<$BlogRSDURL$>

Wednesday, April 07, 2004

Afreksmaðurinn
Ég var alveg rasandi bit þegar ég horfði á frétt Stöðvar 2 í kvöld um leik Arsenal og Chelsea sem fram fór í gærkvöldi á Highbury. Eitthvað hafa fréttamenn stöðvarinnar látið geðshræringuna bera sig ofurliði, því í inngangi fréttarinnar sagði Edda Andrésdóttir að "Eiður Smári væri klárlega fremsti íþróttamaður þjóðarinnar og einn sá allra mesti sem hún hefði eignast". Já það var sko ekki verið að spara stóru orðin, enda lagði tappinn upp sigurmarkið. Þetta hlýtur að vera merkilegasta stoðsending í íþróttasögunni því Höddi Magg hélt áfram í fréttinni sjálfri og hnykkti á sömu setningunni; "Eiður Smári er klárlega fremsti íþróttamaður þjóðarinnar í dag". Ekki er íþróttasaga þjóðarinnar merkileg ef Eiður Smári er á meðal þeirra allra fremstu frá upphafi á þessu stigi ferils síns. Um er að ræða mann sem aldrei hefur unnið neitt. Ekki svo mikið sem einn bikarmeistaratitil, ekki einu sinni á Íslandi, a.m.k. ekki í meistaraflokki. Auk þess eru örfáir mánuðir síðan að íþróttafréttamenn kusu um hver væri klárlega íþróttamaður síðasta árs, og viti menn; ekki varð Eiður fyrir valinu.
Nú er ég ekki að reyna að gera lítið úr hæfileikum Eiðs heldur aðeins að benda á staðreyndir, þ.e.a.s. afrekalistann. Ég gæti einnig talað um að hann hefði aldrei unnið sér fast sæti hjá Chelsea frá því hann kom þangað, en það ætla ég ekki að gera. Það sem mér finnst einkennilegt er af hverju fjölmiðill setur fram órökstudda fullyrðingu eins og þessa hjá Eddu og Herði. Um skoðun hvers er að ræða? Harðar, Eddu, fréttastofu Stöðvar 2, íþróttadeildarinnar eða Norðurljósa í heild sinni? Það kemur ekki fram, heldur er þessu bara varpað fram sí svona, til þess að auka á dramatík fréttarinnar. Það væri hægt að lýsa hæfileikum og landvinningum Eiðs á mun heppilegri og viðeigandi máta, enda maðurinn óhemju hæfileikaríkur og GÆTI orðið okkar fremsti íþróttamaður frá upphafi ef hann hefur nægilega mikinn áhuga á því.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?