<$BlogRSDURL$>

Tuesday, September 13, 2005

Fagmennskan lifir á RÚV
Fyrir nokkrum misserum síðan tókst fréttamönnum RÚV að forða fréttastofu útvarps frá því að maður utan úr bæ kæmi og spillti fagmennskunni á fréttastofunni. (Vonandi lesa Svavar og Heiðar þetta ekki). Fagmennskan hefur því fengið að lifa eins og fréttin af viðbrögðum fræðimanna við ráðningu Doddssonar í Bleðlasankann, (nafn fengið að láni frá Flosa Ólafssyni), ber glöggt vitni. Dregnir voru á land tveir "hlutlausir fræðimenn" og skoðunum þeirra gert hátt undir höfði hjá fréttastofu útvarps. Þetta voru tveir af þekktustu krötum landsins, Ágúst Einarsson og Þorvaldur Gylfason. Um þetta hefur sem betur fer verið fjallað bæði á Vebbanum og pistli Andrésar Magg í blaðinu Blaðið, en ég ætla líka að vekja athygli á þessu hér. Þeir fóru mikinn í gagnrýni sinni á ráðninguna, hún væri ekki fagleg og maðurinn væri vanhæfur og hvaðeina. Nú gef ég Vebbanum orðið:

"Það vill svo til að Ágúst þessi Einarsson sat á Alþingi fyrir forvera Samfylkingarinnar með hléum frá árinu 1978 til 1999 og er faðir núverandi varaformanns þess flokks. Hann er því í þessu sambandi miklu frekar andstæðingur Davíðs í stjórnmálum en fræðimaður sem hefur einungis áhuga á að gefa hlutlaust álit á skipuninni í bankastjórastólinn. Hinn „fræðimaðurinn“, Þorvaldur Gylfason, hefur árum og nánast áratugum saman skrifað reglulega greinar í dagblöð, nú síðast Fréttablaðið, þar sem hann hefur haft lítið annað fram að færa en hallmæla Davíð Oddssyni og ríkisstjórnum hans. Hann hefur árum saman ranglega spáð hörmungum í efnahagslífi landsins, að því er virðist eingöngu til að klekkja á ríkisstjórnum Davíðs og það leynir sér ekki að honum hefur verið mjög í nöp við manninn. Þorvaldur ritaði jafnvel heila bók um hrakspár sínar árið 1995 og bar hún hið dramatíska nafn Síðustu forvöð. Í bókinni sagði hann allt stefna norður og niður ef ekki yrði farið að ráðum sínum í efnahagsmálum. Í engu var farið að ráðum Þorvaldar en við tók mesti fjörkippur í íslensku efnahagslífi sem um getur."

Þessir tveir fræðimenn sem bera hag Seðlabankans svo mikið fyrir brjósti gerðu ekki veður út af því þegar Alþýðuflokksmaðurinn Jón Sigurðsson varð Seðlabankastjóri fyrir áratug síðan eftir ráðherrasetu. Gott ef Ágúst var ekki einn af þeim sem réðu Jón stjórnmálamann til Seðlabankans. Fyrir mína parta mega menn svo sem gagnrýna málefnalega þegar stjórnamálamenn fá störf að lokinni þingmennsku/ráðherrasetu en þessir tveir voru síður en svo heppilegir til verksins að þessu sinni, enda hefur heift þeirra í garð þess sem nú var ráðinn ekki farið fram hjá sæmilega vakandi fólki.

Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?