<$BlogRSDURL$>

Monday, March 01, 2004

Þýðandi og þulur er Guðni Kolbeinsson
Eitt af því sem fer í taugarnar á mér þessa dagana eru slakar þýðingar í ljósvakamiðlum. Þeir sem að sjá um að hvolfa hinum ýmsu tungumálum yfir á hið ástkæra ylhýra eru greinilega misjafnlega vaxnir til starfans. Þrátt fyrir að vera mikill heimsmaður þá get ég nú reyndar ekki státað af almennilegri kunnáttu í erlendum tungumálum nema engilsaxnesku. Þau skipti sem ég hef verið að pirra mig yfir slakri eða undarlegri þýðingu einskorðast því við þýðingar úr því tungumáli. Ég fylgdist til dæmis með körfuboltagoðinu og einkavini Sjonna Jóns; Sir Charles Barkley á dögunum þar sem hann var gestur Jay Leno. Sir Charles talaði um að til stæði að fara í gleðskap til Magic Johnsons sem er víðfræður fyrir leikni sína í körfuknattleik og baráttu sína gegn Alnæmi. Eitthvað hefur þessi heimsfrægi einstaklingur þó farið fram hjá þýðanda þáttarins þar sem nafn hans var Mattie Johnson á hinum íslenska texta.

Eins brá mér illilega í gær þegar greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 að kvikmyndin Dulá (Mystic River) hefði fengið tilnefningar til Óskarsins. Mér er algerlega um megn að botna í því þegar Merðir Árnasynir þessa lands telja að tungumálinu sé gerður greiði með því að þýða öll hugsanleg heiti yfir á íslensku, eins og nafn kvikmynda, popplaga og svo ég tali nú ekki um nöfn fólks; svo sem Játvarður! Undantekningin sem sannar regluna er vitaskuld íþróttapistlar Kristinns R. frá Madrid en sá snillingur fær mitt leyfi til þess að leika sér áfram með nöfn íþróttamanna.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?