<$BlogRSDURL$>

Wednesday, January 16, 2008

EM í Noregi#2
Fyrsti leikur gegn Svíum á morgun. Svíarnir eru byrjaðir með sálfræðitaktík sína þar sem þeir og fjölmiðlamenn þeirra tala um hvað þeir óttast Íslendinga mikið. Það er svo sem engin furða, því þetta hafa þeir alltaf notað á okkur í gegnum tíðina með góðum árangri. Þar til fyrir einu og hálfu ári síðan þegar við unnum báða leikina gegn þeim í undankeppni HM. Ég er ekki einn af þeim sem tel að við EIGUM að vinna Svía heldur lít ég á þetta sem 50/50 dæmi. Ég geri svo sem ekki lítið úr því að núna eigum við meiri möguleika á því að vinna þá heldur en fyrir nokkrum árum þegar þeir vorum einfaldlega nokkrum númerum of stórir. Það hjálpar óneitanlega að Lövgren og Vranjes eru ekki leikfærir og Gentzel er hættur. Af gömlu köllunum þá eru tveir eftir; Thomas Svensson markvörður og Johan Pettersson. Vonandi er lítið púður eftir í Svensson, en ef hann byrjar leikinn á því að verja vel, þá legg ég til að Belli hlaupi inn á og roti hann, og fórni sér þannig fyrir málstaðinn. Það virðist nefnilega vera einhverjar óskráðar reglur hjá handboltahreyfingunni að sænskir markverðir séu í heimsklassa, og þá sérstaklega rétt á meðan leikið er gegn Íslendingum. Varðandi aðra spámenn þá eru Svíar með tvo burðarása hjá Kiel sem er annað af tveimur bestu félagsliðum heimsins. Skyttan Kim Andersson og Marcus Ahlm sem af mörgum er talinn einn allra sterkasti línumaður heims. Einnig eru Svíar með vinstri hornamanninn hjá Ciudad Real, Jonas Kellman. Jonas Larholm er leikstjórnandi sem spilar með Barcelona en ég sá hann spila gegn Haukum í Meistaradeildinni fyrir nokkrum árum. Þá spilaði hann með Savehoff sem Hreiðar spilar með í dag. Þar var Kim Anderson reyndar einnig. Larholm raðaði inn mörkunum fyrir utan með því að koma beint á vörnina. Síðan þá hef ég ekki séð mikið til hans og vonandi verður hann rólegur á morgun.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?