<$BlogRSDURL$>

Friday, April 03, 2009

Munnmælasögur#100
Kæru 90% þjóðarinnar. Nú hefur þessi vinsæli dagskrárliður náð stóráfanga. Til hamingju! Saga númer 100 er komin í loftið og er að sjálfsögðu af Vestfirskum Gleðipinnum. Sýnir þessi saga glögglega hversu áhugasamir þessir góðu drengir hafa alla tíð verið um að betrum bæta sitt nánasta umhverfi. Þegar til þessa bloggs var stofnað í góðri trú snemma árs 2004 þá var lagt upp með að þetta yrði einungis pistlablogg án allra krúsídúllna eins og ljósmynda. Reyndi síðuhaldari að telja sér trú um að hann væri nægilega snjall penni til þess að þetta plan gæti gengið upp. En við þessi tímamót er rétt að gera undantekningu. Ekki væri algerlega út í hött að lesendur myndu henda inn línu í commentakerfinu eftir lesturinn. Sérstaklega þeir sem ekki eru vanir að láta vita af sér á þessum slóðum. Góða skemmtun.

"Saga númer 100 ætti að hljóma kunnuglega í eyrum einhverra Vestfirðinga sem muna aðeins aftur í tímann en eins og svo oft áður þá óx verkefnið nokkuð af umfangi eftir því sem á leið, eins og oft gerðist hjá þeim fróma félagsskap Vestfirskum gleðipinnum, á þessum árum.

Sagan gerist fyrir tæpum tveimur áratugum síðan en á þessum tíma var sorpeyðingarstöðin á Skarfaskeri í Hnífsdal í fullum rekstri undir öruggri stjórn Gilla kropps. Eitthvað þótti karlinn hlaða hressilega á bálið og höfðu íbúar á Árvöllum kvartað undan menguninni og var ekki hægt að hengja út þvott er vindur stóð af stöðinni. Þau svör sem íbúar fengu voru þau að Gilla og hans mönnum yrði fyrirskipað að draga aðeins úr afköstunum í norðaustanátt! Einhvern tíma voru Gleðipinnarnir að velta þessu fyrir sér og þótti þetta heldur ódýr lausn ef enginn væri vindhaninn á stöðinni og var ákveðið að finna vindhana við fyrsta tækifæri og færa Ísafjarðarbæ að gjöf.

Leið nú nokkuð og beið þangað til verndari Bloggs fólksins, Halldór Magnússon og Jón Áki Leifsson voru ásamt fleiri góðum mönnum í gleðskap í fínu húsi við Urðarveg. Þegar þeir yfirgáfu samkvæmið hljóp heldur betur á snærið hjá þeim félögum. Þeim til ómældrar gleði, ráku þeir augun í að húsið státaði af þessum líka fína vindhana á þakinu. Þurfti ekki að eyða neinum orðum á það, heldur svipti HáEmm, félaganum upp á þak, þar sem Jón Áki jagaði hanann niður með miklu brambolti, þar sem ekki fór mikið fyrir verkfærum. Svo mikil voru lætin í þeim félögum, fyrir utan hvað þeim fannst þetta óhemju sniðugt, að yfirlæknirinn sem bjó í nágrenninu vaknaði við öll ósköpin og kom út á svalir á náttserknum einum fata og kallaði til þeirra heldur höstugur: "Strákar, skilið þið þessu strax!" Jón galaði á móti: "Skila hverju?" "Vindhananum!" kallaði þá læknirinn. "Hvaða vindhana?" svaraði Jón og reyndi að fela hanann undir jakkanum sem þótti nokkur bjartsýni. Jón Áki hafði á þessu krítíska augnabliki ákveðið að hafa orð fyrir félögunum og gerði það auðvitað einstaklega vel, enda kominn af málafærslumönnum og strigakjöftum langt aftur í ættir.Daginn eftir voru nokkrir hnípnir menn á rúntinum og voru með nokkurt samviskubit yfir aðförum næturinnar, því eins og alþjóð veit er um að ræða einstaklega prúða og vel upp alda einstaklinga. Þótti þeim rétt að fara til húseiganda og gangast auðmjúkir við glæpnum. Fyrir utan samviskubitið þá vissu þeir einnig að yfirlæknirinn myndi þekkja þá ef til sakbendingar kæmi. Því var ákveðið að þeir myndu draga eldspýtur um val á frummælenda eins og siður var hjá Gleðipinnunum þegar þeir vildu að Jón Áki hefði orð fyrir þeim. Venju samkvæmt kom það í hlut Jóns sem muldraði uppáhaldsmáltækið sitt, "vogun tapar"!

Eigandi hússins þar sem glæpurinn hafði verið framinn var Böðvar rækjukóngur og var ákveðið að banka uppá hjá Eiríki syni hans. Voru teknir nokkrir rúntar á meðan kjarki var safnað og Jón kláraði útfærslu afsökunarpistilsins, en svo var farið og knúið dyra. Kom Eiríkur til dyra og beindust öll augu að Jóni sem sagði þá hátt og snjallt, "Eiríkur, trúir þú á dauðarefsingar"?

Þarf ekki að orðlengja að þeim voru fyrirgefnar allar syndir og máttu að auki eiga vindhanann. Fóru að svo búnu mjög sáttir á braut með blessun útgerðarmannsins. Þar sem Gleðipinnarnir voru nú orðnir löglegir eigendur þessa líka fína vindhana þótti rétt að setja hann í slypp og þótti enginn hæfari til þeirra verka heldur en Guðmundur Páll Óskarsson, hákarlsverkandi og þúsund þjala smiður. Skilaði Gummi hananum skömmu síðar nýmáluðum, smurðum, ískurslausum og tilbúnum til notkunar.

Þá var ekkert annað eftir að gera hjá þeim félögum en að banka uppá hjá sínum gamla kennara úr MÍ, Smára Haraldssyni, sem gegndi á þessum tíma stöðu bæjarstjóra. Vitaskuld tók Smári sínum gömlu nemendum fagnandi enda gerði hann sér grein fyrir því að án vindhana yrði þetta mikla deilumál í Hnífsdal ekki til lykta leitt. Við þetta tilefni lofaði Smári því að strax næsta dag færi vaskur flokkur frá bænum í þeim tilgangi einum að setja hanann upp. Stóð það eins og stafur á bók. Er mál manna að eftir þetta hafi annars eins friður ekki ríkt í dalnum, hvítblaktandi þvottur á hverri snúru, Gilli hæstánægður, sól skein í heiði og bros á hverju andliti."

Myndatexti: Að sjálfsögðu festi ljósmyndari, Vestfirska fréttablaðsins sáluga, viðburðinn á filmu á tröppunum hjá Smára Haralds. Frá vinstri: Smári Haraldsson, Jón Áki Leifsson, Halldór Valgarð Magnússon, Ásgeir Þór Jónsson og Benedikt Níels Óskarsson.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?