<$BlogRSDURL$>

Wednesday, June 30, 2004

Staðreyndir á haus
Og ekki verður það af Ólafi Ragnari Grímssyni skafið að hann var atvinnumaður í pólitískum áróðursbrögðum og hikaði aldrei við að snúa staðreyndum á haus, ef það mætti verða til framdráttar röngum málstað.
-Jón Baldvin Hannibalsson í endurminningabók sinni: Tilhugalíf.

Eins og við var að búast þá hefur Ólafur Ragnar Grímsson túlkað niðurstöður forsetakosninganna sem mikinn sigur fyrir sig. Þá sérstaklega í ljósi meintrar "herferðar" og "atlögu" gegn sér af sterkum öflum í þjóðfélaginu. Eftir því sem ég kemst næst eru það Styrmir Gunnarsson og Ingvi Hrafn Jónsson sem þar hafa átt í hlut með því að gagnrýna Ólaf í vinnunni. Þessi yfirgengilega herferð og atlaga kallaði á þau viðbrögð að hreinlega 2 af hverjum 5 atkvæðabærum mönnum í landinu þustu á kjörstað til þess að halda uppi vörnum fyrir Forsetann. Einnig er athyglisvert að Ólafur skuli nefna sérstaklega forsíðu Moggans á laugardeginum þar sem greint var frá því að hlutfall auðra seðla yrði gefið upp. Það túlkar Ólafur sem hvatningu til þess að skila auðu en hann hefur ekki minnst á að Fréttablaðið birti niðurstöður úr skoðanakönnun í vikunni fyrir kosningar þar sem sérstaklega var bent á að 20% þeirra sem svöruðu segðust ætla að skila auðu í kosningum. Maður spyr sig þá hvort slíkt sé einnig eins konar hvatning og hvort Fréttablaðið heyri kannski undir þessi öfl sem hafi beitt sér gegn honum.

Ummælin hér að ofan voru rifjuð upp af alnafna mínum á Morgunblaðinu í ágætri grein hans í Viðhorfinu í gær. Sjálfur þekki ég ekki Ólaf Ragnar persónulega en eins og nafni minn bendir á í greininni þá þekkir Jón Baldvin hann persónulega og starfaði náið með honum í ríkisstjórninni ´88-´91. Jón ætti því að vera sæmilega fær um að meta það hversu mikið er að marka orð Ólafs alla jafna. Ég minnist þess eftir kosningarnar ´91 þá lýsti Ólafur því einmitt yfir sem þáverandi formaður Alþýðubandalagsins að úrslitin væru sigur fyrir flokkinn og hann væri samhentari og sterkari en hann hefði verið um árabil. Flokkurinn fékk um 14% en hafði mest fengið um 23% í kosningum ´78 og fyrir kosningarnar gekk fólk úr flokknum yfir í Alþýðuflokk auk þess sem forysta BHMR kvatti Alþýðubandalagsfólk til þess að kjósa Kvennalistann. Ólafur sagði einnig við sama tækifæri að úrslitin sýndu að vilji þjóðarinnar væri sá að stjórnarsamstarfið héldi áfram en Jón Baldvin leit þau öðrum augum og myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?