<$BlogRSDURL$>

Sunday, August 22, 2004

Gallabuxnamaðurinn strandaði skútunni
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik, fráfarandi vonandi, náði einum sigri í fimm leikjum á Ólympíuleikunum. Á Evrópumótinu í vetur náði hann einu jafntefli í þremur leikjum. Nú er einungis tvennt í stöðunni, hengja hann í gallabuxunum á Austurvelli eða leyfa Óla Stefáns að skipta um ríkisfang. Ég get þulið upp mistök hjá Guðmundi sem tækju margar síður, en ætla aðeins að nefna örfá dæmi:
1)Hann vill leika austur-evrópskan handknattleik þar sem leikið er fremur kerfisbundið og leikstjórnandinn er aðallega í því að leysa inn á línu. Það er banvænt þegar Óli er ávallt tekinn úr umferð. Til þess að leysa þá stöðu þyrfti hugmyndaríka leikmenn af skandinavíska skólanum eins og Arnór Atla eða Ragga Óskars. Sóknarleikurinn hefur verið slakur í mörg ár. Hann var með skásta móti í Svíþjóð 2002 en þá voru Patti og Dagur líka á góðu róli. Samt sem áður komu mjög mikið af mörkum úr hraðaupphlaupum á því móti.
2)Róbertarnir Sighvatsson og Gunnarsson voru báðir valdir í hópinn sem varamenn fyrir Fúsa. Hvorugir geta spilað vörn og fyrir vikið var línumaðurinn Vignir Svavarsson skilinn eftir, en hann er hörkuvarnarmaður og hefði getað minnkað álagið á varnarmennina.
3)Dagur Sigurðsson er leikstjórnandi ekki skytta! Hann gæti hugsanlega komist skammlaust frá stöðu leikstjórnanda þar sem hann þarf ekki að skjóta í tíma og ótíma. Guðmundur er hins vegar að láta hann spila skyttu á fjórða stórmótinu í röð.
4)Allir eru sammála um að Guðjón Valur sé eitt helsta tromp íslenska liðsins. Því vekur furðu að spila hann út úr sóknarleiknum með því að setja Garcia við hliðina á honum sem getur ekki hreyft sig til vinstri í ógnunum. Auk þess er enginn valinn í hópinn til þess að hvíla hann. Leikstjórnandinn Kristján Andrésson er ekki í landsliðsklassa og spilaði þess vegna ekkert. Í staðinn hefði átt að velja mann sem hefði getað hvílt Gauja eitthvað, hann er ekki ofurmenni.
5)Það er Óli Stef ekki heldur. Ásgeir Örn á að spila meira, það væri gott fyrir Óla að geta pústað meira. Ásgeir er tilbúinn, ef þú spilar vel á móti Magdeburg og Barcelona í Meistaradeildinni þá ertu tilbúinn í landsliðið.

Það er ástæða fyrir því að Guðmundur er landsliðsþjálfari og hann tekur sínar ákvarðanir burt séð frá því hvað einhver bloggari segir sem aldrei hefur þjálfað handboltalið. En hann verður líka að falla með þeim ákvörðunum sem eru út í hött og axla þannig sína ábyrgð.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?