<$BlogRSDURL$>

Tuesday, January 30, 2007

Nú liggja Danir í því eða hvað?
Þar sem íslenska handkastlandsliðið er enn í fullu fjöri á HM er eins gott að halda áfram að fabúlera um næstu andstæðinga. Liðið fær Dani í átta liða úrslitum og vinnist sá leikur fær liðið sigurvegara úr leik Pólverja og Rússa. Það verður að segjast eins og er að miðað við þetta, þá hafa möguleikarnir á því að komast í úrslitaleik aldrei verið jafn góðir. Það er bara svo einfalt, þó svo að Danir og Pólverjar séu með aðeins betri lið en við. Það magnað í átta liða úrslitum skuli raðast saman: Króatía-Frakkland og Þýskaland - Spánn. Ef við vinnum Dani þá losnar liðið við tvær óþarflega góðar handboltaþjóðir.

Eins og áður sagði er danska liðið aðeins betra en okkar. Með toppleik gerðum við jafntefli við þá á EM í fyrra og töpuðum í bronsleiknum gegn þeim á EM 2002. Lengi hafa verið miklar væntingar til þessarar kynslóðar hjá Dönum enda valinn maður í hverju rúmi. Sá hvíti í markinu, Kasper Hvidt er frábær. Lars Christiansen hefur lengi verið besti vinstri hornamaður heims þó færa megi rök fyrir því að Gaui sé orðinn betri. Línumaðurinn Michael Knudsen er frábær í vörn og sókn. Tveir klassa miðjumenn, Joachim Boldsen og Jesper Jensen. Bo Spellerberg og Lars Möller Madsen eru góðar skyttur vinstra megin en þar vantar Jeppesen. Sören Stryger frábær í hægra horninu o.s.frv. Auk þess hafa leikmenn danska liðsins meiri reynslu en þeir íslensku af titlabaráttu í Þýskalandi, á Spáni og í Meistaradeild.

En möguleikinn á að vinna Dani er til staðar og liðin þekkjast auðvitað mjög vel. Vinni Íslendingar Dani, þá spáir síðuhaldari því að Ísland fari þá alla leið í úrslitaleikinn. Eiginlega er nauðsynlegt að vinna Dani bara vegna þess hve þjálfarinn þeirra virðist vera einstaklega leiðinlegur náungi. Vonandi verður súmað á eplakinnarnar hans ef Ísland vinnur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?