<$BlogRSDURL$>

Tuesday, February 27, 2007

Orðrétt
"Allir sem fylgjast með fótbolta vita að í janúar opnast leikmannamarkaðurinn. Þá er leikmönnum heimilt að skipta um lið. Svikalaust gleyma þeir gömlum hugsjónum og skipta um treyju. Ganga til liðs við óvininn. Ég er ekki frá því að íslensk stjórnmál séu að verða eins og enski boltinn. Að undanförnu hefur leikmannaskiptaglugginn verið galopin í stjórnmálunum. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum hefur skipt um treyju. Nýverið skipti Valdimar Leó Friðriksson um lið. Hann fattaði daginn eftir herfilega útreið í prófkjöri að hann er á móti ESB en ekki með. Prófkjörstapið hristi svo rosalega uppí hugsjónum þingmannsins að í stað þess að berjast með Samfylkingu fyrir hófsamri stefnu í innflytjendamálum, situr hann á fremasta bekk í klappliðinu þegar Guðjón Arnar varar við því að til landsins komi berklasjúkir innflytjendur og glæpamenn. Þetta eru svo mikil umskipti að sú spurning kviknar hvort hann sé ennþá með sömu konunni? Eða haldi með sama fótboltaliðinu?

Það er reyndar velþekkt í lífinu að fólk sem lendir í alvarlegum áföllum endurmeti líf sitt. En er það sannfærandi að stjórnmálamaður sem verður fyrir alvarlegu áfalli í prófkjöri, endurmeti hugsjónir sínar? Fatti skyndilega við tapið að hann var í vitlausu liði. Sama gerist með Kristinn H Gunnarsson. Samkvæmt alþingisvefnum hefur Kristinn verið í fleiri stjórnmálaflokkum en hjónaböndum. Þingflokkarnir sem Kristinn H hefur verið í, eru jafnmargir börnunum mínum. Og ég á gommu af börnum. Einn daginn er Kristinn eldheitur baráttumaður hugsjóna Alþýðubandalagsins og krefst þess að Ísland gangi úr Nató. Næsta daginn faðmar hann Framsóknarflokkinn og má ekki til þess hugsa að Ísland gangi úr Nató. Stuttu síðar, eftir áfall í prófkjöri, kviknar enn eitt ljósið. Frjálslyndir eru málið."
-Sigmar Guðmundsson sjónvarpsmaður í Krónikunni 15. febrúar 2007.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?