<$BlogRSDURL$>

Thursday, April 14, 2005

Orðrétt
"Menn fá oft ansi mis góðar hugmyndir um hvernig betrumbæta skuli heimilið. ég og traustið erum núna búnir að leigja saman íbúð í tæpa átta mánuði. það hefur verið mjög fínt, við höfum reynt eftir fremsta megni og getu að halda heimilinu hreinu, látum reyndar stundum uppvaskið bíða full lengi, en það er víst mér að kenna þar sem að ég var víst útskipaður opinber uppvaskari fríríkisins á einhverjum fundi sem við eigum að hafa haldið tveir félagarnir. ég reyndar man ekki eftir þeim fundi, en það er aukaatriði að mati traustsins. traustið er annars vinalegur í umgengni en étur óskundan. pakkapetsur, pylsur og spaghetti er það sem búkur hans hefur vanið sig á að éta nær eingöngu. svo bakar hann af og til skonsur og fær þær í heimsókn.

ófá partýin hafa verið haldin á níundu hæðinni. okkur tókst t.a.m. að hrekja einstæða móður héðan af hæðinni niðrá þá fjórðu. verði nágrönnum hennar það að góðu. í íbúðinni okkar eru gifsveggir, sem mér finnst ein versta hugmynd byggingamála sem um getur. þeir eru svo viðkvæmir að maður má varla stara of lengi á veggina án þess að það komi í þá dæld. hér í íbúðinni eru því veggirnir þó nokkuð farið að láta á sjá og það var þess vegna sem ég viðraði það við meðleigjanda minn hvort við ættum ekki að reyna að lappa upp á veggina. traustið, sem trúir á að gera hlutina með sem minnsta ómakinu, tók ekki nógu vel í þá hugmynd mína að kaupa spasl og málningu og bletta í stærstu skemmdirnar. nei, hann var búinn að hugsa upp miklu betri hugmynd, að hans mati. jú, hann vildi kaupa tippex og nota það til að bletta í veggina. hann vildi sem sagt tippexa veggina í íbúðinni. það var hans lausn. ég hélt nú ekki. traustið ætti frekar að sækja um að fá að skrifa handritið að klaufabárðunum frá tékklandi. hvað ætlar hann að gera ef það kemur gat í vegginn? teipa a4 blað fyrir?"

-Ægir sambýlismaður Trausta Salvars á bloggsíðu sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?