<$BlogRSDURL$>

Sunday, July 03, 2005

Orðrétt
"Fréttablaðið kaus í vikunni að koma systurblaði sínu Hér og nú, fylgiriti DV, til varnar þegar það var gagnrýnt fyrir umfjöllun um einkalíf þekkts tónlistarmans og einstaklinga sem honum tengjast. Í dálki á leiðarasíðu Fréttablaðsins var sagt frá því að Eiríkur Jónsson frá Hér og nú hafi mætt í sjónvarpsþætti til að ræða málið og þar hafi honum mætt stjórnendur sem Fréttablaðið fullyrðir að hafi allir verið fyrir fram búnir að taka ákveðna afstöðu í málinu. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort þessi fullyrðing stenst og veit ekki hvaðan Fréttablaðið hefur þessar upplýsingar, en Fréttablaðið er í öllu falli greinilega mjög hneykslað á því að fjölmiðlamenn taki afstöðu og endar umfjöllun sína á orðunum: Um hlutleysi blaðamanna má lesa í siðaskrá Blaðamannafélagsins sem allir stjórnendur höfðu að eigin sögn vel á hreinu. Nú þurfti ekki frekari vitna við og lesendur áttu greinilega að láta sannfærast um að stjórnendur sjónvarpsþáttanna hefðu brotið siðareglur Blaðamannafélagsins og að gagnrýni á systurblöð Fréttablaðsins væri bæði óréttmæt og ósanngjörn.

Þeir sem lesið hafa siðareglur Blaðamannafélagsins, sem má kynna sér á vef þess, vita að þar er ekki stafkrókur um „hlutleysi blaðamanna“ og fullyrðing Fréttablaðsins því algerlega úr lausu lofti gripin. En fyrst Fréttablaðið sér ástæðu til að beita siðareglum Blaðamannafélagsins fyrir sig og systurmiðla sína má að ósekju vitna í nokkur atriði sem þar koma fram. Í 5. grein siðareglnanna segir meðal annars: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns.“ Hvernig skyldi ofangreind umfjöllun Fréttablaðsins nú koma heim og saman við þessi ákvæði siðareglnanna?

Og hvernig ætli systurblöð Fréttablaðsins, DV og Hér og nú, falli að ákvæði 3. greinar siðareglnanna, sem hér fer á eftir? „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Þá er það 4. greinin, ætli fyrrgreindir fjölmiðlar hafi hana ævinlega í huga í skrifum sínum? Í 4. grein segir meðal annars: „Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar. Í frásögnum af dóms og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“ Falla nafn- og myndbirtingar þessara miðla vel að þessari grein?

Fréttablaðinu, DV, Hér og nú og öðrum miðlum er auðvitað frjálst að fara ekki eftir siðareglum Blaðamannafélagsins, en það er öllu verra þegar því er haldið fram að aðrir fjölmiðlar brjóti siðareglurnar með því að vísa til ákvæða sem þar er alls ekki að finna. Eigendum blaða er líka frjálst að láta þau fylgja einhverjum allt öðrum viðmiðum en þessum siðareglum, en það er þá þeirra ákvörðun og þeir bera ábyrgð á henni. Með sama hætti er það ákvörðun neytenda hvort þeir vilja stuðla að slíkri útgáfu með því að eiga viðskipti við útgefendurna og ákvörðun fyrirtækja hvort þau vilja tengjast útgáfunni með því að auglýsa í henni. Allt er þetta sem betur fer frjálst og á ábyrgð hvers og eins."
-Vef-þjóðviljinn 2. júlí 2005

This page is powered by Blogger. Isn't yours?