<$BlogRSDURL$>

Thursday, April 17, 2008

Tíu bestu?
Nú er víst búið að velja tíu frábæra íslenska knattspyrnumenn af vel skipaðri dómnefnd og verða gerðir um þá sjónvarpsþættir á Sýn. Það er vel til fundið. Ég man til dæmis eftir því að í gamla daga voru gerðir ágætir þættir um bæði Arnór og Ásgeir þar sem maður sá fullt af áhugaverðum tilþrifum frá Belgíu og Þýskalandi. Það er auðvitað vinna að safna svoleiðis efni saman og því gott að menn ráðist í það. En eins og ég hef oft tautað þá er varla hægt að gera upp á milli manna í ólíkum stöðum á vellinum og hvað þá menn sem hafa spilað á ólíkum tímum. Það verða náttúrulega aldrei allir á eitt sáttir um svona lista. Mér finnst til dæmis óskiljanlegt að hægt sé að pússla saman topp tíu lista án Þórólfs Beck. Sjálfur væri ég með hann inn á topp sex ásamt, Ásgeiri, Alberti, Eiði, Ríkharði og Arnóri. En það er auðvitað metið út frá lýsingum samtíðarmanna, afrekum og tölfræði. Sama með Albert og Rikka. Maður hefur náttúrulega ekkert séð af þessum mönnum. En maður gerir sér grein fyrir því að þetta voru snillingar. Ég velti því fyrir mér hvernig sjónvarpsþættirnir um þá verða. Eru einhver myndbrot til af þeim erlendis? Ég held alveg örugglega að fjögur mörkin hans Rikka gegn Svíum séu ekki til. Kannski er maður bara bitur yfir því að vera ekki í nefndinni. Það var hóað í einhvern Víði í þetta. En í staðinn gæti maður náttúrulega pússlað saman nefnd sem fyndi út tíu bestu knattspyrnumenn Bolvíkinga. Var Jói Ævars betri en Bensi Einars? Skoraði Svavar 100 mörk eða fipaðist hann í talningunni?
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?