<$BlogRSDURL$>

Tuesday, March 17, 2009

Af slepju og froðu
Síðuhaldari hefur fylgst vel með prókjörum Sjálfstæðisflokksins, misvel þó eftir kjördæmum. Það fer í taugarnar á síðuhaldara hve margir frambjóðendur bjóða sjálfstæðismönnum upp á innihaldslausa froðu og slepju. Umræðan verður á köflum gífurlega yfirborðskennd. Á tímum þegar við þurfum aðgerðir og lausnir þá bjóða frambjóðendur upp á innihaldslausa frasa eins og að "skerpa þurfi sýnina" eða "slá þurfi skjaldborg um eitthvað." Nú eru auðvitað engin á móti því að fólk "skerpi sýnina" eða "slái skjaldborg um heimili eða fjölskyldur" en þetta segir bara kjósandanum ekki neitt. Kjósandinn er engu nær um til hvaða aðgerða frambjóðandinn vill grípa eða hvernig hann vill beita sér. Allt of margir frambjóðendur hafa fallið í þessa gryfju og þess vegna hefur mönnum eins og Óli Birni Kárasyni og Tryggva Þór Herbertssyni gengið vel. Þeir hafa verið óhræddir við að segja sínar skoðanir og leggja þær í dóm flokksmanna.

Um daginn sá ég einblöðung heima hjá foreldrum mínum sem borinn hafði verið í hús í Norðvesturkjördæmi. Þarna voru á ferðinni skilaboð frá frambjóðanda sem sækist eftir því að leiða D-listann í kjördæminu. Þar sem hann stefnir hátt og er að auki útgerðarmaður þá bjóst ég við því að þarna yrði eitthvað kjöt á beinunum. Þarna yrði líklega ekki töluð nein tæpitunga. Ég trúði varla eigin augum þegar ég fór að lesa um helstu áhersluatriði frambjóðandans. "Virkja þarf afl Íslendinga" o.s.frv "bæta þarf ímynd Íslendinga erlendis" o.s.frv. Það var sem sagt ekki tekin afstaða í einum einasta málaflokki. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að bjóða upp á yfirborðskennda froðu í kosningabaráttunni, og birta bara myndir af flokksformanninum sitjandi á bekk á Ægissíðunni, þá verður honum slátrað í kosningunum. Svo einfalt er það.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?