<$BlogRSDURL$>

Monday, October 17, 2005

Feneyjar norðursins
Hjalti Þór Vignisson vinur minn og bæjarritari á Höfn í Hornafirði þykir hafa farið afskaplega nýstárlegar leiðir til þess að styrkja stöðu bæjarins gagnvart ferðamannaiðnaðinum. Mikla athygli vakti um helgina þegar Hjalti setti plássið undir vatn undir slagorðinu "Feneyjar norðursins". Til þess að fylgja þessu eftir hefur bæjarsjóður keypt upp leigubíla staðarins og látið þeim í té Gondóla í staðinn, gegn því að leigubílsstjórarnir sæki söngtíma. Hjalti segist í samtali við horn.is hafa fengið við þessu gífurlega góð viðbrögð og þá sérstaklega frá samtökunum "andstæðingar einkabílsins". Einnig hafi Norræna þingmannaráðið reiknað út fyrir sig að styttra væri fyrir skandinavíska ferðamenn að sækja Feneyjar norðursins heim heldur en Feneyjar á Ítalíu. "Auk þess skilst manni á heimsendaspám veðurfræðinga að Vatnajökull bráðni álíka hratt og keppendur í íslenska bachelornum þannig að það er nóg framboð af vatnsflaumi í framtíðinni", er haft eftir Hjalta á horn.is. Getspakir menn á suðausturhorninu telja nú allar líkur á því að með þessu hafi Hjalti tryggt sér nafnbótina Hornfirðingur ársins annað árið í röð. Takist honum að koma fram með annað snilldarbragð á næsta ári þá gæti hann hæglega unnið nafnbótina til eignar, sem ekki hefur gerst síðan Ejub Purisevic kom Sindra upp um tvær deildir með glimrandi sóknarbolta og sambaknattspyrnu.
Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?