<$BlogRSDURL$>

Sunday, November 02, 2008

Munnmælasögur#91
Sú var tíðin að Valdimari Víðissyni var treyst fyrir skólastjórastarfi á Grenivík. Einhverju sinni hittist svo á að Guðmundur Gunnarsson, fyrrum flugfreyjumaður, lagði leið sína á Grenivík. Guðmundur leit sem kunnugt er við í flestum deildum Háskólans á Akureyri og þurfti þarna að gera verkefni í viðskiptafræði- eða kennara- eða fjölmiðlafræðináminu. Ræddi hann við Valdimar um að mæta á staðinn og taka upp efni úr skólastarfinu á myndband. Þegar Guðmund bar að garði voru nemendur og kennarar á Grenivík að halda hátíðlegan; "Dag íslenskrar tungu". Guðmundur heilsaði upp á skólastjórann sem mátti ekkert vera að því að ræða við hann út af stressi. Var hann að gera fjölmarga hluti í einu og tíu mínútum síðar var hann byrjaður að halda ræðu. Ávarpaði hann mannskapinn og ræddi um dag íslenskrar tungu. Guðmundur stóð álengdar og hlýddi á boðskapinn með myndbandstökuvélina sér við hlið. Eitthvað virtist nærvera Guðmundar setja skólastjórann út af sporinu því hann var sífellt að gjóa augunum á Guðmund. Þegar Valdimar er stressaður þá á hann það til að verða mjög óðamála og vaða úr einu í annað eins og Nonni Geiri í sínu besta formi. Við þessar aðstæður sem hér hefur verið lýst, þá lét Valdimar þessi skemmtilegu ummæli falla í miðri ræðu um dag íslenskrar tungu: "Já, þetta er hann Guðmundur Gunnarsson. En hann kemur þessum degi nákvæmlega ekkert við" ! Við svo búið hélt hann áfram að tala um Jónas Hallgrímsson og einhverja slíka drykkjumenn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?