<$BlogRSDURL$>

Thursday, February 05, 2009

Orðrétt
Eins og menn muna fékk Baugur útflutningsverðlaun forseta Íslands í fyrra. En Baugur er ekki eina útrásarfyrirtækið sem hefur fengið þá maklegu viðurkenningu. Örfáum misserum áður fékk annað fyrirtæki, Kaupþing banki, þessi sömu verðlaun.

Það var fámenn dómnefnd sem ákvað að verðlauna Kaupþing fyrir þátt þess í útrásinni. Við afhendingu verðlaunanna kom fram hjá nefndinni að "Kaupþing banki fær verðlaunin fyrir þann árangur sem fyrirtækið hefur á skömmum tíma náð á þróuðum mörkuðum erlendis. Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Djörfung og dugur einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mjög ör undanfarin ár og hefur það gegnt lykilhlutverki í fjárfestinga- og viðskiptabankastarfssemi hér á landi. Síðustu ár hefur bankinn stóraukið starfsemi sína á erlendri grundu með stofnun dótturfélaga og kaupum á fjármálafyrirtækjum."

Kaupþing fær hér mikil verðlaun fyrir ákafa útrás og gríðarlegan vöxt sinn. Dómnefndin var fámenn en góðmenn og til að tryggja að fagleg sjónarmið réðu en ekki pólitískt ábyrgðarleysi og spilling, var fenginn fulltrúi viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands í nefndina. Það var að sjálfsögðu enginn annar en Gylfi Magnússon dósent sem settist í dómnefndina og verðlaunaði Kaupþing fyrir mjög öran vöxt og ákafa útrás, alnafni Gylfa Magnússonar baráttumanns, sem hefur í snjöllum útifundarræðum krafist þess að allir þeir sem einhvern þátt áttu í að illa fór í efnahagslífinu, haldi sig fjarri öllum "björgunaraðgerðum", og er jafnframt alnafni þess Gylfa Magnússonar sjáanda, sem fréttamenn segja jafnan að hafi séð allt fyrir, varað eindregið við útrásinni og einkum barist gegn stækkun bankanna.

- Vef-þjóðviljinn þann 4. febrúar 2009.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?