<$BlogRSDURL$>

Wednesday, January 27, 2010

Munnmælasögur#108
Rúmir tveir mánuðir eru síðan síðasta Munnmælasaga birtist á þessu síðuhaldi og því eins gott að gleðja lesendur með sögu af Halldóri Magnússyni, verndara Bloggs fólksins. Vegna EM í handbolta verður boðið upp á handboltasögu af HáEmm.

Dóri spilaði handbolta með Ísfirðingum á Menntaskólaárunum og þótti frambærileg skytta eftir því sem Einar Garðar frændi minn hefur sagt mér. Hávaxinn, þrekinn, örvhentur og skotfastur en af slíkum eiginleikum er sjaldnast offramboð í handbolta. Þá var leikið í þremur deildum á Íslandsmótinu. Ísfirðingar léku í þeirri neðstu enda ekki einu sinni með boðlegt íþróttahús og léku væntanlega undir merkjum ÍBÍ. Auk Einars Garðars hafa Einar Halldórs og Oddur Jóns líklega verið í liðinu og svo skilst mér að hinir og þessir Ísfirðingar hafi verið með við og við, eins og Ómar Torfa. Ég hef nú ekki heyrt mjög margar sögur frá þessum tíma fyrir utan leikinn á Selfossi þar sem Einar Garðar handarbraut einn heimamanninn, þegar Einar frumsýndi nýja varnartækni sem hann ætlaði að kenna Ísfirðingum.

Dóri þótti harður í horn að taka og féll fljótt í ónáð hjá dómarastéttinni. Fór það svo að Dóri lauk sínum handboltaferli án þess að fá nokkurn tíma að kynnast því hvernig væri að leika í síðari hálfleik. Áður en til þess kom var alltaf búið að gefa honum rautt spjald. Dóri þekkir því síðari hálfleik aðeins af afspurn. Ef menn hefðu haldið einhverja skrá yfir tölfræði í handboltanum þá væri Dóri líklega handhafi einhverja Íslandsmeta. Til dæmis var eitt sinn búið að reka hann af velli eftir um 10 mínútna leik. Væri það ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þá fékk hann sína þriðju 2 mínútna brottvísun og þar af leiðandi rautt spjald. Af þessum 10 mínútum hefur Dóri þá setið 4 mínútur á hliðarlínunni í kælingu auk þess sem dómarar byrja yfirleitt leikina á því að veifa gula spjaldinu fyrir fyrsta brot. Halldóri hefur þá væntanlega tekist að brjóta fjórum sinnum alvarlega af sér á einhverjum 6 mínútum sem hann var inni á vellinum! Þó skal ekki útilokað að um dómaraskandal hafi verið að ræða og Dóri hafi verið hafður fyrir rangri sök.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?