<$BlogRSDURL$>

Friday, June 04, 2004

Þögnin rofin
Það er erfitt að finna efnisleg rök í yfirlýsingu Ólafs Ragnars Grímssonar, á Bessastöðum í gær fyrir þeirri ákvörðun hans, að "staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum". Forsetinn sagði í yfirlýsingu sinni: "Því miður hefur skort á samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga, að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa."
Leiðari Morgunblaðsins þann 3. júní 2004.

Af virðingu við lesendur bloggs fólksins þá tók ég þá ákvörðun að sofa aðeins á þeim tíðindum sem bárust þann 2. júní síðastliðinn, frá alþýðumanninum Ólafi Gríms rakara; sameiningartákni þjóðarinnar, áður en ég ryddist fram á ritvöllinn með dónaskap og djöfulgangi. En nú verður sem sagt þögnin rofin, en þessi pistill mun vart komast í dálkinn "af netinu" í Fréttablaðinu sem er markmið mitt með þessari bloggsíðu.

Það er einungis tvennt sem ég ætla að taka fyrir að svo stöddu. Það eru tvö atriði þar sem mér fannst sameiningartákninu mistakast. Annars vegar tókst honum ekki að rökstyðja ákvörðun sína efnislega né að útskýra við hvaða aðstæður rétt sé að beita þessu ákvæði sem nú hefur verið gert í fyrsta sinn. Það sem eftir situr er að geðþóttaákvarðanir Forsetans á hverjum tíma séu nægilegar til þess að þessu ákvæði sé beitt, og þar með tel ég ólíklegt að týpur á borð við Kristján Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur eigi auðvelt uppdráttar í forsetakosningum framtíðarinnar.

Hins vegar tókst Sameiningartákninu ekki að sannfæra mig um að ákvörðun hans væri ekki efnisleg afstaða. Raunar fannst mér hann ekki reyna mikið að rökstyðja það. Eftir stendur að Sameiningartáknið, sem kjörinn var með minna en helmingi atkvæða í lýðræðislegum kosningum, stoppaði lagasetningu Ríkisstjórnarflokka sem fengu meira en helming atkvæða í lýðræðislegum kosningum.

Það er ágætt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. En forvitnilegt yrði að vita um hug þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu: ef vinstri stjórn væri við völd og hægri sinnaður Forseti myndi synja lögum staðfestingar:) Þá gæti ég trúað að orð eins og "nauðgun á lýðræðinu" myndi skjóta upp kollinum í umræðunni, frekar en "traustsyfirlýsing á lýðræðinu".

Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?