<$BlogRSDURL$>

Monday, January 16, 2006

Munnmælasögur#39
Á mánudegi fyrir nokkrum árum var síðuhaldari dreginn á svokallað októberfest af skólastjóranum nýfyndna Valdimari Víðissyni. Mun þetta hafa verið veturinn sem Valdimar stundaði nám í HÍ og vildi kenna síðuhaldara eitt og annað sem hann þyrfti að læra að mati Valdimars, sem taldi síðuhaldara vera afdala sveitamann sem hefði ekki einu sinni heyrt minnst á Roger Whittaker. Valdimar seldi síðuhaldara þá hugmynd að þeir færu á pöbbarölt á mánudagskveldi í tilefni af októberfest sem Valdimar sagði alltaf hafa verið haldið hátíðlegt í menntastofnuninni MA. Eftir að félagarnir höfðu dreypt á nokkrum öllurum í miðbænum til samlætis gömlum MA-nemum gerði Valdimar síðuhaldara grein fyrir nauðsyn þess að þeir færu á stað sem heitir Skipperinn. Var því fylgt úr hlaði með þeirri röksemdafærslu að Valdimar væri kominn í beinan karllegg af skipstjórum aftur í miðaldir. Siðuhaldari gerði sér á þessari stundu enga grein fyrir því hvaða fólk væri að frekventera þennan ágæta pöbb en upplifuninn var eftirminnileg þegar þangað var komið. Valdimar byrjaði á því að þylja upp fyrir vertinum hvað öll skipin á myndunum á veggnum hétu. Eftir það fór hann á trúnaðarstigið með alþýðuskáldinu Bergþóru Árnadóttur á meðan síðuhaldari diskóteraði undirheimana við eina aðalpersónu heimildarmyndarinnar Skuggabörn. Eftir því sem næst verður komist voru Valdimar og Bergþóra ósammála um hvor hefði verið betri: Sigfús Halldórsson eða Skapti Ólafsson.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?