<$BlogRSDURL$>

Tuesday, May 12, 2009

Spá fyrir Pepsí-deildina
Hin árlega spá gleymdist hreinlega í þetta skiptið og kemur því þegar einni umferð er lokið af tuttugu og tveimur. Annars held ég að mín spá sé nú ekki mjög frábrugðinn þeim sem hafa farið í loftið hér og hvar.

1. FH
2. Keflavík
3. Fram
4. KR
5. Valur
6. Breiðablik
7. Grindavík
8. Fylkir
9. Fjölnir
10.ÍBV
11.Stjarnan
12.Þróttur

FH er the team to beat. Ofboðslega rútínerað lið með góðan mannskap. Búnir að spila sama kerfið í mörg ár og eru mjög stöðugir. Gleymdu heldur ekki að rækta 2. flokkinn þegar velgengnisárin hófust og fá reglulega efnilega stráka upp í meistaraflokk sem geta gengið inn í leikkerfi þeirra. Þeir eiga eftir sýna mestan stöðugleika en ég held að það hafi verið heilbrigt fyrir mótið að þeir skyldu tapa í fyrstu umferð. Þá er von um smá spennu. Keflavík hefur misst mjög sterka leikmenn á síðustu tveimur árum. Engu að síður eru mjög sterkir leikmenn í liðinu, Hólmar, Símun, Jóhann B og fleiri. Ef danski markvörðurinn og slóvenski miðvörðurinn standa fyrir sínu þá verða þeir öflugir. Eru búnir að vera við toppinn í nokkur ár. Fram sýndi stöðugleika í fyrra. Voru skynsamir og vel skipulagðir. Litlar breytingar hjá þeim þegar uppi er staðið. McShane bættist við hópinn í dag, þeirra besti maður í fyrra. Reynir Leós farinn en Kristján Hauks í staðinn. Ekki óraunhæft að þeir haldi 3. sætinu. KR gæti hæglega endað ofar en í 4. sæti en þá þarf ýmislegt að ganga upp. Spurning hvernig Hollendingarnir Rutgers og Prince koma út. Miðjan verður gríðarlega sterk með þá Jónas Guðna og Baldur Sig. Bjarni getur auk þess leyst þá af. Þessi spá breytir ekki röðun á fimm efstu liðunum frá því í fyrra. Valsmenn eru því áfram í 5. sæti. Eins og fram hefur komið er nánast búið að skipta nýju liði inn og það væri ævintýralega sterkt hjá Willum ef hann næði að pússla því almennilega saman í bara 22 leikja móti. Þetta lið er hins vegar líklegt til afreka 2010 ef rétt er haldið á spilunum. Breiðablik hefur framleitt góða leikmenn á færibandi undanfarin ár en hafa misst reynda erlenda leikmenn. Góðir knattspyrnumenn í liðinu en einn stuðningsmaður liðsins sagði við mig að þeir yrðu brothættari en margan grunar. Grindavík spjaraði sig síðasta sumar eins og síðuhaldari reiknaði með. Jankovic er mjög klókur þjálfari og nær jafnan miklu út úr sínum mannskap. Liðið þarf vissulega á því að halda að lykilmenn skili sínu til þess að þessi spá gangi eftir. Fá væntanlega fleiri stig á heimavelli en í fyrra. Fylkir er með mun yngra lið en undanfarin ár. Það vantaði alla gleði hjá þeim í fyrra og kannski er Óli Þórðar rétti maðurinn til þess að rífa þá upp en breiddin er sennilega ekki mikil í hópnum. Fjölnir kom síðuhaldara talsvert á óvart í fyrra. Ásmundur hefur gert þvílíka hluti í Grafarvoginum undanfarin ár. Hann hefur misst marga lykilmenn og telst líklega gott að halda liðinu uppi en margir reynslulitlir leikmenn í byrjunarliðinu. Síðuhaldari hefur ekki séð ÍBV spila í ár. Ef þeir ná upp Eyjastemningu og fá sinn skammt af stigum á heimavelli þá geta þeir bjargað sér. Leiðinlegt að spá einhverjum falli. Siðuhaldari veit lítið um lið Stjörnunnar og spáir þeim þess vegna falli. Spurning hvernig þetta kemur út hjá þeim að æfa og spila 50/50 á gervigrasi og grasi. Þeir byrjuðu mótið vel og geta eflaust komið á óvart. Þróttur stóð sig vel í fyrra og fékk mikið framlag frá lykilmönnum í fyrra eins og Sigmundi, Danry og Jackson. Tveir þeirra farnir og Danry færist aftar á völlinn. Þróttarar voru klókir í fyrra og nýttu líkamlega styrk mjög vel. Þetta gæti orðið mun erfiðara hjá þeim í sumar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?