<$BlogRSDURL$>

Friday, March 05, 2004

Í ræktinni
Fyrir ekki svo ýkja löngu síðan var ég beðinn um að skrifa plötudóm. Það eitt og sér er í frásögu færandi en það sem er enn merkilegra er að platan kom út fyrir 20 árum síðan og er löngu uppseld ef út í það er farið. Baldur Smári ritstjóri og einvaldur á www.vikari.is óskaði eftir því að ég skrifaði um plötuna "Í ræktinni" með bolvísku gleðisveitinni KAN sem því miður lagði upp laupana fáum árum eftir útgáfu plötunnar. Hefur hann nú birt dóminn (lofræðuna) á vefnum. Fyrir KAN aðdáendur og aðra 80's þyrsta lesendur þá er hægt að nálgast umfjöllunina á þessari slóð: http://www.vikari.is/index.php?tree=7&page=38

Þar sem endurkomur hljómsveita hafa verið nokkuð tíðar á undanförnum árum þá væri ekki úr vegi fyrir meðlimi KAN að taka upp þráðinn eitt sumarið. Það gæti vakið lukku, sérstaklega á norðanverðum Vestfjörðum. Spurning hvort Baldur hafi verið að reyna að ýta slíkri umræðu úr vör með þessari óvæntu umfjöllun á Víkaravefnum? Einnig má velta því fyrir sér hvort útgáfa í formi geisladisks myndi bera sig, en "Í Ræktinni" er eins og kunnugt er eingöngu til á vínil og segulbandi, nema hjá örfáum sem eru í náðinni hjá Ásgeiri Þór.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?