<$BlogRSDURL$>

Monday, October 23, 2006

Munnmælasögur#53
Nú verður rykið dustað af tuttugu ára gamalli bransasögu í tilefni af stórafmæli Bubba Morthens. Þannig bar til að hljómsveitin Stöðmenn átti að leika fyrir dansi í Vestmannaeyjum á laugardagskveldi þegar upp komst kveldið áður að Egill Ólafsson hafði verið tvíbókaður en sama kvöld þurfti hann að standa á sviði Þjóðleikhússins. Nú voru góð ráð dýr en Ragnhildur Gísla var rétt að ganga til liðs við hljómsveitina og tók ekki í mál að fylla skarðið þar sem hún kunni ekki öll lögin o.s.frv. Jakob Frímann fór um víðan völl þetta kvöld en allir söngvarar sem til greina komu voru bókaðir en þó hafði Bubbi gefið Kobba þá vonarglætu að ef allt klikkaði þá gæti hann reddað þessu. Eldsnemma morguninn eftir var ekkert annað að gera fyrir Kobba en að taka hús á kauða. Bubbi var heldur illa fyrir kallaður enda var þetta ekki á mesta heilsubótarskeiði kappans. Kobbi dröslar honum út í bíl, til Þorlákshafnar, út í Herjólf og inn í káettu.

Herjólfur lét dólgslega þennan morgun, enda vont í sjóinn. Bubbi var smám saman fölbleikur í framan og ælir einhver ósköp í vaskinn. Þarna fóru að renna á Jakob tvær grímur enda kóngurinn ekki í nokkru ástandi til þess að skemmta eyjaskeggjum um kvöldið. "Gafal Jakob gafal" styndur Bubbi en þá vantaði hann verkfæri til þess að hræra með í vaskinum. En þegar neyðin er stærst er hjálpin nærst og þegar Kobbi svipaðist um eftir gaffli, bar að innfæddan mann sem sagði að þess háttar heilsuleysi mætti lækna með einföldu húsráði. Taka tvær kúfullar matskeiðar af kakódufti, hræra saman við kalt vatn og skella í sig tveimur glösum af þessu. Þetta stóð eins og stafur á bók og Bubbi var eins og nýsleginn túskildingur á eftir. Að sögn Eyjamanna varð úr einhver besta skemmtun sem Stöðmenn hafa staðið fyrir á Heimaey.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?