<$BlogRSDURL$>

Tuesday, November 23, 2004

Munnmælasögur#4
Fyrir ekki svo ýkja löngu síðan var Trausti Salvar frændi minn að vinna hjá símafyrirtækinu Tal og þar hefur maður nú þekkt nokkra um dagana. Salvar var um tíma í verslun þeirra í Síðumúla, en hinu megin við vegginn voru frændi minn Halli Pé og Gummi Gunnars vinur minn - starfsmenn fyrirtækjaþjónustu. Þar gerðu menn sér að leik að trítla yfir á klósettið í versluninni ef mikið stóð til hjá þeim, enda vissu þeir að fnykurinn færi mjög fyrir brjóstið á Salvari, sem teldi það ekki hluta af sínu vinnuumhverfi. Þegar þetta hafði gengið í einhverjar vikur sendi Salvar eftirfarandi tölvupóst á helstu menn valdapíratímans í fyrirtækinu, eins og atvinnuleysingjann Jón Ólafs í Skífunni, atvinnuleysingjann Sigurð G. Guðjónsson, atvinnuleysingjann Þórólf Árnason og Guðjón Reynisson fyrrum ÍBÍ leikmann. Þessir kappar voru allir mektarmenn í fyrirtækinu eða þá hjá Norðurljósum eiganda Tals. Bréfið mun hér birtast orðrétt í fjölmiðli í fyrsta sinn:

Sælir.

Sökum tíðra salernisferða starfsmanna fyrirtækjaþjónustu í aðstöðu verslunar, mun ég
leggja fram tillögu, í samráði við trúnaðarmann Tals og starfsmannastjóra, að aðeins
útvaldir starsmenn fái afhendan lykil að hurð salernisaðstöðunnar, verslunar megin.
Þetta er gert vegna ítrekaðra agabrota starsmanna, sem eru: Haukur Gíslason,
Þorkell Guðbrandsson, Guðjón Daníelsson, Daði Agnarsson, Ásgrímur Helgason og Valur
Stefánsson.
Salernisuppeldi þeirra er svo ógeðfellt, að það er ofar mínum skilningi að
svokallaðir viti bornir menn skulu geta látið annan eins illan daun frá sér fara á
almennum vinnustað.
Hið brotlega og algerlega siðlausa í þessum verknaði er samt það, að fullkomlega
samkeppnishæf salernisaðstaða blasir við þessum einstaklingum á þeirra eigin
vinnusvæði. Þessir menn eru hinsvegar svo gersamlega sneyddir allri réttlætis og
siðferðiskennd, að þeir ræna aðstöðu kollega þeirra, og skilja eftir sig svo illan
daun, að ekki er gangandi þar framhjá án þess að taka fyrir vit sér, því flestir
þessara manna eru jú komnir af sínu mesta blómaskeiði, og þurfa sérstakt fæði til
þess að koma líkama sínum í rétt horf, en fæði þetta framkallar æði sterka lykt af
hægðum, og um það snýst málið.
Þessvegna mun ég leggja fram þá tillögu að aðeins útvaldir einstaklingar hafi
lyklavöld að salernisaðstöðu verslunar, og þar á lista komist enginn af áður
upptöldum mönnum, heldur aðeins starsmenn verslunar, einsog ég sjálfur Brynjólfur,
Halldór, og þeir aukamenn sem þar koma til vinnu.

Trausti Salvar
Sölumaður
Síðumúla 28

This page is powered by Blogger. Isn't yours?