<$BlogRSDURL$>

Friday, July 17, 2009

Munnmælasögur#105
Knattspyrnufélag Morgunblaðsins, KFM hefur verið til um langa hríð. Hafa starfsmenn og fyrrum starfsmenn blaðsins leikið innanhússknattspyrnu á veturna og jafnvel spriklað utandyra í rigningunni í Reykjavík á sumrin. Í gegnum tíðina hafa margir áhugaverðir persónuleikar komið við sögu hjá KFM. Einn þeirra er Hjálmar Jónsson framkvæmdarstjóri Blaðamannafélagsins til margra ára. Eru menn oft á tíðum kappsamir í þessum tímum, sem lengst af hafa verið í Framheimilinu í Safamýri undir öruggu eftirliti Jóhönnu baðvarðar. Fer þetta að mestu fram eftir hefðbundnum leiðum, þ.e.a.s að menn reyna að smala saman 8-10 manns og skipta í tvö lið.

Síðastliðinn vetur gerðist það að Hjálmar var að leika knattspyrnu með KFM í hádeginu á þriðjudegi og var lið hans yfir í leiknum þegar skammt var eftir, og fór svo að lið Hjálmars var að innbyrða nauman sigur þegar tímanum átti að vera lokið. Mennirnir sem leigt höfðu tímann á eftir tíma KMF voru hins vegar ekki mættir. Þegar þannig ber undir er samkomulag um að halda leik áfram þar til næsti tími byrjar. Liðu einhverjar mínútur þar til næsti tími gat byrjað en þá mættu mennirnir til leiks. Á þessum mínútum höfðu þeir leiðinlegu atburðir átt sér stað að lið Hjálmars hafði misst forystu sína og lent undir í leiknum. Var lið hans undir þegar mennirnir í tímanum á eftir mættu í salinn og því tapaðist leikurinn hjá Hjálmari sem vitanlega féll þetta þungt. Mennina í tímanum á eftir þekkti Hjálmar ekki nokkurn skapaðan hlut og hafði aldrei hitt þá fyrr á lífsleiðinni. Þegar Hjálmar er að ganga af velli þungum skrefum vindur hann sér snögglega að þessum mönnum sem voru að gera sig klára og hreytir í þá: "Af hverju í andskotanum getið þið ekki mætt á réttum tíma?" Við svo búið gekk Hjálmar til búningsklefa en skildi mennina eftir með þessa áleitnu spurningu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?