<$BlogRSDURL$>

Monday, May 23, 2005

Orðrétt
"Hvað er þetta forsetapuntstrá okkar að paufast til Kína ásamt stífbónuðum erkikanónum íslensks viðskiptalífs, púkkandi upp á þessa drambfylltu risaeðlu, sem sennilega er sú eina sem att getur kappi við Bandaríkin í fokkmerkjasendingum til annarra þjóða? Hvurn þremilinn höfum við að gera með aukin samskipti við þessa sjálfumglöðu roðamaura? Er ekki bara hægt að auka í staðinn samskiptin við Lúxembúrg — eða Guam? Nei. Vitanlega ekki. Það þarf auðvitað að fljúga öllum pottum, pönnum og kastarollum íslensks viðskiptalífs á einhvern fornfrægan, útvatnaðan hrísgrjónaakur í Asíu til að mynda þar einhver kagfruggin viðskiptasambönd — gera bísniss. Taka í spaðann á nokkrum rauðgylltum tyllikommum og biðja þá endilega að hætta að drepa óvini ríkisins um hábjartan dag. Gegn því auðvitað að við kaupum af þeim fleiri, hva, jogginggalla? kínaskó? eyrnapinna? Hvað veit ég?

Andskotann ætli Kínastjórn taki mark á einhverri frosetalufsu frá Íslandi, einhverjum valdalausum gullinkambi sem tístir upp þrautleiðinlegri land­kynningartuggu um mannréttindi, slor og ál. Og af hverju ættu þeir líka að eyða tíma í að hýsa, næra og ómaka sig í samræður við 1. herfylki íslensks atvinnulífs? Er það af því þá bráðvantar lýsi eða máski lopapeysur? Þykja þeim íslenskar jarð­skjálfta­rannsóknir svona ferlega kúl — eða finnst þeim Óli og Björgólfur einfaldlega bara svona sætir og skemmtilegir? Varla. Þetta eru samviskurotnir litlir karlfauskar sem halda sig geta keypt vináttu og syndaaflausn í krafti markaðsflæmis og viðskiptagylliboða — og við eigum einfaldlega ekki að láta þá komast upp með það.

Ég vil bara ekki hafa það að þessum falskímandi undirokunarrauðrófum sé boðið af íslenskum stjórnvöldum í líttspjallaða jómfrúarsæng íslenskrar markaðssóknar og fái þar að þukla og þreifa að vild með blóðugum lúkunum. Drullist þið aftur heim."
-Leiðari á Baggalúti 17. maí 2005.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?