<$BlogRSDURL$>

Sunday, February 22, 2009

Munnmælasögur#95
Nú er rúmur mánuður síðan þessi vinsæli dagskrárliður var uppfærður. Er verndarinn og líkamsræktarfrömuðurinn, Halldór Magnússon, ekki ánægður með þessa þróun. Hefur hann sagt félögum sínum í Stúdíó Dan að síðuhaldari sé hættur að nenna að skrifa munnmælasögur og birti þess í stað bara tölvupósta frá honum. Úr þessu skal nú snarlega bætt og um leið er athygli lesenda vakin á því að saga númer 100 verður frábær en þau tímamót nálgast nú óðfluga. Fylgist með.

"Í þessum dagskrárlið hefur áður verið sagt frá því þegar Vestfirskir Gleðipinnar fjölmenntu á SUS þing á Selfossi árið 1993 til þess að styðja Jónas Fr. Jónsson í formannsslag gegn Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Á meðal þeirra var Jón Áki Leifsson sem þá stundaði nám í Þýskalandi. Eldri systur Jóns fannst ekki koma til greina að hann héldi á þingið í leðurjakkanum sínum og splæsti þessum líka fínu jakkafötum á fátækan námsmanninn. Jón djammaði í jakkafötunum á þinginu eins og lög gera ráð fyrir á SUS þingi. Jón og Jakob Falur Garðarsson urðu hins vegar fyrir því óláni að rekast á harða stuðningsmenn Guðlaugs Þórs í einhverjum gleðsskapnum. Fór afstaða Jóns og Jakobs í formannskosningunum mjög fyrir brjóstið á mönnunum, sem fyrir vikið lögðu hendur á þá félaga og hentu þeim á kaf í heitan pott í ballfötunum. Hvers vegna mönnunum hefur þótt þetta vera vel við hæfi, er ekki gott að segja en það var heppilegt fyrir þá að þeir skyldu ekki hafa reynt þetta við Halldór Magnússon og Ólaf Sigurðsson sem einnig voru á þinginu. Jón var ljómandi lukkulegur með jakkafötin og var því eðlilega leiður yfir því hvernig komið var. Þegar Jón var kominn upp á hótelherbergi hengdi hann því jakkafötin samviskulega upp til þerris. Það kom því Jóni vægast sagt í opna skjöldu þegar jakkafötin reyndust ónýt þegar hann vaknaði daginn eftir. Kom þá í ljós að þegar Jón hengdi fötin upp kvöldið áður, þá hafði hann gleymt að fjarlægja bjórdósir sem hann var með í sitt hvorum vasanum!"

This page is powered by Blogger. Isn't yours?