<$BlogRSDURL$>

Tuesday, April 06, 2004

Kristinn R - miklu meir
Ég les gjarnan stutta pistla sem eru í boði meðal annars á Netinu, til dæmis á bloggsíðum sem þessari. En þar sem Fréttablaðinu er dreift frítt, þá getur maður einnig gluggað í það reglulega. Þar er töluvert um pistla, eins og Bakþankana á baksíðunni. Ég les þá gjarnan og missi helst ekki af Þráni Bertelssyni enda er hann á meðal fyndnustu sonum þessa lands. Einnig hef ég gaman af Sigurjóni Egilssyni, en skrif hans á bakþönkunum eru yfirleitt persónulegar lífsreynslusögur matreiddar á einlægan og sniðugan hátt. Ég veit ekki hvað ég á að segja um Guðmund Steingrímsson og Eirík Jónsson en pistlarnir þeirra eru oft á tíðum hálf súrir, maður fær það á tilfinninguna að þeir fái sér eina jónu áður en þeir byrja að hamast á lyklaborðinu. Kristín Helga Gunnarsdóttir er slöppust af þessum pistlahöfunum og höfðar ekki til mín. Inni í blaðinu er gjarnan lengri pistlar og þar eru tveir gamalkunnir vinstri menn fastagestir, Guðmundur Andri Thorsson og Þorvaldur Gylfason. Sá fyrrnefndi er löngu orðinn þreyttur pistlahöfundur og er fastur í samsæriskenningum og sá síðarnefndi er enn að predika eitthvað sem hann kallar blandað hagkerfi og á að hafa gefist mjög vel í Bretlandi í stjórnartíð Tony Blairs. Guðbergur Bergsson er einnig með fasta pistla og hann er algerlega óútreiknanlegur, sem gerir hann reyndar svolítið spennandi. En sá sem skarar fram úr er Kristinn R. Ólafsson. Ég hef ávallt haft gaman af útvarpspistlum hans, enda maðurinn mælskur með endæmum og býr yfir ótrúlegri góðri þekkingu á íslenskri tungu. Ég var því spenntur þegar hann byrjaði að skrifa í blöð og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum. Maðurinn er óhemju skemmtilegur penni og tekst alltaf að skjóta inn einhverjum fróðleik um Madrid og Spán. En það toppar þó ekkert íþróttalýsingar hans úr spænsku knattspyrnunni. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að kalla þá Ronaldo og Rivaldo: Rögnvald reginskyttu og Rígvald gyllinknött? Hann mætti vera meira áberandi mín vegna.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?