<$BlogRSDURL$>

Thursday, August 31, 2006

Orðrétt
Skemmtileg var hún, forsíðumynd Morgunblaðsins á mánudaginn. Þar mátti sjá hnúfubak stökkva upp úr sjónum, ef svo mætti segja, við nefið á spenntum gestum í hvalaskoðunarferð. Sagði í fréttinni að hnúfubakurinn hefði stokkið allt að 300 sinnum fyrir hópinn sem hefði verið „algerlega dolfallinn“. Allt virðist ganga hvalaskoðunarfyrirtækjunum í hag. „Allt stefnir í metsumar hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum á Húsavík og þannig segir Heimir Harðarson hjá Norður-Siglingu að ætla megi að fyrirtækið muna sigla með hátt í 30 þúsund farþega á þessu ári, sem væntanlega er met á landsvísu“, segir í frétt Morgunblaðsins og má samgleðjast hvalaskoðurum með árangurinn. Og þegar búið er að samgleðjast þeim, þá kemur að því að spyrja hvar þeir séu nú allir sérfræðingarnir sem fullyrtu hvað eftir annað að þessi nýja atvinnugrein yrði fyrir óbætanlegu tjóni ef leyfðar yrðu vísindaveiðar á hvölum. Hafa allir gleymt stóryrðunum og glamrinu sem látið var ganga yfir menn fyrir örfáum misserum? Af hverju eru þær hrakspár ekki rifjaðar upp?

Hvalaskoðunarsamtök Íslands sögðu að ákvörðun um vísindaveiðar væri „bein aðför að greininni“, verið væri að „fórna meiri hagsmunum fyrir minni“, ákvörðunin myndi „skaða ferðaþjónustuna á Íslandi almennt og hvalaskoðun með beinum hætti“. Samtök ferðaþjónustunnar mótmæltu eins og venjulega og skildu vitaskuld ekki af hverju ekki hefði verið haft samráð við samtökin áður en teknar væru ákvarðanir um vísindaveiðar á hvölum. Tuttugu og ein ferðaskrifstofa í Evrópu tók upp á því að skrifa undir yfirlýsingu um að vísindaveiðar á hvölum gætu haft „hörmuleg áhrif, ekki eingöngu á hvalina sem eru veiddir heldur eingöngu á blómstrandi hvalaskoðunarútgerð og íslenskt efnahagslíf í heild sinni.“

Nú hafa vísindaveiðar á hvölum verið stundaðar með ágætum árangri en að vísu án samráðs við Samtök ferðaþjónustunnar. Allt stefnir í metsumar hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum og ætti það að segja meira en mörg orð um endalausar heimsendaspár „aðila á markaði“, sem alltaf virðast geta farið á taugum og telja sig auk þess hafa íhlutunarrétt um hvaðeina. Og það segir ekki síður sögu um íslenska fjölmiðla að enginn þeirra fylgir eftir löngum fréttum sínum af málflutningi hvalaskoðunarfyrirtækjanna þegar reynsla er komin á hrakspárnar.

-Vef-þjóðviljinn þann 24. ágúst 2006.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?