<$BlogRSDURL$>

Thursday, August 30, 2007

Munnmælasögur#68
Maður er nefndur Sævarr Sölvi Sölvason og er barnabarn Lúsíar. Snævarr er miskilið fjármálaséní og á það til að vera nokkuð seinheppinn. Síðastliðið vor heimsótti formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, kosningaskrifstofu D-listans í Bolungarvík í aðdraganda kosninga. Vöfflur og annað bakkelsi var á boðstólum eins og gengur og gerist og Snævarr lét ekki sitt eftir liggja í veitingum. Hann þrífur rjómasprautuna og ætlar að skella vænni gusu á vöffluna. Snævarr átti erfitt með að átta sig á því hvernig tækið virkaði en eftir nákvæmar leiðbeiningar frá Dóru Línu tókst honum betur upp. Þegar rjómasprautann gaf sig loksins var Snævarr ekki einungis með fullan disk af rjóma heldur voru dökk jakkaföt Forsætisráðherrans einnig orðin hvít.

Í sumar sóttu önnur fyrirmenni Bolungarvík heim, en þá voru þeir Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Þórir Hákonarson framkvæmdarstjóri Ksí, á ferðinni. Eftir að hafa fylgst með knattspyrnuleik hjá hinu hæverska stórveldi BÍ/Bolungarvík, sátu þeir fyrir utan Langa Manga og drukku í sig bjórinn og veðurblíðuna. Þeir settust hjá nokkrum fótboltastrákum og fóru að ræða við þá um leikinn og 3. deildina. Þetta voru kunningjar Snævars, sem hafði brugðið sér frá og Geir hafði sest í sætið hans. Snævarr kemur askvaðandi og segir formanni KSÍ að hundskast úr sæti sínu. Geir segir kurteisilega að hann sé nú bara að ræða aðeins við strákana um fótbolta. "Þú hefur ekki hundsvit á fótbolta. Þú ert bara einhver sjóari á Flateyri," svaraði Snævarr og var hinn versti. Geir muldraði eitthvað um að hann hefði einhverja innsýn í fótboltann en Snævarr lét ekki svipta sig stoltinu og hélt áfram, hálfu ákveðnari en áður: "Ég hef oft séð og þekki þig alveg. Þú ert á sjó á Flateyri." Formaður KSÍ hrökklaðist í burtu enda sá hann að þessi maður myndi ekki gefa sig. Skemmtilegt er hins vegar að segja frá því að Geir Þorsteinsson spilaði eitt sumar með Gretti fyrir langa löngu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?