíma hefur verði sýnt á RÚV. Þetta gæti þýtt að meistaraverk á borð við "Fastir liðir eins og venjulega" komi út á DVD svo ekki sé talað um brakandi snilld eins og "Gættu að því hvað þú gerir maður." Í síðara tilfellinu þyrfti hugsanlega að semja sérstaklega við Ólaf Sigurðsson, fyrrum fréttamann, sem slaufaði þeim þætti afar eftirminnilega eftir að hafa lesið upp aflatölur.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 11, 2008

Bubbi orðinn skemmtilegur
Ásbjörn Morthens er að taka upp á því á sextugsaldri að verða einstaklega skemmtilegur. Hann hefur tekið hvern kverólantinn á fætur öðrum að undanförnu og hraunað yfir hann. Nýjasta nýtt er þessi kveðja á heimasíðu Bubba til ritstjórans Birgis Arnar Steinarssonar:

"Biggi verður að kyngja því að staðreyndin er sú að með Ísbjarnablús breytti ég íslenskri tónlistarsögu ásamt Utangarðsmönnum. Sem og nokkrum öðrum sem fylgdu í kjölfarið. Frábið ég mér fleiri tilraunir til þess að falsa söguna frá manni sem hefur aldrei geta haldið lagi og hefur unnið sér það til frægðar að syngja falskast allra íslenskra tónlistarmanna á seinni tímum. Sá falski tónn hrakti hann frá míkrafóninum í það að gerast ritstjóri Monitors þar sem sami falski tónninn hljómar í skrifum hans."

Bubbi er einstaklega hressandi þessa dagana og virðist vera álíka viðkvæmur fyrir gagnrýni og íslenskt fjölmiðlafólk.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 10, 2008

Orðrétt
"Hann (Hugo Chavez) náði völdum í Venezúela með því að skapa alveg gríðarlega mikla tortryggni, annars vegar á milli þess stóra fjölda fólks sem er fátækur og hinna ríku. Hinnar fámennu auðstéttar sem hefur farið með völdin í landinu. Hann býr til andstæðing, sem er auðstéttin, þannig að það er í rauninni í lagi að ráðast á fólk, jafnvel ræna því, til þess að krefjast peninga af því að þetta fólk á að vera búið að arðræna landið í öll þessi ár. Hins vegar er efnahagsstefnan, eins og maður bara varð var við í hinu daglega lífi, hún er að hrynja. Landið er bara að hrynja innan frá efnahagslega. Honum er að takast að rústa því...Þetta er annar stærsti olíuútflytjandi heims á eftir Saudí Arabíu. Þetta eru ekki nema 23 milljónir íbúa sem búa þarna, landið ætti að vera vellauðugt. Hann bara sóar þessu í rauninni bara í vitleysu. Hann niðurgreiðir allt bensín og olíu fyrir innfædda. Hann lætur stórar fjárfúlgur til handa fjölskyldum sem skrifa undir samning um að þau sendi börnin sín í skóla. Fólk gerir það, börnin fara í skóla en að sama skapi þá gerist það að fólkið hættir að vinna..... Allir fyrir utan einn, sem ég ræddi við, hreinlega hötuðust út í Chavez og hans stefnu og hvað hann væri að gera... Þora að segja það en ekki í síma eða tölvupósti. Fólk talar um það óhikað á kaffihúsum eða á götum úti. Þetta er algerlega samfélag óttans."
- Baldur Þórhallsson, doktor í stjórnmálafræði, í síðdegisútvarpi Rásar2 fimmtudaginn 6. mars 2008.

Thursday, March 06, 2008

Áróður í biðröð
Síðuhaldari var staddur í bankaútibúi í gær. Á meðan á biðinni stóð velti hann fyrir sér málshætti Stormskersins: "Best er að vera einn í biðröð." Skyndilega blasti við merkileg sjón. Kona nokkur sem vippaði sér til gjaldkerans var með auglýsingu á bakinu. Hún var klædd í vindjakka og aftan á honum skartaði hún flennistóru lógói Prince sígarettutóbaksins. Óneitanlega nokkuð hressandi á tímum þar sem rétttrúnaðurinn er kominn á það stig, að menn geta ekki ýjað að því að mjólkin sé sæmilega holl án þess að Grasa-Kolla komi gaggandi í sjónvarpið.
Passið á myrkrinu.

Wednesday, March 05, 2008

Nallarnir ryðja brautina
Arsenal steig í gærkvöldi stórt skref í þá átt að hjálpa Manchester United að sigra í Meistaradeild Evrópu. Ljóst má vera að Milan hafi verið síðasta liðið sem United vildi mæta, enda hefur Milan tvívegis slegið United sannfærandi út úr keppninni á undanförnum árum. Þarft framtak hjá Nöllunum og fallegt til þess að hugsa að þeir beri hag United fyrir brjósti á alþjóðlegum vettvangi. Nú virðist leiðin vera nokkuð greið fyrir United í Meistaradeildinni, nema þá ef Sevilla kæmi á óvart og færi alla leið.
Passið ykkur á myrkrinu.

Reykjavíkurmet í hroka ?
Ekki er útilokað að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi sett nýtt Reykjavíkurmet í hroka í Silfri Egils á sunnudaginn. Undir lok viðtals Egils við Guðlaug skiptu þeir báðir svolítið um takt. Egill spurði Guðlaug um þær vangaveltur sem hafa verið í bloggheimum og víðar þess efnis að Guðlaugur hefði beitt sér af þunga fyrir því að Hanna Birna tæki ekki við oddvitastöðunni í borginni. Þá sagði Guðlaugur meðal annars þetta: "Hvaða máli skiptir það þó einhver Friðjón setji eitthvað á bloggið." Egill spurði jafnframt um hvort verjandi væri að Vilhjálmur sæti áfram en Guðlaugur var hans helsti stuðningsmaður í prófkjörinu á sínum tíma. Guðlaugur sagði Vilhjálm hafa staðið sig afskaplega vel sem borgarstjóri sem er út af fyrir sig áhugaverð skoðun. Í kjölfarið sagði hann þetta um stöðu mála hjá borgarstjórnarflokknum:

"Það væri nú ágætt ef ég myndi stýra þessu öllu, þá hefðu kannski hlutirnir verið eitthvað svolítið öðruvísi. Menn fóru svolítið á skjön við það sem ég lagði upp með í hinum ýmsu málum. Þannig að ef ég stýrði þessu þá hefði náttúrulega atburðarrásin væntanlega verið eitthvað öðruvísi.....Menn hefðu bara haldið sig við það sem við lögðum upp með í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á sínum tíma."

Sé þetta ekki nýtt Reykjavíkurmet í hroka þá hlýtur þetta alla vega að höggva nálægt metinu.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Þorbergur Aðalsteinsson... Vertu rólegur."
Ívar Benediktsson á Gjögri í einum umtalaðasta umræðuþætti síðari ára á Íslandi.

Sunday, March 02, 2008

Bikarúrslit og Óli Stef
Síðuhaldari var á bikarúrslitaleikjunum í gær. Vel mætt og fín stemmning. Fyrri leikurinn spennandi en seinni leikurinn ójafn. Við blaðasnáparnir sátum fyrir framan hátalara sem sennilega var fluttur til landsins þegar Metallica hélt hér tónleika (gátum reyndar verið í boxinu uppi og færði mig þangað í seinni leiknum). Sem varð til þess að ég heyrði ekki mannsins mál það sem eftir lifði dagsins sökum hellu. Það gerir öll viðtöl að meiri áskorun þegar maður þarf að geta sér þess til um hvað viðmælandinn er að tala. Annars frétti ég að RÚVarar hafi verið með flotta útsendingu frá bikardeginum með Hrafnkel, Snorra og Hjört alla á vaktinni. Hefði verið til í að sjá Marka-Hjössa í handboltavangaveltum. Læt hér fylgja með mjög áhugavert mark frá Óla Stef sem ég rakst á. Er þetta í leik með Magdeburg og miðað við lokkana á Jackson og vodabelginn á Iakimovic, þá er andstæðuringurinn væntanlega spænska liðið með bandaríska nafnið, Portland San Antonio.
Passið ykkur á myrkrinu.

Saturday, March 01, 2008

Munnmælasögur#75
Einhverju sinni tók sig upp sjaldgæfur krankleiki hjá verndara Bloggs fólksins: HáEmm, sem varð til þess að hann keyrði frá Ísafirði til Reykjavíkur þar sem hann lét lækni líta á sig. Eftir ítarlega skoðun lá úrskurður læknisins fyrir: "Þú ert of þungur" sagði hann við Dóra. Ekki stóð á svarinu frá sjúklingnum: "Ég keyrði ekki 450 kílómetra til þess að láta segja mér eitthvað sem maðurinn í næsta húsi hefði getað sagt mér" muldraði Dóri um leið og hann greiddi stórfé fyrir skoðunina.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?