<$BlogRSDURL$>

Thursday, February 10, 2005

Munnmælasögur#11
Allir sem starfað hafa sem blaðamenn kunna skemmtilegar sögur af skondnum mistökum sem þeir hafa gert í starfi. Ritstjóri Bloggs fólksins er þar engin undantekning. Þegar ég starfaði við skrif á íþróttafréttum á mbl.is, þá var ég í þannig starfi að maður þurfti að henda fréttum inn á vefinn í snarhasti og hafði ekki tíma til þess að gaufa neitt við hlutina. En þar sem mér fellur aldrei verk úr hendi þá átti þetta ágætlega við mig. Eitt sinn bar svo til að Heimsmeistaramótið í norrænum greinum skíðaíþrótta var í fullum gangi í Finnlandi og þurfti ég að skrifa frétt um úrslit í skíðagöngu. Fyrirferðamestir í slíkum greinum á mótinu voru Finnar og keppendur frá Eystrasaltslöndunum og sá ég á heimasíðu mótsins hverjir hefðu hafnað í þremur efstu sætunum. Þegar fréttin hafði verið á vefnum í um 60 sekúndur benti kollegi minn (Valur Jónatansson frá Ísafirði sem sat á næsta bás) mér á að þarna hefði verið keppt í kvennaflokki en ég hafði fullyrt að þarna hefði verið um karlaflokk að ræða. Leiðrétti ég það í hvelli enda auðvelt að gera slíkt án mikillar aðgerðar í netfréttum. Mér til mikillar gremju þá hafði eini skíðagönguáhugamaður landsins verið með tölvuna opna, akkúrat á þessari einu mínútu sem þessi leiðu mistök lifðu á mbl.is. Var þar á ferðinni Ísfirðingurinn Guðmundur Rafn Kristjánsson (Muggur) sem útskrifaðist með Gleðipinnunum úr MÍ. Sendi hann tölvupóst á Netdeildina og Íþróttadeildina þar sem hann sagðist vita til þess að menn gætu ýmislegt á Mogganum, en hann hefði ekki vitað til þess fyrr að við gætum breytt kyni fólks.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?