<$BlogRSDURL$>

Thursday, December 25, 2008

Munnmælasögur#93 (jólasaga)
Fyrir um hálfri öld var karl faðir minn að hefja búskap í Víkinni með Ásgerði heitinni, móður systkina minna en faðir minn var þá farinn að reka fyrirtæki í bænum. Í þá daga var ekki mikið um að menn leggðu sér rjúpur til munns á jólunum í Víkinni auk þess sem sjaldgæfara var að Bolvíkingar borðuðu fuglakjöt. Það kom síðar. Þáverandi tengdafaðir föður míns, Haukur Einarsson frá Miðdal, var skytta mikil og útivistargarpur eins og fleiri úr þeirri fjölskyldu. Eitt sinn sendi hann pabba og Ásgerði rjúpur til Bolungarvíkur fyrir jól. Voru þær óhamflettar. Faðir minn fór með rjúpurnar niður eftir á verkstæðið í fyrirtæki sínu. Þar kom að honum Hrólfur Jónsson, sem starfaði sem trésmiður hjá fyrirtækinu um áratugaskeið. Þegar Hrólfur mætir á svæðið var faðir minn að svíða rjúpurnar líkt og gert er við sviðahausa. Þar sem fæstir Bolvíkingar höfðu hugmynd um að hamfletta þyrfti rjúpur, þá gerði Hrólfur enga athugasemd við þessar aðfarir. Hann lýsti hins vegar áhyggjum sínum af því að ekki liði á löngu þar til verkstæðið myndi brenna til kaldra kola ef fram héldi sem horfði. Eftir þetta sendi Haukur Einarsson aldrei óhamflettar rjúpur til Bolungarvíkur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?