<$BlogRSDURL$>

Tuesday, April 29, 2008

Orðrétt
"Ekki ósvipuð atburðarás varð við ráðhús Reykjavíkur í janúar. Þegar boðuð mótmæli áttu að vera hafin var fátt að gerast fyrir utan ráðhúsið. Mótmælendur höfðu komið sér fyrir inni í húsinu enda vont veður og fólk stóð þar inni þögult og grafalvarlegt. Eitthvað þótti þetta óáhugavert sjónvarpsefni fyrir fréttastofuna sem hafði dröslað öllu sínu hafurtaski niður í bæ. Fréttamaðurinn skammaðist í þeim sem honum þótti bera ábyrgð á samkomunni og bað um að safnað yrði saman hópi fólks fyrir utan húsið sem væru með almennileg mótmæli fyrir myndavélarnar. Og það var gert."
- Eva Bjarnadóttir í grein á vefritinu.is þann 27. apríl 2008.

Nýr pistill á Víkara
Ragna fréttastjóri á Víkara.is áminnti mig á dögunum fyrir að hafa ekki sent inn pistil í lengri tíma. Það er búið að vera eitthvað andleysi í gangi hjá manni í blogginu og pistlum. En ég barði saman einn stuttan pistil fyrir hana ef einhverjir hafa áhuga.

Sunday, April 27, 2008

Orðrétt
"Strákur þessi var nemandi minn í Menntaskólanum á Ísafirði fyrir eitthvað um áratug. Hann var latur og alltaf syfjaður í tímum. Sennilega hef ég verið svæfandi kennari. Það er fyrirtak. Nemendur trufla ekki kennarann með fyrirspurnum eða kjaftagangi sín í milli þegar þeir dotta, svo lengi sem þeir hrjóta ekki að ráði. Ég hafði það fyrir reglu að vekja nemendur ef þeir hrutu. Einnig hafði ég það fyrir reglu að vekja nemendur í lok kennslustunda. Fannst það sjálfsögð tillitssemi svo að þeir misstu ekki af frímínútunum."
- Hlynur Þór Magnússon skrifar um Eirík Örn Norðdahl á bloggi sínu þann 23. apríl 2008.

Friday, April 25, 2008

Munnmælasögur#78
Maður er nefndur Jakob Flosason og er útgerðarmaður. Kobbi hafði einhvern tíma fest kaup á nýjum jeppa og mætti á honum á Shell-skálann til að fá sér ís í Bolungarvíkurblíðunni. Á meðan Kobbi er að reyna að gæða sér á ísnum vindur forvitinn Víkari sér upp að honum og fer að spyrja um bílinn. Því fylgdi hefðubundið spurningaflóð eins og gjarnan vellur út úr bílaáhugamönnum. Þegar þeir voru búnir að fara yfir það helsta, spyr maðurinn Kobba: "Eyðir hann ekki svakalegu miklu bensíni ?" Kobbi, sem var orðinn frekar þreyttur á yfirheyrslunni, svaraði manninum af yfirvegun með annari spurningu: "Er ekki nóg til af bensíni í heiminum ?"

Wednesday, April 23, 2008

Styrmir hættir eftir rúman mánuð
Óli Steph tekur við af Styrmi 2. júní. Ekki Ólafur Stefánsson heimspekingur heldur Ólafur Þ. Stephensen. Reyndar kalla Gleðipinnarnir, Dóri Magg og Óli Veltir, hann aldrei annað en Óla spælegg en það er nú önnur saga og fyndnari. Þetta kemur svo sem ekki á óvart, sérstaklega ekki eftir að ákveðið var að Þór Sigfússon kæmi inn sem stjórnarformaður. Spennandi að sjá hvort Óli ætli sér að breyta einhverju á Mogganum eða ekki. Miðað við fréttatilkynninguna þá virðist vera að viðskiptadeildin og íþróttadeildin eigi að bæta á sig öðru blaði þ.e.a.s 24 stundum. Væntanlega á sömu vöktum og fyrir sömu laun. Óneitanlega vonbrigði að Trausti Salvar skyldi ekki taka við sem ristjóri 24 stunda. Þá hefði reðurfréttum fjölgað til mikilla muna en þær eru svar Trausta við veðurfréttum. Reyndar er merkilegt með 24 stundir að þar eru ritstjóraskipti tíðari en borgarstjóraskipti og er þá vel í lagt.
Passið ykkur á myrkrinu í einn dag í viðbót.

Tuesday, April 22, 2008

Who else would get a goal like that ?
Mark Hughes reyndist United erfiður eins og við var að búast um helgina. Nú er leikurinn gegn Chelsea orðinn alger úrslitaleikur. Skelli hérna inn ævintýralegu marki sem kallinn skoraði fyrir Wales gegn Spáni í undankeppni HM 1985. Loksins búið að setja þetta inn á Youtube. Ég átti þetta mark til en lánaði Nesa spóluna fyrir svona einum og hálfum áratug síðan. Nesi var svo heillaður af þessum tilþrifum að hann hætti í landsliðinu í sundi og fór að æfa fótbolta við góðan orðstír. Hann segist nú vera búinn að grafa þetta upp þannig að síðuhaldari getur nú nálgast þetta aftur og fært yfir á DVD. Annars voru Íslendingar einmitt í þessum riðli með þessum þjóðum og Skotum. Fjögurra þjóða riðlar sjást ekki eftir fall kommúnismans. Á þessum tíma var síðuhaldari einmitt að byrja að fylgjast með landsleikjum en þá tíðkaðist ekki að láta stóru þjóðirnar hafa stig án þess að hafa fyrir þeim: A la Kögglafélagið. Fyrirsögnin er fengið að láni frá þul BBC sem var að vísa í hversu mikið kallinn skoraði af eftirminnilegum mörkum. Svo hefur hann náttúrulega alltaf verið með greiðsluna í lagi líka eins og nútíma knattspyrnumenn! Sumir eru bara alveg með þetta.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, April 21, 2008

Orðrétt
"Ég er ekkert inni í þessum valdaklíkum í Rússlandi eða neinu slíku"
- Mögnuð játning Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra á Ísafirði, í Kompásþætti þann 15. apríl 2008.

Thursday, April 17, 2008

Tíu bestu?
Nú er víst búið að velja tíu frábæra íslenska knattspyrnumenn af vel skipaðri dómnefnd og verða gerðir um þá sjónvarpsþættir á Sýn. Það er vel til fundið. Ég man til dæmis eftir því að í gamla daga voru gerðir ágætir þættir um bæði Arnór og Ásgeir þar sem maður sá fullt af áhugaverðum tilþrifum frá Belgíu og Þýskalandi. Það er auðvitað vinna að safna svoleiðis efni saman og því gott að menn ráðist í það. En eins og ég hef oft tautað þá er varla hægt að gera upp á milli manna í ólíkum stöðum á vellinum og hvað þá menn sem hafa spilað á ólíkum tímum. Það verða náttúrulega aldrei allir á eitt sáttir um svona lista. Mér finnst til dæmis óskiljanlegt að hægt sé að pússla saman topp tíu lista án Þórólfs Beck. Sjálfur væri ég með hann inn á topp sex ásamt, Ásgeiri, Alberti, Eiði, Ríkharði og Arnóri. En það er auðvitað metið út frá lýsingum samtíðarmanna, afrekum og tölfræði. Sama með Albert og Rikka. Maður hefur náttúrulega ekkert séð af þessum mönnum. En maður gerir sér grein fyrir því að þetta voru snillingar. Ég velti því fyrir mér hvernig sjónvarpsþættirnir um þá verða. Eru einhver myndbrot til af þeim erlendis? Ég held alveg örugglega að fjögur mörkin hans Rikka gegn Svíum séu ekki til. Kannski er maður bara bitur yfir því að vera ekki í nefndinni. Það var hóað í einhvern Víði í þetta. En í staðinn gæti maður náttúrulega pússlað saman nefnd sem fyndi út tíu bestu knattspyrnumenn Bolvíkinga. Var Jói Ævars betri en Bensi Einars? Skoraði Svavar 100 mörk eða fipaðist hann í talningunni?
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, April 14, 2008

Orðrétt
"Í kvöld á að "heiðra" minningu Villa Vill söngvara enn eina ferðina með því að syngja hann í kaf. Það fær náttúrulega ekkert að heyrast í Villa sjálfum. Það væri of smekklegt. Það verður sungið yfir hans lög. Þetta er svona einsog að heiðra listmálara með því að mála yfir myndirnar hans. Ef tilgangurinn er virkilega að heiðra minningu Villa en ekki að græða peninga á vinsældum hans þá væri bara haldin kvöldvaka þar sem lög Villa væru spiluð í HANS flutningi og myndum af honum varpað uppá tjald af hans ferli. En meinið er að þá væri ekki hægt að selja miðann á 4.900 kr. einsog nú er gert. Þetta er nefnilega gróðadæmi en ekki "heiðrun." Hræsni í sinni ömurlegustu mynd. Hverskonar fólk borgar sig inn á svona vibba?"
- Sverrir Stormsker, tónskáld, á baksíðu 24 stunda laugardaginn 5. apríl 2008.

Hugmyndaflug
Fór á ÍR - Keflavík í Seljaskóla í gærkvöldi. Rífandi stemning í Hellinum og stuðningsmenn liðanna í urrandi gír. Ég hlustaði eftir því þegar stuðningsmenn Keflavíkur fóru að chanta til heiðurs Tommy Johnson sem setti niður fimm þrista. Textasmiðir stuðningsmannahópsins hafa verið eitthvað tæpir á tíma því þeir fengu bara lánaðan texta sem stuðningsmenn Leicester City sungu um Jóhannes Karl Guðjónsson á sínum tíma við lagið Seasons in the sun:

"We have joy
we have fun
we have Joey Gudjonsson/Tommy Johnson.
He´s got style
but no hair
he´s angry
we don´t care."

Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, April 13, 2008

Orðrétt
"Guðfinna Hreiðarsdóttir, upplýsingafulltrúi mótsins, býst við því að mörg Íslandsmet muni falla á mótinu"
- Hans Steinar Bjarnason, fjallar um Skíðalandsmót Íslands á Ísafirði, í hádegisfréttum Stöðvar2 þann 28. mars 2008.

Orð vikunnar#4
Orð vikunnar er klárlega: vogunarsjóðir. Hafði aldrei heyrt þetta orð þar til um daginn en nú notar þetta annar hver maður.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, April 07, 2008

Orðrétt
"Við fyrstu sýn virðist Hæstiréttur hafa kveðið upp rangan dóm í máli erfingja Halldórs Laxness gegn Hannesi Hólmsteini. Í mínum huga liggur það beint við þegar rituð er ævisaga rithöfundar eða annars þess manns sem lætur eftir sig mikið af skrifuðum texta, þá hlýtur bókarhöfundur að nýta sér þann sjóð. Það er eðlileg krafa til Hannesar Hólmsteins þegar hann ritar bók um Laxness að hann geti nákvæmlega um heimildir þegar hann fer í smiðju þriðja aðila - en þegar kemur að skrifum Nóbelsskáldsins sjálfs hljóta önnur sjónarmið að gilda. - Eða eru menn í alvörunni að halda því fram að HHG hafi verið svo heimskur að halda hann gæti komist upp með að "stela" frá HKL í bók um hann sjálfan??? Úr því að Hannes er skaðabótaskyldur núna - hvað má þá segja um Pétur Gunnarsson eftir bók hans um mótunarár Þórbergs Þórðarsonar? Sagnfræðingar hljóta að hafa áhyggjur vegna þessarar niðurstöðu."
- Stefán Pálsson, sagnfræðingur, á bloggi sínu þann 13. mars 2008.

Orð vikunnar#3
Síðuhaldari lærði nýtt orð eða orðasamband öllu heldur síðastliðinn föstudag. Þá heyrði ég útvarpsfréttir þar sem Marka Hjössi var mættur með íþróttafréttir. Þar talaði hann um að einhver maður hefði orðið uppvís að því að taka þátt í "hópkynlífi með nasistaívafi." Hef aldrei nokkurn tíma heyrt talað um slíkt fyrr en gæti verið áhugavert að skoða betur.
Passið ykkur á myrkrinu

Munnmælasögur#77
Maður er nefndur Jakob Falur Garðarsson og er með massaðann afturenda að eigin sögn. Kobbi er einn hinna Vesfirsku Gleðipinna. Á sokkabandsárum þeirra þótti Þjóðleikhúskjallarinn vera það heitasta síðan brauð fór að fást niðurskorið. Einu sinni sem oftar voru Gleðipinnarnir í biðröð til þess að komast inn á Kjallarann. Þegar röðin kom loksins að þeim var Kobba meinuð innganga. Rök dyravarðarins voru á þá leið að Kobbi væri klæddur í gallabuxur en staðurinn leyfði ekki slíkar buxur í sínum húsakynnum. Þarna greindi þeim Kobba og dyraverðinum á, því Kobbi sagðist alls ekki vera í gallabuxum. Reyndi hann að útskýra fyrir dyraverðinum að buxurnar væru ekki úr gallaefni heldur allt öðru efni, og hann ætti ekki að þurfa að líða fyrir það hversu illa dyravörðurinn væri að sér í nýjustu tískustraumum. Honum tókst þó ekki að sannfæra dyravörðinn og því varð Kobbi frá að hverfa. Áður spurði hann dyravörðinn svo allt væri örugglega á hreinu: "Er það ekki alveg á hreinu að þeir sem ekki eru í gallabuxum komast inn á staðinn?" Dyravörðurinn staðfesti það en varð ekki lítið undrandi þegar Kobbi dúkkaði upp hjá honum nokkru síðar á nærbuxunum og tilkynnti dyraverðinum að nú kæmist hann inn þar sem hann væri ekki í gallabuxum. Aftur meinaði þessi rokþrota dyravörður Kobba inngöngu sem varð eðlilega alveg hoppandi illur yfir þessari meðferð og þeim misvísandi skilaboðum sem starfsmenn staðarins væru að senda frá sér.

Sundsérfræðingur
Síðuhaldari fjallaði um Meistaramót Íslands í Morgunblaðinu í dag. Þá kom sér vel að vera með góðan grunn í þessu sporti! Þykir nú sjálfsagt einhverjum lesendum síðunnar það vera kaldhæðnislegt, að eini maðurinn sem ekki æfði sund í Bolungarvík á seinni hluta níunda áratugarins, hafi verið sendur til að skrifa um sundmót. Náði alla vega að vera með frétt um son Gríms rakara á baksíðu blaðsins. Það ætti nú að gleðja vinstri mennina. Annars rakst ég á Hildi Karen á mótinu sem er orðin framkvæmdarstjóri SSÍ. Gaman að því.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, April 03, 2008

Íslandsmótið í hniti
Þar sem Íslandsmótið í hniti er framundan verður hér birt myndband sem kemst næst þeim töktum sem Orri Örn Árnason sýnir á hnitvellinum. Þess má auk þess geta að Röggi pensill og Bjarni pendúll ætla að heiðra keppendur í einhverjum B-flokki með nærveru sinni.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
"Fyrir nokkrum áratugum gekk Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Keflavíkurveginn á tveimur jafnfljótum til að mótmæla aðild Íslands að NATO. Í gær sparaði hún sér ferðina suður eftir og flaug með einkaþotu af Reykjavíkurflugvelli til Rúmeníu til að heiðra sama NATO með nærveru sinni."
- Vef-þjóðviljinn í dag.

Áhugaverð nálgun
Íþróttadeild RÚV var með nokkuð áhugaverða nálgun á gengi Birgis Leifs Hafþórssonar í sjö fréttunum á sunnudaginn. Biggi komst í gegnum niðurskurðinn eftir 36 holur en spilaði síðari tvö dagana illa og varð neðstur þeirra sem komust í gegnum niðurskurðinn. Í fréttum RÚV var sagt frá því að Birgir hefði hafnað í 69. og neðsta sæti á mótinu. Fyrirsögn fréttarinnar var jafnframt "Neðsta sæti." Þetta er nokkuð áhugaverð nálgun því keppendur í mótinu voru 140 eins og jafnan á Evrópumótaröðinni.
Passið ykkur á myrkrinu.

Meiðsli Vidic
eru meira áfall fyrir United en margur heldur. Vidic hefur verið alger lykilmaður í góðu gengi liðsins síðustu tvær leiktíðir.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, April 01, 2008

Danni í fríi - krónan styrkist
Samkvæmt fréttum styrktist íslenska krónan í gær. Þess má geta að Hálfdán Gíslason tók sér frí hjá Glitni í gær.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?