<$BlogRSDURL$>

Monday, April 19, 2004

Látúnsbarkinn
Ég skellti mér í fermingarveislu í gær hjá systursyni mínum Jóni Friðgeir jr. Þar var á boðstólum tónlistaratriði hjá honum og hljómsveitarfélögum hans, en þeir eru allir í hljómsveitarbrasi og með hár eins og Jónas R. í villtu vinna milljón. Þeir ákváðu að taka þrjú lög, og vildu endilega fá einhvern til þess að syngja með sér í laginu Creep með Radiohead. Af þessum 100 gestum sem þarna voru saman komnir þá einhverra hluta vegna fóru spjótin fljótlega að beinast að mér. Vegna gífurlegrar eftirspurnar þá varð það úr að dúetinn Vanir menn - vönduð vinna sá um sönginn en hann er skipaður síðuhaldara og Guðfinni Ólafi Einarssyni jr. Vakti frammistaða okkar vægast sagt gríðarlega lukku og er söngferillinn því farinn af stað, þó hef ég áhyggjur af því hvernig sagan mun koma út í meðförum nokkura veislugesta eins og þeirra Ásgeirs Þórs Jónssonar, Heimis Jónatanssonar og Haralds Péturssonar svo einhverjir þekktir sögumenn séu nefndir. En í gegnum allt myndavélaflassið þá þóttist ég greina videomyndavél, þannig að sennilega er þetta til á bandi. Nú er bara næsta skref að athuga hvort ég sé nokkuð orðinn of gamall í Idolið. Þeir lesendur sem vilja skora á mig að taka þátt í Idolinu geta skráð nafn sitt á undirskriftalista með því að senda póst á netfangið: hm@ov.is.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?