<$BlogRSDURL$>

Tuesday, June 15, 2004

Margur verður af silfri api
Ekki það að ég sé að mælast til þess að allir séu eins, alls ekki, en sjónvarpsþættirnir Út og suður eru sérkennilega þjóðlegir. Þetta virðist vera svona klassísk aumingjadýrkun eins og maður hefur ekki séð síðan Stiklur Ómars Ragnarssonar voru upp á sitt besta. Á köflum voru þær eins og dýragarður - þegar best lét voru ferðamenn meira að segja farnir að henda banönum inn á túnið hjá Gísla í Uppsölum. Ef Íslendingar sjá fólk sem er með fullu viti verða þeir grænir af öfund og byrja snimendis að níða af því skóinn, en þeir gapa hins vegar þegar þeir sjá aumingja. Þá meina ég aumingja í nokkuð góðri og víðri merkingu þess orðs. Eins og bent hefur verið á eru bókmenntir þjóðarinnar fullar af aumingjadýrkun. Stærstu aumingjarnir eru án efa Bjartur í Sumarhúsum og Ólafur Kárason. Annars var Gísli í Uppsölum víst misskilinn. Ólafur Hannibalsson bjó á næsta bæ við hann í Selárdal í mörg ár og sagði einhvern tíma í útvarpi að Gísli hefði ekki verið vitund skrítinn - hann hefði bara "lent í þessu". Sagt er að á þeim tíma hafi verið þrír einsetukarlar í Selárdal, Gísli og tveir Ólafar sem helst ekki töluðust við. Gísli mun hafa flutt boð á milli þeirra ef með þurfti.
-Egill Helgason á strik.is þann 10. júní 2004.

Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð hissa á meintum tvífara mínum, Agli Helgasyni, þegar hann er að talar um að sjónvarpsviðtöl við fólk í sveitum sé aumingjadýrkun. Einhver mun víst hafa sent honum athugasemd vegna þessa sem hann svaraði á strikinu:
Ég held þú skiljir ekki alveg hvað ég er að fara. Það hefur verið lenska hér að elta uppi alls kyns kynlega kvisti og setja þá í bækur, blöð og sjónvarpsþætti. Ég hef ekki orðið var við að svona mikið sé um þetta með öðrum þjóðum sem ég hef kynnst. Um þetta var búið til hugtakið "aumingjadýrkun", ég er ekki viss um hvaðan það er komið. En það hefur til dæmis verið notað um Halldór Laxness - mikið af stóru söguhetjunum hans eru það sem kallast "aumingjar". Ég nefni Bjart í Sumarhúsum og Ólaf Kárason. Það er ekkert mikið af uppréttum glæsimennum í íslenskum bókmenntum seinni tíma - ekki eins og þær sem við sjáum til dæmis í Íslendingasögunum. Bóbó á Holtinu er miklu nær því að vera dæmigerð sögupersóna - hann breyttist í Badda hjá Einari Kárasyni. Svo var þetta einhvers konar tíska á blómatíma Ómars Ragnarssonar að fara út um allar grundir og finna skrítið fólk, helst hálfruglaða einbúa. Árni Johnsen tók líka þátt í þessu og fleiri og fleiri. Maður hélt að þetta væri kannski búið, en nú kemur þessi þáttur hans Gísla Einarssonar sem er í þessum þjóðlega anda. Samt alveg ágætur, þótt menn verði ekki sjálfkrafa spekingar af því að verða skrítnir. Ég man til dæmis eftir viðtali við einsetukarl í einum svona þætti, maður beið eftir ógurlegum spekimálum en svo kom bara einhver steypa um landsliðið í handbolta. Hins vegar hefur verið landlægt á Íslandi að níða skóinn af fólki sem ber af vegna gáfna og glæsileika. Við getum ekki gert að því - það er í eðli okkar.

Að búa í sveit er kannski ekki jafn dyggðugt og að rölta með barnavagninn í 101, en mér finnst þetta vera einkennileg þjóðfélagsgagnrýni hjá honum. Hvernig er hægt að ganga út frá því sem gefnu að það sé eitthvað eðlilegra að búa í þéttbýli heldur en dreifbýli? Geta sjónvarpsviðtöl við Sigurð A. Magnússon ekki alveg eins verið aumingjadýrkun? Ég er hins vegar sammála punkti Egils um hve gjarnt fólk er á að rakka niður þá sem njóta einhvers konar velgengni.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?