<$BlogRSDURL$>

Wednesday, March 30, 2005

Post-modernismi
Einstaklega Post-modernískt ástand sem skapaðist hér á dögunum þegar stórmarkaðir fóru að gefa mjólk og lækka verð á nauðsynjavörum eins og kóki. Fólk gekk inn í nútímalegar matvöruverslanir en rak sig síðan á gamaldags skömmtunarkerfi. Bannað að yfirgefa búðina með meira en tvo potta af mjólk, alveg burt séð frá því hvort fólk væri tilbúið til þess að borga tvöfalt upphaflegt verð. Ég frétti að Ásgeir Þór hefði verið hætt kominn í innkaupum sínum fyrir fjölskylduna þegar rokfínn jakki hans festist í kerru einnar húsmóðurinnar. Í látunum sem sköpuðust hættu húsmæðurnar nefnilega að ganga með kerrurnar heldur hlupu með þær. Þessi ágæta kona tók á rás, með Ásgeir í eftirdragi, sem þeyttist eins og Mary Poppins eftir allri búðinni, fastur við innkaupakerru konunnar. Til marks um æsinginn í konunni þá má benda á að Ásgeir er tæplega 190cm og rúmlega 100kg. Þegar hún hægði örlítið á sér til þess að kasta mæðunni, þá náði Ásgeir á diplómatískan hátt að benda henni á að jakkinn væri fastur í kerrunni og losnaði hann þar með úr prísundinni.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?