<$BlogRSDURL$>

Wednesday, December 21, 2005

Orðrétt
"Stundum er rétt að skoða frasana sem fólk notar. Á heimasíðu Ögmundar Jónassonar skrifar einhver S. Pálsson og segir að hér séu engin miðjustjórnmál heldur vaði allt í óheftum kapítalisma, miðjan sé bara gríma sem nýfrjálshyggjan setur upp. Svo horfir maður aðeins í kringum sig – hvernig birtist nýfrjálshyggjan hér á Íslandi?

Jú, það er vissulega búið að einkavæða bankana, en bankar komust í einkaeigu hér árum og áratugum á eftir Evrópu, að meðtalinni hinni sósíaldemókratísku Skandinavíu. Margir hafa auðgast vegna þessarar einkavæðingar, en lánakjör almennings hafa llíka stórbatnað. Gömlu ríkisbankarnir voru raunar einhver stærsta svikamylla sem hefur verið til á Íslandi, gengu aðallega út á að rýja fólk inn að skyrtunni með vaxtaokri meðan peningum var útdeilt til gæluverkefna og fyrirtækja sem voru í náðinni hjá stjórnmálamönnum.

Hið sama má segja um símann – það þekkist hvergi núorðið að ríkið eigi símafyrirtæki, enda alveg ástæðulaust vegna mikillar samkeppni í símaþjónustu. Síminn var heldur engin góðgerðarstofnun meðan ríkið átti hann, heldur sannkölluð okurbúlla.

Á sama tíma tíðkast hér mikil miðstýring í heilbrigðiskerfinu sem færist frekar í aukana – bygging hátæknispítala vísar veginn í þá átt. Umfang velferðarkerfisins hefur farið vaxandi, líkt og fjölgun öryrkja ber vott um. Menntakerfið fram að háskólastigi er nánast eingöngu í höndum hins opinbera. Við rekum öflugt ríkisútvarp sem líklega mun frekar styrkjast með nýjum lögum, sinfóníuhljómsveit, þjóðleikhús, óperu. Ríki og borg ætla að fara að byggja risastórt tónlistarhús.

Svo er landbúnaðarkerfið í fast í viðjum ríkisafskipta, ofurtolla og hafta – hlutfallslega ver íslenska ríkið miklu meiru til landbúnaðar en hið alræmda Evrópusamband. Langstærsta framkvæmd síðari tíma á Íslandi, Kárahnjúkavirkjun, er svo í höndum ríkisfyrirtækis og á ábyrgð ríkisins. Hugmyndafræðilega er hún einhvers staðar á mörkum ríkiskapítalisma og áætlanabúskapar.

Hvar er þá öll nýfrjálshyggjan?
-Egill Helgason á vef Silfursins þann 19. desember 2005

This page is powered by Blogger. Isn't yours?