<$BlogRSDURL$>

Friday, September 16, 2005

Munnmælasögur#30
Hrólfur heitinn Jónsson vann lengi sem trésmiður í fyrirtæki föður míns. Var hann ráðinn fyrst í hálfan dag í kringum 1956 og vann þar næstu þrjátíu árin. Eða þar til hann mætti ekki einn daginn og hringt var í hann til að athuga hvort hann væri veikur; "Ég er orðinn sjötugur" var svarið en Hrólfur vildi ekki hafa mikið umstang í kringum sig. Á tímabili starfaði ungur maður í fyrirtækinu sem kallaður var Teddi og fannst Hrólfi hann fremur sérkennilegur. Teddi þessi vann ýmis störf meðal annars á krananum og hans helsta einkenni var linnulaus Kókdrykkja. Þegar hann byrjaði að þéna þá hófst hann handa við að kaupa í búið hjá sér en hann var nýbyrjaður í sambúð og átti ekkert í innbúið. Hans fyrsta verk var að kaupa sér hljómflutningsgræjur. Það fannst Hrólfi afskaplega undarleg ráðstöfun og hafði á orði að nær hefði verið að kaupa pott til þess að sjóða fiskinn í. Síðar hætti Teddi störfum hjá JFE og fór til sjós á Dagrúnu. Einn blíðvirðismorgun eru pabbi og Hrólfur mættir fyrir klukkan 8 í vinnu og eru að fylgjast með lífinu á höfninni þegar þeir sjá Dagrúnu koma í land, löngu fyrir áætlaðan tíma. Þá mælti Hrólfur: "Nú hefur Dagrúninn orðið kóklaus".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?