<$BlogRSDURL$>

Tuesday, March 09, 2004

Farið aftur í tímann
Ég las á mbl.is að skipuleggjendur Live Aid tónleikanna frægu hyggjast selja útgáfuréttinn af tónleikunum. Tónleikarnir voru haldnir árið 1985 sem fjáröflun til þess að fæða sveltandi íbúa Eþíópíu og voru þeir sýndir í sjónvarpi um allan heim. Hins vegar hefur aldrei komið út geisladiskur né myndband af tónleikunum. En þar sem reynt hefur verið að hagnast á sjóræningjaútgáfu á netinu þá hafa tónleikahaldararnir ákveðið að selja útgáfuréttinn. Talið er að útgáfurétturinn muni seljast á ríflega hundrað milljónir króna á uppboði og mun upphæðin renna til góðgerðamála. Fjölmiðlar geta sér þess til að tónleikarnir verði því fáanlegir á DVD fyrir næstu jól. Það gæti orðið afskaplega forvitnilegt að rifja þetta upp fyrir áhugafólk um 80´s tímabilið. Þarna voru að sjálfsögðu Duran Duran ásamt U2, Queen, Bowie, Madonnu og fleiri góðum.

Þessi Live Aid stemning minnir mig á gamla hugmynd sem trommuleikarinn geðþekki Kristján Freyr gaukaði að mér fyrir um tíu árum eða svo. En þá stóð til hjá hópi af afspyrnu skemmtilegu fólki að halda upp á tíu ára afmæli 85'sins. Úr því varð þó aldrei að mér vitandi, að minnsta kosti var þessara tímamóta ekki fagnað sérstaklega. Ég þarf endilega að rölta við hjá honum í Máli og Menningu og viðra við hann hvort ekki væri ráð að fara að huga að 20 ára afmæli 85'sins. Fönklistagengið og Vestfirskir Sleikipinnar gætu þar lagst saman á árarnar.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?