<$BlogRSDURL$>

Monday, December 05, 2005

Munnmælasögur#36
Í tilefni af 50 ára afmæli ekg.is þá verður þessi munnmælasaga tileinkuð honum. Síðuhaldari var að spá í að kveða sér hljóðs og segja hana í afmælinu á föstudaginn en sat á sér þar sem að dagskráin var löng og mikil. En úr því er bætt hér með:

Fyrir nokkrum árum voru Einar og Sigrún á leið í sund í Laugardalslaugina þegar þau verða fyrir því að bílaleigubíll keyrir aftan á þau. Þau stíga út úr bílnum og ræða við manninn sem talaði engilsaxnesku og var afskaplega afslappaður yfir þessu. Spurði bara hvort þau nenntu ekki að segja bílaleigunni frá þessu fyrir sig. Einari féll þessi framkoma nokkuð þungt og spurði manninn á sinni lærðu Essex-ensku af hverju í ósköpunum hann ætti að gera slíkt. Hann þekkti hvorki haus né sporð á manninum. Á þessum tímapunkti finnur Einar að Sigrún gefur honum blíðlegt olnbogaskot eins og hún gerir gjarnan þegar henni finnst hann ekki vera að haga sér skikkanlega. Einar lét sér fátt um finnast og hugsaði sem svo að hann væri búinn að vera manna kurteisastur alla sína ævi, og ætlaði ekki að láta þennan útlending komast upp með neinn moðreyk. Hann skipaði því Bretanum að hitta sig á bílaleigunni sem hann hefði leigt bílinn hjá. Á leiðinni þangað spyr Sigrún Einar hvort hann hafi virkilega ekki þekkt manninn. "Nei" svaraði Einar. "Kannaðistu ekkert við hann?" spurði hún. Einar vildi ekki láta svipta sig stoltinu og muldraði eitthvað að hann hefði kannast eitthvað við sauðasvipinn á honum. "Þessi maður er uppi um alla veggi í herberginu hjá honum Guðfinni," benti Sigrún honum á. Var þá þarna kominn enginn annar en söngvari Blur, Damon Albarn, sem Guðfinnur sonur þeirra hafði tekið í dýrðlingatölu í Hvassaleitinu nokkru fyrr. Það var víst fremur lágt risið á þingmanninum þegar á bílaleiguna var komið og hann hrökklaðist til Bretans til þess að biðja hann um eiginhandaráritun fyrir frumburðinn.

Blogg fólksins óskar Einari og family til hamingju með tímamótin.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?