<$BlogRSDURL$>

Wednesday, March 31, 2004

Áhorfstækni
Ég hef löngum velt því fyrir mér hvernig faðir minn horfir á imbakassann. Sjálfur get ég státað af mikilli reynslu fyrir framan imbann en þrátt fyrir það, þá skil ég ekki almennilega þá tækni sem hann beitir. Fyrir það fyrsta þá getur hann horft á bíómyndir með því að standa reglulega upp og rápa um húsið, fer kannski inn í eldhús og út á tröppur að kíkja til veðurs. Þá nýtir hann sér gjarnan þá sem eru nálæga, í flestum tilfellum móður mína, og spyr hvað hafi gerst í millitíðinni og hverju hann hafi misst af. Einnig er hann lunkinn við að nýta sér þá sem eru nálægir þó hann sitji sjálfur fyrir framan sjónvarpið. Því þá er hann jafnvel að lesa blað í leiðinni og er rétt hlustar eftir því sem er í sjónvarpinu. Ef hann heyrir út undan sér eitthvað áhugavert þá verður sessunauturinn að gjöra svo vel að setja hann inn í málið.

Annað sem ég get nefnt er að gamla settið er ekki sérstaklega kröfuhart þegar kemur að sjónvarpsefni. Sjálfur get ég nú horft á mikið af því sem í boði er en ég dreg þó línuna við ákveðið efni sem mér líkar ekki. Þau geta hins vegar setið yfir einhverju afskaplega lélegu efni, enda þekkja þau þá tíma þegar einungis ein stöð var á boðstólum og ekkert myndbandstæki. Nú horfir svo við í dag að ef RÚV er með lélega dagskrá þá geta þau sett yfir á aðra stöð eða sett spólu í tækið. En það reynist oft afskaplega erfitt að muna eftir slíku, enda ekki liðinn nema um 20 ár síðan þessar breytingar urðu. Þau horfa því frekar á búlgarska, svart hvíta, dans- og söngvamynd frá sjötta áratugnum á RÚV þó svo að einhver nýleg verðlaunamyndin með Al Pacino sé kannski á Stöð 2 á sama tíma. Þetta finnst mér alveg stórmerkilegt og verðugt rannsóknarverkefni fyrir atferlisfræðinga.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?