<$BlogRSDURL$>

Sunday, March 20, 2005

Munnmælasögur#15
Fyrir nokkrum árum fór ég í ferð með samnemendum mínum í stjórnmálafræði til Brussel í Belgíu þar sem helgustu vígi Evrópusambandsins og NATO eru til húsa. Nemendur í stjórnmálafræði við HÍ hafa farið þarna á hverju ári og skoðað sig um. Ég var með vini mínum Gunnari Sigurðssyni frá Ólafsvík í herbergi, en hann er nú orðinn landsfrægur fyrir leiksigur sinn í auglýsingunum um enska boltann á Skjá1, þar sem hann leikur útgáfu af hliðarsjálfi sínu. Ekki er vitað til þess að það hafi gerst í öðrum slíkum ferðum að einhverjum hafi verið stungið í steininn, en í ferðinni sem ég fór þá gerðist það einmitt að yfirvöld í Brussel sáu þann kostinn vænstan að taka Gunnar höndum. Eftir fjörugt heimboð íslenska sendiherrans var haldið á pöbbarölt um miðnættið á miðvikudagskvöldi. Gunnar hafði gert kjarakaup í einni tyrknesku kjörbúðinni og keypt sér lambúshettu sökum mikils kuldakasts sem þarna reið yfir meginlandið. Bar hann hana á höfði er við vorum á leið á írskan pöbb og er við gengum fram hjá einhverri verslun þá danglar Gunnar aðeins með fætinum í grindina sem dreginn er fyrir gluggana eftir lokun. Akkúrat í þann mund rennur lögreglubifreið upp að sem líklega hafði runnið á hljóðið frá baráttusöngvum Ipswich Town sem Gunnar hafði sungið hástöfum. Ekki veit ég hvað er kennt í lögregluskólum í Belgíu, en ég get mér þess til að heppilegt sé talið að grípa inn í þegar maður með lambúshettu sparkar í öryggisgrind verslunnar að næturlagi. Var Gunnar hýstur í litlum fangaklefa um nóttina og var sleppt á hádegi daginn eftir, þegar Gunnar Snorri sendiherra hafði hringt á lögreglustöðina. Hafði þá verið búið að finna enskumælandi lögreglumann sem tók skýrslu af Gunnari. Kom nokkuð fát á hann þegar hann heyrði hjá hverjum Gunnar hafði verið að drekka áfengi kvöldið áður. Hann vildi fá að vita hvað Gunnar hefði nákvæmlega innbyrt, en þegar upptalningin var hálfnuð þá hætti hann við og skrifaði í skýrsluna: "He had a lot to drink" en ekki þarf að taka fram, að barinn var vel útilátinn hjá sendiherranum og þurfti Gunnar því að smakka á hinum ýmsu tegundum hjá pakistönsku þjónunum.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?