<$BlogRSDURL$>

Saturday, July 18, 2009

Orðrétt
"Svandís Svavarsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu í gær og fór með langa þulu um að það væri "sannfæring" sín að Evrópusambandið hefði ótal og síversnandi galla, og virtist henni þykja það sem hið allra versta bandalag. Romsunni lauk á því að hún greiddi því atkvæði að alþingi Íslendinga tilkynnti um heim allan að það óskaði eftir því að Ísland gengi í þetta bandalag. Einhvern tíma kemur að því að menn skilja, að samþykkt alþingis í gær er nákvæmlega það. Yfirlýsing um að alþingi Íslands óski eftir því að Ísland renni inn í Evrópusambandið. Það er ekkert til sem heitir að "sækja um til að sjá hvað er í boði".

Ríkisútvarpið sagði stolt frá því í gærkvöldi að fjölmiðlar víða um heim hefðu greint frá því að Ísland hefði sent inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Ríkisútvarpið tók ekki fram, hversu margir fjölmiðlanna hefðu orðað það svo að Ísland hefði ákveðið að fara í könnunarviðræður, bara til að sjá hvað væri í boði, en hefði í raun enga ákvörðun tekið um inngöngu.

Enda er það einungis í íslenskum fjölmiðlum og þingræðum vinstrigrænna sem menn láta eins og slíkar "umsóknir" séu til.

Af sextán þingmönnum Sjálfstæðisflokksins voru aðeins tveir sem í gær stóðu ekki með fullvalda og sjálfstæðu Íslandi. Það var kominn tími til að loksins færi eitthvað 14-2 fyrir Íslandi."

- Vef-þjóðviljinn föstudaginn 17. júlí 2009.

Friday, July 17, 2009

Munnmælasögur#105
Knattspyrnufélag Morgunblaðsins, KFM hefur verið til um langa hríð. Hafa starfsmenn og fyrrum starfsmenn blaðsins leikið innanhússknattspyrnu á veturna og jafnvel spriklað utandyra í rigningunni í Reykjavík á sumrin. Í gegnum tíðina hafa margir áhugaverðir persónuleikar komið við sögu hjá KFM. Einn þeirra er Hjálmar Jónsson framkvæmdarstjóri Blaðamannafélagsins til margra ára. Eru menn oft á tíðum kappsamir í þessum tímum, sem lengst af hafa verið í Framheimilinu í Safamýri undir öruggu eftirliti Jóhönnu baðvarðar. Fer þetta að mestu fram eftir hefðbundnum leiðum, þ.e.a.s að menn reyna að smala saman 8-10 manns og skipta í tvö lið.

Síðastliðinn vetur gerðist það að Hjálmar var að leika knattspyrnu með KFM í hádeginu á þriðjudegi og var lið hans yfir í leiknum þegar skammt var eftir, og fór svo að lið Hjálmars var að innbyrða nauman sigur þegar tímanum átti að vera lokið. Mennirnir sem leigt höfðu tímann á eftir tíma KMF voru hins vegar ekki mættir. Þegar þannig ber undir er samkomulag um að halda leik áfram þar til næsti tími byrjar. Liðu einhverjar mínútur þar til næsti tími gat byrjað en þá mættu mennirnir til leiks. Á þessum mínútum höfðu þeir leiðinlegu atburðir átt sér stað að lið Hjálmars hafði misst forystu sína og lent undir í leiknum. Var lið hans undir þegar mennirnir í tímanum á eftir mættu í salinn og því tapaðist leikurinn hjá Hjálmari sem vitanlega féll þetta þungt. Mennina í tímanum á eftir þekkti Hjálmar ekki nokkurn skapaðan hlut og hafði aldrei hitt þá fyrr á lífsleiðinni. Þegar Hjálmar er að ganga af velli þungum skrefum vindur hann sér snögglega að þessum mönnum sem voru að gera sig klára og hreytir í þá: "Af hverju í andskotanum getið þið ekki mætt á réttum tíma?" Við svo búið gekk Hjálmar til búningsklefa en skildi mennina eftir með þessa áleitnu spurningu.

Tuesday, July 14, 2009

Orðrétt
"Dagurinn hjá þeim byrjar kl.06 sem er töluvert nýmæli fyrir mig"

- Bjarni Pétur Jónsson golfvallarstarfsmaður í hjartnæmu viðtali við Golf á Íslandi.

Friday, July 10, 2009

Pistlahöfundur Íslands
Síðuhaldari hefur í gegnum tíðina fylgst grannt með pistlum Kristins R. Ólafssonar í útvarpinu og hefur stöku sinnum bent lesendum sínum á bestu bitana. Fyrir nokkrum misserum sá RÚV loks sóma sinn í því að hafa pistla hans aðgengilega á netinu þannig að maður getur flett þeim upp og hlustað ef maður missir úr, sem auðvitað gerist iðulega þegar ekkert útvarp er í verðlaunabifreiðum. Vill síðuhaldari í auðmýkt sinni benda á snilldina sem felst í tveimur nýlegum pistlum sem heita "Kaká í Real Madrid" annars vegar og "Berlusconi og myndirnar í El País" hins vegar. Auðvitað eru margir fleiri úrvalspistlar sem þarna er að finna og því vissara að HLUSTA á þá alla. Ég legg áherslu á HLUSTA því einnig er hægt að lesa pistlana en það er bara engan veginn sama upplifunin ef rödd meistarans vantar.

Hér er rétt að bæta því við að Kristinn R. er búinn að gefa Cristiano Ronaldo íslenskt nafn eins og hann hefur iðulega við stjörnur spænska boltans. Ronaldo gengur nú einfaldlega undir nafninu Kristinn R. eða Kristinn Rögnvaldur í pistlunum!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?